Fara í efni

Fræðslunefnd

13. fundur 12. apríl 2023 kl. 16:30 - 18:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Regína Valdimarsdóttir formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir aðalm.
  • Agnar Halldór Gunnarsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri
  • Ásrún Leósdóttir áheyrnarftr. leiksk.kennara
  • Jóhann Bjarnason skólastjóri grunnskóla
  • Vildís Björk Bjarkadóttir áheyrnarftr. foreldra grunnsk.barna
  • Sigrún Benediktsdóttir áheyrnarftr. grunnsk.kennara
  • Heiðrún Ósk Eymundsdóttir áheyrnarftr. foreldra leiksk.barna
  • Ragnar Helgason sérfræðingur á fjölskyldusviði
Fundargerð ritaði: Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri
Dagskrá

1.Framkvæmdir við skólamannvirki í Skagafirði

Málsnúmer 2304014Vakta málsnúmer

Steinn Leó, sviðsstjóri veitu - og framkvæmdasviðs, kynnti helstu framkvæmdir við skólamannvirki í Skagafirði. Miklar framkvæmdir eru á dagskrá, sem snúa bæði að uppbyggingu og endurbótum. Verið er að bjóða út framkvæmdir við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi, sem snúa m.a. að þakskiptum á eldri byggingu, klæðningu á norðurhlið hennar, klæðningu og gluggaskiptum á vesturhlið nýrri byggingar og endurgerð snyrtinga. Fyrirhugað er að ráðast í enn frekari uppbyggingu á Hofsósi með nýju íþróttahúsi og sömuleiðis er verið að þarfagreina innra rými grunnskólans. Einnig hefur verið samþykkt að bjóða út framkvæmdir við Árskóla sem snúa að endurbótum á A-álmu skólans, gluggaskiptum í sömu álmu og klæðningu á vesturhlið. Í Varmahlíð er verið að leggja lokahönd á hönnun skólahúsnæðis og stefnt á að bjóða út fyrsta hluta leikskólaframkvæmdarinnar í sumar.

.



2.Skólahald á Hólum

Málsnúmer 2304013Vakta málsnúmer

Samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla er hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Aðalnámskrá grunnskóla er rammi um skólastarfið og veitir sveitarfélögum og skólum leiðsögn um framkvæmd skólastarfsins. Fyrir utan ákvæði um almenna menntun sem og greinabundna menntun veitir aðalnámskrá leiðsögn um hvernig skólum ber að tryggja heilbrigði og velferð nemenda sem byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.
Nám og námsaðferðir nemenda eru einstaklingsbundnar og geta verið mismunandi. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Leikur og samskipti við samnemendur er jafnframt mikilvæg námsaðferð sem opnar víddir sköpunargleði barna og ungmenna og hjálpar þeim að finna hæfileikum sínum farveg. Þá eru samskipti, samtal og speglun eigin skoðana og viðhorfa afar mikilvægur þáttur í námi og þroska.
Í ljósi fækkunar nemenda á miðstigi við Grunnskólann austan Vatna á Hólum þykir ljóst að erfitt er að veita nemendum þar viðeigandi tækifæri til að þroska ofangreinda þætti sem og tryggja þeim þá greinabundnu menntun sem þeir eiga rétt á.
Með hliðsjón af þessu leggur fræðslunefnd til að miðstig Grunnskólans austan Vatna á Hólum verði sameinað við miðstigið á Hofsósi og að kennsla muni því eingöngu fara fram á Hofsósi. Lagt er til að ákvörðun þessi taki gildi við upphaf næsta skólaárs, þ.e. 2023-2024. Yngsta stig skólans verði áfram á báðum stöðum, Hofsósi og Hólum. Fræðslunefnd mun skoða hvernig skólastarfi verður best fyrir komið á Hólum og hvort eða hvernig hægt verði að auka samstarf á milli leik - og grunnskóla. Nefndin vísar málinu til byggðaráðs.

3.Breytingar á skóladagatali Árskóla

Málsnúmer 2304017Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd samþykkti skóladagatöl leik- og grunnskóla fyrir skólaárið 2022 - 2023 á fundi sínum þann 19.05.2022. Stjórnendur Árskóla, með samþykki skólaráðs og starfsfólks skólans, óska eftir breytingu á skóladagatali vegna Árskóladags sem haldinn hefur verið árlega undanfarin ár. Breytingin felst í því að halda Árskóladag seinnipart dags þann 16. maí og fella niður skólahald föstudaginn 21. apríl í staðinn. Fræðslunenfnd samþykkir breytinguna. Fræðslunefnd leggur jafnframt til að fundargerðir skólaráða verði teknar fyrir jafn óðum í fræðslunefnd í þeim tilgangi að upplýsa um umræður og ákvarðanir innan skólaráða skólanna.

4.Öryggismyndavélar

Málsnúmer 2209351Vakta málsnúmer

Á fundi fræðslunefndar þann 19.10.2022 var samþykkt að fela sviðsstjóra að vinna að uppsetningu öryggismyndavéla við Árskóla og íþróttahúss. Í kjölfar skoðunar á ýmsum flötum málsins var ákveðið að öryggisstjóri sveitarfélagsins ynni málið fyrir hönd þess og leitaði eftir hentugum búnaði og samstarfsaðila um verkefnið. Samhliða vinnu öryggisstjóra vinna starfsmenn fræðsluþjónustu að reglum um notkun og aðgang slíkra myndavéla í samræmi við minnisblað sem fræðslunefnd fjallaði um á fundi sínum þann 19.10.2022. Reglurnar ásamt ákvörðun um tækjabúnað verða kynntar nefndinni þegar þær liggja fyrir. Fræðslunefnd leggur áherslu á að málið verði unnið hratt og örugglega.

Fundi slitið - kl. 18:15.