Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

1003. fundur 16. febrúar 2022 kl. 11:30 - 13:12 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Ingibjörg Huld Þórðardóttir varam.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Ólafur Bjarni Haraldsson og Álfhildur Leifsdóttir tóku þátt í fundinum með fjarfundabúnaði.

1.Kynning á starfsemi Bjargs íbúðafélags

Málsnúmer 2202075Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 1002. fundar byggðarráðs. Lagt fram bréf dagsett 3. febrúar 2022 frá Bjargi íbúðafélagi varðandi samstarf um uppbyggingu leiguíbúða. Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir (stofnframlög). Bjargi er ætlað að tryggja tekjulágum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Bjarg óskar eftir viðræðum um úthlutun lóðar og stofnframlags vegna byggingar leiguíbúða. Ljóst er að þörf er á átaki í íbúðamálum fyrir tekjulága einstaklinga/fjölskyldur og er mikilvægt að sem flest bæjar- og sveitarfélög taki þátt í þessu verkefni.
Björn Traustason framkvæmdastjóri félagsins tók þátt í fundinum undir þessum dagskrárlið og kynnti starfsemi félagsins.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir frekari upplýsingum frá félaginu.

2.Grænir iðngarðar - greining innviða

Málsnúmer 2202080Vakta málsnúmer

Grænir iðngarðar í Skagafirði - greining innviða. Málið áður á dagskrá 1002. fundar byggðarráðs. Lögð fram verktillaga frá KPMG ehf.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við KPMG ehf.

3.Reglur um viðveruskráningu

Málsnúmer 2202091Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins.

4.Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 2202126Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 11. febrúar 2022 frá kjörnefnd Lánasjóðs sveitarafélaga ohf. þar sem auglýst er eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.

5.Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Málsnúmer 2202138Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 11. febrúar 2022 frá nefndasviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 332. mál.
Þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða er nú lögð fram að nýju af umhverfisráðherra en tillagan var áður lögð fram sem 853. mál á 145. þingi, sem 207. mál á 146. þingi og 370. mál á 151 þingi. Var sú þingsályktunartillaga samhljóða lokatillögu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur áður sent inn umsagnir um drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Var umsögn m.a. samþykkt var á 751. fundi byggðarráðs, dags. 3. ágúst 2016: (https://www.skagafjordur.is/is/stjornsysla/skipulag/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/3267) Einnig á 779. fundi byggðarráðs, dags. 30. mars 2017: (https://www.skagafjordur.is/is/stjornsysla/skipulag/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/3806)

Einnig á 951. fundi byggðarráðs, dags. 3. febrúar 2021: https://www.skagafjordur.is/is/stjornsysla/skipulag/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/4835

Það sem fram kemur í fyrri umsögnum er ítrekað hér. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill með umsögn sinni benda á að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram fyrir Alþingi er aðeins lagt til að 1 virkjunarkostur á vatnasviði á Norðurlandi vestra verði í orkunýtingarflokki og 1 virkjunarkostur í vindorku. Er þar um að ræða annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulund, þar af aðeins um 30 MW í tiltölulega hagkvæmu vatnsafli. Í verndarflokk fara hins vegar 4 virkjunarkostir á vatnasviði á Norðurlandi vestra. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 48 frá árinu 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun, er stjórnvöldum „ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki eða eru á svæðum sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þá eru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar.“ Með öðrum orðum, nái tillaga ráðherra fram að ganga, verður með öllu óheimilt um ófyrirséða framtíð að stunda orkurannsóknir á þeim virkjunarkostum sem lagðir eru til að fari í verndarflokk á Norðurlandi vestra, nema fyrir Orkustofnun til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, í samanburðartilgangi eða öðrum almennum tilgangi. Er grafalvarlegt að umhverfisráðherra horfi í þingsályktunartillögu sinni með öllu fram hjá þeirri staðreynd að orkuskortur hefur orðið víða um land og að virkjanir og flutnings- og dreifikerfi raforku anna ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Orkuskortur kann því að hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s. rafbílavæðingu. Þetta hefur raunar þegar átt sér stað á Norðurlandi vestra en áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa strönduðu fyrir fáeinum árum síðan á orkuöflun. Umræddur iðnaður hefði skapað á þriðja hundrað beinna starfa og svipaðan fjölda afleiddra starfa og skipt gríðarlegu máli fyrir byggðaþróun á svæðinu öllu enda Hafursstaðir af mörgum orsökum einkar heppilegur staður, m.a. hvað varðar atvinnusókn og samgöngur af öllu Norðurlandi vestra. Þá hefur verið unnið að öðrum verkefnum á sviðum atvinnuuppbyggingar á svæðinu, t.a.m. hvað varðar framleiðslu koltrefja og basalttrefja í Skagafirði en þar er um að ræða afurðir orkufreks iðnaðar sem þykja henta einkar vel til umhverfisvænna lausna, s.s. í framleiðslu bíla, flugvéla, báta og vindmylluspaða. Um langt skeið hefur jafnframt verið unnið að annarri atvinnuuppbyggingu í bæði Skagafirði og Húnavatnssýslum og má þar t.d. nefna gagnaversiðnað. Enn eru ótalin tækifæri í tengslum við orkuskipti í samgöngum líkt og framleiðslu vetnis hér á landi en stjórnvöld hafa sett sér það markmið að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt hér á landi eigi síðar en árið 2030. Beinast liggur við að slíkt gerist í gegnum rafvæðingu og vetnisvæðingu samgöngutækja en til þess þarf endurnýjanlega orku í miklum mæli, í gegnum vatnsafl, jarðvarma eða vind. Öll eiga framangreind verkefni það sammerkt að krefjast tryggrar raforkuframleiðslu og orkuafhendingar. Áréttað skal hér að Alþingi hefur áður samþykkt þingsályktun um átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun, til að spyrna gegn byggðaröskun og fólksfækkun sem vart á sér hliðstæður hér á landi hin síðari ár. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir málsmeðferð verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og ofangreindri þingsályktunartillögu sem byggðarráð telur að brjóti í bága við ákvæði laga nr. 48 frá árinu 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Sé horft til hins lögbundna ferils mats á mögulegum orkunýtingarkostum, þá skal samkvæmt 4. mgr. 3. gr. sömu laga í verndar- og orkunýtingaráætlun „í samræmi við markmið laga þessara lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.“ Í því skyni skal skipuð verkefnisstjórn en hlutverk hennar er samkvæmt 9. gr. að „annast upplýsingasöfnun, faglegt mat, sbr. 4. mgr. 3. gr., og gerð tillagna til ráðherra vegna verndar- og orkunýtingaráætlunar og er [verkefnisstjórn] samráðsvettvangur vegna hennar. Verkefnisstjórn skal skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fari yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meti þá með stigagjöf og geri tillögur til verkefnisstjórnar.“ Í 10. gr. segir ennfremur að verkefnisstjórn skuli byggja „faglegt mat sitt á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætlun og beitir við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Vinna faghópa er lögð til grundvallar matinu.“ Verkefnisstjórn rammaáætlunar skipaði 4 faghópa og skiluðu einungis faghópar 1 og 2 fullnægjandi niðurstöðum. Niðurstöður faghóps 3 nýttust að mati verkefnisstjórnar ekki við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn að meta viðfangsefni faghópsins, samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda, með öðrum hætti. Faghópur 4 skilaði frá sér þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjunarkosta sem til umfjöllunar væru í þessum 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Að framansögðu er ljóst að ekki liggja fyrir upplýsingar um alla þá þætti sem ber samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 að hafa til hliðsjónar við mat á því hvort orkunýtingarkostir falli í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Samkvæmt 5. gr. laganna skal þá setja umrædda kosti í biðflokk en í „biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.“ Torvelt getur reynst að snúa neikvæðri byggðaþróun á Norðurlandi vestra við verði með öllu útilokað að hagnýta fleiri mögulega virkjunarkosti á svæðinu. Órökrétt er með öllu að jafnframt sé óheimilt að rannsaka þá sömu kosti til fulls með tilliti til heildstæðs hagsmunamats. Er það beinlínis andstætt lögum og tilgangi rammaáætlunar þar sem þeirri greiningarvinnu sem liggja á til grundvallar flokkun virkjanakostanna er mjög ábótavant, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Að mati meirihluta byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar er útilokað að setja mögulega virkjunarkosti í Skagafirði í verndarflokk án þess að ráðist sé í mun viðameiri rannsóknir og mat á áhrifum þeirra á náttúru og samfélag í Skagafirði og nágrenni og að þar séu rekjanlegar og gagnsæjar niðurstöður allra faghópa rammaáætlunar hafðar til hliðsjónar. Meirihluti byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer því fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk rammaáætlunar og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessir kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.
Gísli Sigurðsson og Ingibjörg Huld Þórðardóttir samþykkja ofangreinda bókun. Ólafur Bjarni Haraldsson (L) óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) situr hjá við afgreiðslu þessa dagskrárliðar og leggur fram svohljóðandi bókun:
Í rökstuðningi faghóps hvað varðar Héraðsvötn segir: ’Vatnasvið Héraðsvatna er með hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga og þá er virkjunarkosturinn Skatastaðavirkjun C með næsthæstu áhrifaeinkunn allra virkjunarkosta sem faghópurinn fjallaði um. Virkjunarkosturinn er á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu og virkjun á svæðinu mundi hafa í för með sér umtalsvert rask á hálendi, svo og á sífrerarústum og fleiri fyrirbærum sem Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á. Virkjun mundi slíta sundur vistkerfi og samfélög lífvera, hafa mikil neikvæð áhrif á vistgerðir með verulegt verndargildi samkvæmt náttúruverndarlögum og valda mikilli röskun vegna breytinga á rennsli og framburði, sérstaklega á flæðiengjum sem hafa mikið vistfræðilegt gildi og eru þær umfangsmestu á landinu. Þá gætu framkvæmdirnar spillt stórum minjaheildum í Austur- og Vesturdal frá árunum 870?1400, sem jafnvel eru einstakar á heimsvísu. Einnig yrði mikil skerðing á sjónrænni fjölbreytni og á fágætum landslagsgerðum. Í niðurstöðum faghóps 2 kemur fram að jökulsárnar í Skagafirði séu bestu ár á landinu, og jafnvel í Evrópu, til flúðasiglinga og að Jökulsá eystri sé sú eina á landinu þar sem hægt er að fara í tveggja daga siglingu. Árnar séu því mjög mikilvægar fyrir ferðaþjónustu bæði á landsvísu og í héraði. Virkjun þessara vatnsfalla mundi því í raun hafa meiri áhrif en meðaltal áhrifaeinkunna faghópsins gefur til kynna.’
VG og óháð fagna tillögu faghóps þess efnis að Héraðsvötn verði færð í verndarflokk með ofangreindum rökum. Héraðsvötnin eru verðmæt náttúruauðlind fyrir héraðið og koma til með að auka verðmæti sitt óspillt til framtíðar.

6.Auglýsing um ákv. ráðherra til að tryggja starfshæfi sveitarstjórna

Málsnúmer 2107154Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 9. febrúar 2022 frá innviðaráðuneytinu varðandi auglýsingu um ákvörðun innviðaráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga. Til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga er öllum sveitarstjórnum heimilt að taka ákvarðanir sem fela í sér tímabundin frávik frá ákvæðum samþykkta þeirra um stjórn sveitarfélaga, sem mæla fyrir framkvæmd fjarfunda, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.
Sveitarstjórnum er heimilt að taka þessar ákvarðanir á fundi þar sem allir fundarmenn taka þátt í fundinum með rafrænum hætti. Heimild þessi öðlast gildi 2. febrúar og gildir til 31. mars 2022.

Fundi slitið - kl. 13:12.