Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

953. fundur 17. febrúar 2021 kl. 11:30 - 12:38 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá

1.Samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra frá 2021

Málsnúmer 2102092Vakta málsnúmer

Lagður fram samningur um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk milli sveitarstjórna Akrahrepps, Blönduóssbæjar, Húnavatnshrepps, Húnaþings vestra, Skagabyggðar, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar, með gildistíma 1. mars 2021 til 28. febrúar 2022.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi samning fyrir sitt leyti og vísar honum til staðfestingar sveitarstjórnar.

2.Niðurstaða þarfagreiningar og tímalína framkvæmda við skólahúsnæði í Varmahlíð

Málsnúmer 2102167Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá Ólafi Bjarna Haraldssyni (Byggðalista):
"Fyrirspurn; niðurstaða þarfagreiningar og tímalína framkvæmda við skólahúsnæði í Varmahlíð.
Í sameiginlegri viljayfirlýsingu sveitarfélaganna sem standa að skólanum var samþykkt að setja af stað þarfagreiningu og hönnun gagngerra breytinga húsnæðis og lóðar fyrir leik- grunn- og tónlistarskóla, í núverandi húsnæði grunnskólans, og að sú vinna færi fram á árinu 2020. Framkvæmdir gætu svo hafist á árinu 2021, nema niðustaða verkefnisins leiði til annars. 210 milljónir eru á fjárhagsáætlun ársins til verkefnisins.
Hvenær er ráðgert að niðurstaða þarfagreiningar verði kynnt kjörnum fulltrúum, og má reikna með að framkvæmdir muni hefjst á næstu misserum?"
Lagt fram svar sveitarstjóra:
Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 11. mars 2020 var skipuð verkefnastjórn um uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð. Í hópnum sitja skólastjóri Leikskólans Birkilundar, skólastjóri Varmahlíðarskóla, skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar, fræðslustjóri, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og framkvæmdastjórar sveitarfélaganna. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs og starfsmaður eignasjóðs hafa einnig setið einstaka fundi eftir atvikum. Verkefnastjórn hefur starfað nokkuð ötullega síðan þótt Covid-19 faraldurinn hafi sett sitt mark á vinnuna og tafið framvindu verksins.
Verkefnastjórnin kom fyrst saman þann 6. apríl 2020 og hefur nú fundað 7 sinnum, síðast þann 28. janúar sl. Staðan í dag er sú að búið er að gera nýjar raunteikningar af húsnæði og lóð Varmahlíðarskóla eins og hann er í dag, í tví-og þrívídd, þannig að auðvelt er að hefja alla vinnu við hönnun mögulegra breytinga. Skólastjórar leik-, grunn- og tónlistarskóla hafa unnið þarfagreiningar fyrir þá aðstöðu og rými sem þau telja að gera þurfi ráð fyrir í húsnæði undir starfsemi skólanna, sé miðað við stöðuna í dag og horft til framtíðar. Verkefnastjórnin hefur einnig farið í vettvangsferð í nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu til að kynna sér mismunandi útfærslur á skólastarfi þar sem þessar skólaeiningar eru undir sama þaki. Búið er að semja við VA arkitekta um ráðgjöf sem lýtur að undirbúningi og hönnun vegna endurnýjunar og samþættingu leik-, grunn- og tónlistarskóla í Varmahlíð ásamt nánasta umhverfi. Felst ferlið m.a. í aðstoð við samráð við nærsamfélag skólanna þar sem þess verður gætt að allir fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri. Stuðst verður við svokallað „Design Down Process“ sem á íslensku mætti kalla undirbúningsferli hönnunar, frá hinu almenna til hins sérstæða, en þetta er ferli sem nýtt hefur verið víða með góðum árangri við hönnun skólabygginga. Hugmyndafræðin felst í því að hugsa nútímalega og til framtíðar og vera óhræddur við að brjóta aldagamlar hefðir. Lögð er áhersla á að tengja skólastarf nemenda við það sem er að gerast hjá fjölskyldum þeirra, í atvinnulífinu og í samfélaginu, taka mið af möguleikum upplýsingatækninnar, beita markmiðssetningu í skólastarfi og líta á sk
ólagöngu sem lið í símenntun einstaklinga sem stendur alla ævi.
Boðað hefur verið til tveggja samráðsfunda sem fram fara í lok febrúar og byrjun mars. Ráðgjafi mun í kjölfarið skila af sér greinargerð þar sem fjallað verður um hugmyndafræði hönnunarinnar og efnisnotkun, auk aðaluppdrátta. Gert er ráð fyrir að þegar greinargerðin liggur fyrir í apríl nk. verði hún kynnt kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna í Skagafirði. Í kjölfarið verður farið í hönnun rýmisins og er stefnt að því að aðaluppdrættir liggi fyrir í október nk. Reynist niðurstaða framangreindrar vinnu, samráðs og hönnunar leiða í ljós að vænlegt sé að ráðast í breytingar á núverandi húsnæði Varmahlíðarskóla með það að markmiði að skólarnir þrír verði undir sama þaki, verður sú tillaga lögð fyrir sveitarstjórnir sveitarfélaganna í Skagafirði til formlegrar afgreiðslu. Í kjölfarið ætti að vera hægt að ráðast í gerð séruppdrátta og gerð útboðsgagna framkvæmda, auk væntanlega skipunar formlegrar byggingarnefndar. Í þessu þarf að hafa til hliðsjónar heppilega áfangaskiptingu framkvæmdanna þannig að þær hafi sem minnst áhrif á skólastarf og séu í samræmi við fyrirhugaða fjárveitingu sveitarfélaganna til framkvæmda.
Gera má ráð fyrir að hægt sé að hefja tilteknar framkvæmdir við Varmahlíðarskóla á árinu 2021 sem nýtast húsnæðinu, óháð því hver niðurstaða framangreindrar vinnu verður. Hins vegar má gera ráð fyrir að útboð heildarframkvæmda geti orðið í lok árs 2021 eða upphafi árs 2022, ef ákvörðun sveitarfélaganna verður að ráðast í gagngerar breytingar á húsnæðinu sem nýtist starfi skólanna þriggja.

3.Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 2102107Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. til allra sveitarfélaga, dagsett 8. febrúar 2021 þar sem auglýst er eftir framboðum í stjórn sjóðsins. Erindið hefur verið sent sveitarstjórnarfulltúum sveitarfélagsins.

4.Skólagata 1 - Eignaskiptayfirlýsing

Málsnúmer 2102035Vakta málsnúmer

Lögð fram eignaskiptayfirlýsing vegna Skólagötu 1 á Hofsósi, landeignarnúmer L146655, F2143662 og F2513077, gerð af Þorvaldi E. Þorvaldssyni í janúar 2021.
Byggðarráð samþykkir framlagða eignarskiptayfirlýsingu.

5.Umsókn um lækkun fasteignaskatts 2021

Málsnúmer 2102084Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju, dagsettur 10. febrúar 2021, þar sem sótt er um niðurfellingu fasteignaskatts af Safnaðarheimilinu, Aðalgötu 1, Sauðárkróki, F2131092 á grundvelli reglugerðar nr 1160/2005.
Byggðarráð samþykkir að fella niður álagðan fasteignaskatt 2021 af fasteigninni.

6.Umsókn um lækkun fasteignaskatts 2021

Málsnúmer 2102137Vakta málsnúmer

Sjá trúnaðarbók.

7.Fjárhagsáætlun 2021 - Viðauki 2

Málsnúmer 2102049Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni um viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2021. Lagt er til að hækka framkvæmdafé Hafnarsjóðs Skagafjarðar um 15,5 mkr. og aukningu tekna um 2,5 mkr. Einnig eru hækkuð rekstrarframlög til málaflokks 05-Menningarmál um 2 mkr. og málaflokks 31-Eignasjóðs um 4 mkr. Gert er ráð fyrir að mæta þessum útgjödum með lækkun á handbæru fé.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun 2021 og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Samráð; Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál

Málsnúmer 2102124Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. febrúar 2021 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 37/2021, "Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi).". Umsagnarfrestur er til og með 23.02.2021.

Fundi slitið - kl. 12:38.