Fara í efni

Auglýsing umsóknar um byggðakvóta 2015-2016

Málsnúmer 1509089

Vakta málsnúmer

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 24. fundur - 21.09.2015

Tekið fyrir bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem bæjar- og sveitarstjórnum er gefinn kost á að sækja um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 og skal umsókn send fyrir 1. október nk. Nefndin felur starfsmönnum hennar að senda inn umsókn fyrir hönd sveitarfélagsins.

Nefndin vill hnykkja á því í umsókninni að lögð verði sérstök áhersla á að tekið verði tillit til erfiðrar stöðu Hofsóss og skerðinga liðinna ára þegar byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs verður úthlutað.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 332. fundur - 14.10.2015

Afgreiðsla 24. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 332. fundi sveitarstjórnar 14. október með níu atkvæðum.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 26. fundur - 06.11.2015

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar eindregið eftir því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið endurskoði ákvörðun sína um niðurfellingu byggðakvóta til Sauðárkróks og lækkun hans til Hofsóss úr 40 tonnum í 34 tonn. Nefndin fer fram á að byggðakvóta verði úthlutað til Sauðárkróks líkt og undanfarin ár þar sem niðurfelling kvótans yrði mikið högg fyrir smábátasjómenn á staðnum en 17 smábátar frá Sauðárkróki nýttu síðustu úthlutun byggðakvótans. Jafnframt fer nefndin fram á að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna á Hofsósi. Hofsós hefur átt undir högg að sækja frá því fiskvinnsla lagðist þar af og því mikilvægt að úthlutað sé auknum byggðarkvóta til byggðarlagsins líkt og gert hefur verið gagnvart byggðarlögum sem fengið hafa að taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar. Hofsós er á biðlista eftir að fá að taka þátt í því verkefni.

Nefndin felur starfsmönnum að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bréf þessa efnis með ítarlegri rökstuðningi fyrir endurskoðun ákvörðunar þess.

Tillögur nefndarinnar um breytingar á reglugerð nr. 605/2015 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa eru að lokum eftirfarandi og tekur nefndin fram að tillaga 1 á eingöngu við ef ráðuneytið fellst á að endurskoða ákvörðun sína um úthlutun byggðakvóta til Sauðárkróks.

1. Nýtt ákvæði 4. greinar reglugerðarinnar verður: ”Hámarksúthlutun fiskiskipa yfir 50 brúttótonnum af því aflamarki sem fallið hefur innan viðkomandi byggðarlags verður 6 þorskígildistonn á skip.“
2. Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd leggur jafnframt til að upphaf 6. greinar reglugerðarinnar breytist og verði: ”Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu í sveitarfélaginu að lágmarki 88% af því aflamarki sem þau fá úthlutað í gegnum byggðakvóta á tímabilinu...“ o.s.frv. Vinnsluskyldu verði aflétt að öðru leyti.
3. Þá leggur atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd til að í 6. grein reglugerðarinnar komi ákvæði um að skylt sé að landa afla í því byggðarlagi / á þeim stað sem honum er úthlutað til innan sveitarfélagsins.
4. Ennfremur leggur atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd til að sú skylda þeirra sem fá úthlutað byggðakvóta til að landa tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað til vinnslu, líkt og kveðið er á um í 6. grein reglugerðarinnar, verði felld niður.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 333. fundur - 11.11.2015

Afgreiðsla 26. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 333. fundi sveitarstjórnar 6. nóvember með átta atkvæðum.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 28. fundur - 17.12.2015

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar þá niðurstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að vilja ekki endurskoða ákvörðun sína um úthlutun byggðakvóta til Sauðárkróks og Hofsóss.

Ráðuneytið kýs að hafa að engu skýringar og ábendingar atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar varðandi vinnslu rækju af Íslandsmiðum á síðasta fiskveiðiári á Sauðárkróki og kemst fyrir vikið að þeirri niðurstöðu að úthluta engum byggðakvóta til Sauðárkróks á yfirstandandi fiskveiðiári.

Ljóst er að niðurfelling byggðakvóta til Sauðárkróks mun hafa áhrif á afkomu upp undir 20 smábátaeigenda og fjölskylda þeirra sem stunda útgerð frá Sauðárkróki og heggur í raun stórt skarð í tekjur þeirra.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar vísar allri ábyrgð þessa gjörnings yfir á atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið um leið og nefndin ítrekar fyrri áskorun um að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 29. fundur - 19.01.2016

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd samþykkir að senda erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, í ljósi breytinga á mögulegri vinnslu byggðakvóta í Skagafirði, þar sem óskað er eftir að úthlutun á byggðakvóta til Hofsóss og Sauðárkróks verði auglýst að nýju. Áhugasömum gefist þannig tækifæri að nýju til að sækja um byggðakvóta og gera samning um vinnslu afla fyrir byggðakvóta fiskveiðiársins 2015/2016.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 335. fundur - 20.01.2016

Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði til að sveitarstjórn geri bókun atvinnu- menningar- og kynningarnefndar að sinni. Það var samþykkt samhljóða með níu atkvæðum.
Bókunin hljóðar svo:

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar þá niðurstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að vilja ekki endurskoða ákvörðun sína um úthlutun byggðakvóta til Sauðárkróks og Hofsóss.

Ráðuneytið kýs að hafa að engu skýringar og ábendingar atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar varðandi vinnslu rækju af Íslandsmiðum á síðasta fiskveiðiári á Sauðárkróki og kemst fyrir vikið að þeirri niðurstöðu að úthluta engum byggðakvóta til Sauðárkróks á yfirstandandi fiskveiðiári.

Ljóst er að niðurfelling byggðakvóta til Sauðárkróks mun hafa áhrif á afkomu upp undir 20 smábátaeigenda og fjölskylda þeirra sem stunda útgerð frá Sauðárkróki og heggur í raun stórt skarð í tekjur þeirra.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar vísar allri ábyrgð þessa gjörnings yfir á atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið um leið og sveitarstjórn ítrekar fyrri áskorun atvinnu- menningar- og kynningarnefndar, um að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Afgreiðsla 28. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 335. fundi sveitarstjórnar 20. janúar 2016 með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 335. fundur - 20.01.2016

Afgreiðsla 29. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 335. fundi sveitarstjórnar 20. janúar 2016 með níu atkvæðum.