Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

998. fundur 12. janúar 2022 kl. 14:00 - 15:47 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Stefán Vagn Stefánsson varaform.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Ólafur Bjarni Haraldsson tók þátt í fundinum með fjarfundabúnaði.

1.Starfsemi Háskólans á Hólum

Málsnúmer 2201079Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið komu fulltrúar Háskólans á Hólum, Erla Björk Örnólfsdóttir rektor og Bjarni Kristófer Kristjánsson og Stefán Óli Steingrímsson til viðræðu um starfsemi skólans.

2.Viljayfirlýsing

Málsnúmer 2201081Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur hafa unnið að undirbúningi breytinga húsnæðis og lóðar fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla í Varmahlíð. Hófst vinnan í kjölfar samþykktar viljayfirlýsingar í sveitarstjórnum beggja sveitarfélaga frá haustinu 2019 um að stefnt skyldi að uppbyggingu skólamannvirkja fyrir skólana á einum stað í núverandi húsnæði Varmahlíðarskóla. Sérstök verkefnisstjórn hefur haft umsjón með vinnunni en hún er skipuð skólastjórum skólanna þriggja, fræðslustjóra, sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs, auk framkvæmdastjóra beggja sveitarfélaga.
Afurð vinnunnar er nú að líta dagsins ljós en í kjölfar þarfagreiningar, vinnslu nýrra raunteikninga af byggingu og lóð, kynnisferðar í nokkra skóla og íbúafunda þar sem allir íbúar og hagaðilar gátu komið sínum sjónarmiðum og áherslum á framfæri, liggja nú fyrir aðaluppdrættir af breytingum á húsnæði Varmahlíðarskóla ásamt nýrri viðbyggingu. Þar er áhersla lögð á fjölbreytt og öflugt skólastarf í takt við kröfur og þarfir nútímans og til fyrirsjáanlegrar framtíðar, ásamt því sem hönnunin miðar að því að byggingarnar veiti svigrúm til þess að þær geti þjónað sem ákveðinn miðpunktur samfélagsins í framhéraði Skagafjarðar og verði vettvangur þar sem kynslóðir geti mæst. Enn fremur er horft til þess að íbúaþróun verði jákvæð og til uppbyggingar í Varmahlíð en samkvæmt nýju aðalskipulagi á að úthluta um 30 nýjum lóðum þar á næstu misserum. Gerir hönnun nýrra skólamannvirkja ráð fyrir að nemendafjöldi skólanna geti aukist um allt að 50% frá því sem nú er, en nemendur í leikskólanum Birkilundi eru í dag 37 og 104 stunda nám í Varmahlíðarskóla. Er þessi áætlun um aukinn nemendafjölda jafnframt í anda áherslu sveitarfélaganna á að Varmahlíð verði áfram miðstöð og þjónustukjarni framhéraðs Skagafjarðar þar sem á annað þúsund íbúar búa í dag. Hönnunaruppdrættir verða á næstu dögum lagðir fram til kynningar á heimasíðum sveitarfélaganna tveggja, auk þess sem þeir munu verða til sýnis í húsnæði skólanna í Varmahlíð.
Þann 19. febrúar nk. verður kosið um sameiningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps. Núverandi sveitarstjórnir eru sammála um að leiði niðurstaða kosninga á meðal íbúa til sameiningar þeirra þá muni þau sameiningarfjárframlög sem renna til nýs sveitarfélags alfarið verða nýtt til þess að hraða uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð eins og frekast er kostur. Sveitarfélögin eru jafnframt sammála um að sameiningarframlögin styrkja ekki aðeins hraðari uppbyggingu í Varmahlíð heldur veita þau einnig aukið svigrúm til frekari framkvæmda á Hofsósi, Sauðárkróki, Hólum, Steinsstöðum og í dreifbýli Skagafjarðar.
Sameinað sveitarfélag allra Skagfirðinga hefur allar forsendur til að vera leiðandi sveitarfélag á landsvísu með áherslu á einfalda og skilvirka stjórnsýslu með skýrum farvegi fyrir sjónarmið íbúa. Bætt búsetuskilyrði og framúrskarandi þjónusta til framtíðar verða leiðarstef nýs sveitarfélags, auk þess sem sameinaður Skagafjörður hefur sterkari rödd til að koma hagsmunum allra íbúa og atvinnulífs í Skagafirði á framfæri.

3.Stofnun veiðifélags um vötn og vatnsföll á Eyvindarstaðaheiði

Málsnúmer 1901165Vakta málsnúmer

Unnið er að stofnun veiðifélags með Sjálfseignarstofnuninni Eyvindarstaðaheiði um Aðalsmannsvatn (Bugavatn) (ISN93: 479.628, 525.432) , Bugalæk, (Vopnalækur, Opnilækur) Bugakvísl-eystri og vestri. Blönduvatn ( ISN93: 475.171, 517.300), Þúfnavatn (ISN93: 477.385, 507.638) og Þúfnalæk (Þúfnavatnslækur).
Byggðarráð samþykkir stofnun veiðifélagsins og að Björn Ólafsson og Kári Gunnarsson verði aðalmenn í stjórn félagsins og Björn Grétar Friðriksson og Aron Pétursson til vara. Byggðarráð samþykkir að vísa afgreiðslunni til staðfestingar sveitarstjórnar.
Ólafur Bjarni Haraldsson óskar bókað að hann taki ekki þátt í afgreiðslunni.

4.Aðalgata 16c - Umsókn um lóð

Málsnúmer 2111120Vakta málsnúmer

Lögð fram bókun 417. fundar skipulags- og byggingarnefndar frá 18. nóvember 2022. Byggðarráð hefur fjallað um erindið sem varðar umsókn Kaupfélags Skagfirðinga um lóðina Aðalgötu 16c og sameiningu lóðarinnar við lóð Aðalgötu 16b. Verði af þessu er Kaupfélag Skagfirðinga tilbúið til að sjá um og kosta flutning á því húsi sem nú stendur á lóð Aðalgötu 16c, auk þess sem komið hefur fram í svörum frá félaginu að það hyggist útbúa bílastæði á lóðinni sem myndu þjóna herbergjum sem ætluð eru fötluðu fólki í gistiheimili á Aðalgötu 16b. Byggðarráð leitaði jafnframt álits atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar á málinu en í bókun frá 95. fundi nefndarinnar kemur fram að hún taki vel í hugmyndir um flutning Maddömukots af núverandi lóð. Að höfðu samráði við forstöðumenn Byggðasafns Skagfirðinga og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga leggur nefndin til að skoðað verði að flytja húsið á Tengilsreitinn, Aðalgötu 24. Nefndin leggur til að skýrsla um framtíðarsýn um sýningarhald Byggðasafns Skagfirðinga á Sauðárkróki sem var til umfjöllunar á 93. fundi nefndarinnar þann 21. október sl. verði höfð til hliðsjónar við hönnun svæðisins. Jafnframt bendir nefndin á að skylt er að leita umsagnar Minjastofnunar Íslands þar sem húsið er aldursfriðað. Nefndin óskar eftir því að vinna tillöguna um heildarhönnun svæðisins og nýtingu Maddömukots í samráði við byggðarráð.
Byggðarráð samþykkir fyrir sitt leyti mögulegan flutning hússins og vísar skoðun þess efnis til deiliskipulagsgerðar svæðisins í kringum Aðalgötu 24 sem unnin verður á vegum skipulags- og byggingarnefndar. Byggðarráð leggur til að hönnun svokallaðs Tengilsreits verði unnin í samráði við atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd með það í huga að Maddömukot geti nýst sýningarhaldi á vegum Byggðasafns Skagfirðinga. Þá áréttar byggðarráð að skylt sé að leita umsagnar Minjastofnunar Íslands þar sem húsið er aldursfriðað.

5.Kjörstaðir v sameiningar, 19. febr. 2022

Málsnúmer 2201035Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir að svohljóðandi tillögu verði vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar:
Lagt er til að kjörstaðir í Sveitarfélaginu Skagafirði vegna kosninga um sameiningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps laugardaginn 19. febrúar 2022 verði eftirtaldir:
Skagasel, Bóknámshús FNV, Varmahlíðarskóli, Félagsheimilið Árgarður, Grunnskólinn á Hólum, Félagsheimilið Höfðaborg, Félagsheimilið Ketilás.

6.Samráð; Áform um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138 2011

Málsnúmer 2201046Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 4. janúar 2022 þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 238/2021, "Áform um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011". Umsagnarfrestur er til og með 14.01.2022. Áformað er að breyta sveitarstjórnarlögum á þann veg að mælt verði með skýrari hætti fyrir um hvaða reglur skuli gilda um íbúakosningar.
Byggðarráð tekur undir markmið frumvarpsins.

7.Orkufundur 2021

Málsnúmer 2104179Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 5. janúar 2022 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar sem fram kemur að orkufundur á vegum Samtaka orkusveitarfélaga, sem stóð til að halda í maí á síðasta ári en var frestað, verður haldinn í fjarfundi föstudaginn 14. janúar 2022 milli 10:00 - 12:00. Yfirskrift fundarins er Orka og matvælaframleiðsla.

Fundi slitið - kl. 15:47.