Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

582. fundur 09. febrúar 2012 kl. 09:00 - 11:37 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Bjarni Jónsson varaform.
  • Jón Magnússon aðalm.
  • Þorsteinn Tómas Broddason áheyrnarftr.
  • Sigurjón Þórðarson áheyrnarftr.
  • Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar óskar Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndra að bóka eftirfarandi: Lýst er yfir furðu að fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir við Árskóla fái ekki umfjöllun í byggðarráði sveitarfélagsins þar sem framkvæmdirnar eru ekki í samræmi við nýsamþykkta fjárhagáætlun sveitarfélagsins og munu fyrirsjáanlega auka skuldabyrði sveitarfélagsins Skagafjarðar langt upp fyrir lögbundið nýsamþykkt skuldaþak.

Byggðarráð óskar bókað: Fyrir liggur að ákveðið hefur verið að næsta skref sé að kynna tillögur byggingarnefndar Árskóla, sem samþykktar voru á siðasta byggðarráðsfundi, fyrir fulltrúum í sveitarsstjórn. Eðlilegt er að sveitarstjórnarfulltrúum sé gefinn kostur á að kynna sér vel tillögu að fyrsta áfanga viðbyggingar við Árskóla áður en lengra er haldið með málið.

1.Fornleifavernd ríkisins

Málsnúmer 1202084Vakta málsnúmer

Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra kom á fund byggðarráðs til viðræðu um málefni minjavörslu.

2.Siðareglur

Málsnúmer 1112324Vakta málsnúmer

Erindinu vísað til byggðarráðs af 285. fundi sveitarstjórnar, þar sem það var lagt fyrir til fyrri umræðu. Hrefna Gerður Björnsdóttir kom á fundinn og fór yfir fyrirliggjandi drög að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa sveitarfélagsins.

Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi drög með áorðnum breytingum og vísar þeim til síðari umræðu í sveitarstjórn. Byggðarráð þakkar Hrefnu Gerði fyrir vel unnin störf við gerð reglnanna.

3.Fyrirspurnir fyrir byggðarráð

Málsnúmer 1201290Vakta málsnúmer

Í framhaldi af afgreiðslu 581. fundar byggðarráðs, þá mætti María Björk Ingvadóttir frístundastjóri á fundinn undir þessum dagskrárlið til að ræða styttingu á opnunartíma sundlauga í sveitarfélaginu og launamál á frístundasviði.

4.Beiðni um aukið samstarf

Málsnúmer 1202052Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Hönnu Dóru Björnsdóttur, ráðgjafa VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hjá stéttarfélögunum á Norðurlandi vestra, þar sem hún óskar eftir auknu samstarfi við Sveitarfélagið Skagafjörð sem miðar að því að auka starfshæfni fólks á vinnumarkaði og styrkja þannig einstaklinga til þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu.

Byggðarráð samþykkir að bjóða Hönnu Dóru á næsta fund byggðarráðs til viðræðu um verkefnið.

5.Umsögn um fjögurra ára samgönguáætlun

Málsnúmer 1202062Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um fjögurra ára samgönguáætlun 2011-2014, 392. mál.

Byggðarráð lýsir furðu á að Sveitarfélagsins Skagafjarðar sé hvergi getið í samgönguáætlun til lengri jafnt sem skemmri tíma. Fjöldi verkefna í samgöngumálum blasa við innan héraðsins og kallar byggðarráð eftir endurskoðun á fyrirliggjandi áætlun. Óskar byggðarráð eftir samráði við leiðréttingar á áætluninni.

6.Umsögn um samgönguáætlun 2011 - 2022

Málsnúmer 1202063Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um samgönguáætlun 2011-2022, 393. mál.

Byggðarráð lýsir furðu á að Sveitarfélagsins Skagafjarðar sé hvergi getið í samgönguáætlun til lengri jafnt sem skemmri tíma. Fjöldi verkefna í samgöngumálum blasa við innan héraðsins og kallar byggðarráð eftir endurskoðun á fyrirliggjandi áætlun. Óskar byggðarráð eftir samráði við leiðréttingar á áætluninni.

7.Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, mál 408

Málsnúmer 1202079Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá atvinnuveganefnd Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (þjóðareign á nytjastofnum og nýtingarréttur), 408. mál.

Byggðarráð ítrekar eftirfarandi bókun ráðsins um stjórn fiskveiða frá 563. fundi, 18. ágúst 2011 og var staðfest á 281. fundi sveitarstjórnar 23. ágúst 2011.

"Byggðarráð samþykkir svohljóðandi bókun: Mikilvægt er að kveðið sé á um það í lögum að nytjastofnar við Ísland séu í óskoraðri þjóðareign og að réttur sjávarbyggða og íbúa þeirra verði tryggður gagnvart nýtingu auðlindarinnar. Þá þarf að vera tryggt að atvinnugreininni sé búið nauðsynlegt rekstraröryggi ásamt því að gætt sé að hagkvæmnissjónarmiðum í þeirri umgjörð sem sjávarútvegi er búin af hálfu stjórnvalda. Byggðaráð Skagafjarðar leggur áherslu á að ekki verði gerðar neinar þær breytingar á lögum er varða sjávarútveg, sem er ein mikilvægasta atvinnugrein héraðsins, er orðið geti til að veikja stöðu byggðalagsins. Grundvallar markmið lagabreytinga þarf að vera að styrkja veiðar og vinnslu í sjávarbyggðum og auka búsetuöryggi á svæðum sem byggja afkomu sína að stóru leiti á sjávarútvegi."

8.Bakkaflöt Ferðaþjónusta-Umsagnarbeiðni v.rekstarleyfi

Málsnúmer 1202075Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Sigurði Friðrikssyni um endurnýjun á rekstrarleyfi fyrir Bakkaflöt - Ferðaþjónustu sem er gististaður með aðstöðu þar sem hvers kyns veitingar í mat og drykk eru veittar, þ.m.t. áfengisveitingar. Gististaður - flokkur V.

Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við endurnýjun rekstrarleyfisins.

9.Bréf til forsætisráðherra frá SSNV - ósk um samstarf

Málsnúmer 1202082Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar annars vegar afrit af bréfi dagsettu 21. nóvember 2011, frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, varðandi alvarlega stöðu á Norðurlandi vestra - ósk um samstarf um sértækar aðgerðir í landshlutanum. Hins vegar afrit af bréfi dagsettu 31. janúar 2012, frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, til ítrekunar á erindinu frá 21. nóvember 2011.

Byggðarráð samþykkir svohljóðandi bókun:

"Skorað er á forsætisráðherra og oddvita ríkisstjórnar Íslands að svara ákalli landshlutans og stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum. Stjórn SSNV hefur undanfarna mánuði ítrekað óskað eftir fundi með forsætisráðherra án árangurs til að ræða mjög erfiða stöðu byggða á Norðurlandi vestra og leggja fram tillögur til lausna á þeim vanda. Ekki er hægt að una slíkum samskiptum á milli stjórnsýslustiga og ámælisvert að æðstu ráðmenn landsins skuli koma þannig fram við heilu landshlutana. Á skömmum tíma hafa verið flutt burtu eða lögð af 45 opinber störf í Skagafirði og í ljósi nýsamþykktra fjárlaga stefnir í að fyrir árslok hafi 65 stöðugildi horfið úr héraði á árunum 2008-2012. Ábyrgð stjórnvalda er því mikil eins og þær tölur sýna og hægt að tengja fólksfækkun beint við stjórnvaldsaðgerðir sem bitnað hafa á svæðinu. Við það bætist veruleg skerðing á fjárframlögum til verkefna og þjónustu á svæðinu umfram aðra landshluta. Ekki þolir neina bið að gripið verði til aðgerða til snúa þessari þróun við með samhentu átaki stjórnvalda og heimamanna."

Fundi slitið - kl. 11:37.