Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2018-2021

Málsnúmer 1708039

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 793. fundur - 14.09.2017

Sveitarstjóri fór yfir verklag vegna fjárhagsáætlunar 2018-2021. Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi verklag.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 800. fundur - 16.11.2017

Lagður fram fjárhagsrammi fyrir rekstur sveitarfélagsins árið 2018.
Byggðarráð samþykkir framlagðan fjárhagsramma og vísar honum til viðkomandi nefnda.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 801. fundur - 23.11.2017

Farið yfir fjárhagsáætlun 2018-2021.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 802. fundur - 27.11.2017

Lögð fram fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árin 2018-2022.
Byggðarráð samþykkir að vísa áætluninni til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 361. fundur - 29.11.2017

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess fyrir árin 2018-2022 lögð fram til fyrri umræðu. Sveitarstjóri, Ásta Björg Pálmadóttir kynnti fjárhagsáætlunina. Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2018-2022 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt samhljóða með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 803. fundur - 30.11.2017

Unnið með fjárhagsáætlun 2018-2022. Á fund nefndarinnar komu eftirtalin til viðræðu:
Gunnsteinn Björnsson formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar og Sigfús Ingi Sigfússon verkefnastjóri komu kl. 09:25. Farið yfir áætlanir málaflokka 05-Menningarmál og 13-Atvinnumál. Véku þeir af fundi kl. 10:00.
Bjarki Tryggvason formaður félags- og tómstundanefndar, Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Bertína Rodriguez sérfræðingur á fjölskyldusviði komu á fundinn kl. 10:00. Farið yfir áætlun málaflokka 02-Félagsþjónusta, 06-Æskulýðs- og íþróttamál. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir vék af fundi á meðan umfjöllun fór fram um málaflokk 02-Félagsþjónustu. Bjarki vék af fundi kl. 11:10.
Þórdís Friðbjörnsdóttir formaður fræðslunefndar kom á fundinn kl. 11:10. Farið yfir áætlun málaflokks 04-Fræðslumál. Véku Þórdís, Herdís og Bertína af fundi kl. 12:00.
Margeir Friðriksson fór yfir áætlun málaflokks 21-Sameiginlegir liðir.
Jón Örn Berndsen skipulags- og byggingarfulltrúi kom á fundinn kl. 12:30 og fór yfir fjárhagsáætlun málaflokks 09-Skipulags- og byggingarmál. Vék hann af fundi kl. 12:50.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 804. fundur - 04.12.2017

Unnið með fjárhagsáætlun 2018-2022. Á fund nefndarinnar komu eftirtalin til viðræðu:
Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri kom á fundinn kl. 8:15 og fór yfir fjárhagsáætlun hjá málaflokki 07-bruna- og almannavarnir. Svavar vék af fundi kl 9:00. Sigríður Magnúsdóttir formaður umhverfis-og samgöngunefndar kom á fundinn kl 9:00 og fór yfir málaflokka 08-hreinlætismál, 10-umferðar - og samgöngumál, 11- umhverfismál og 53 - fráveita, ásamt Indriða Þór Einarssyni sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs. Sigríður vék af fundi kl 10:00. Gísli Sigurðsson formaður veitunefndar kom á fundinn kl. 10:00 og fór yfir málaflokka 67-hitaveita, 63-vatnsveita og 65-sjóveita ásamt Indriða Þór Einarssyni. Gísli Sigurðsson vék af fundi kl.11:00. Indriði Þór Einarsson fór yfir fjárhagsáætlun málaflokk 41-hafnarsjóður.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 805. fundur - 07.12.2017

Farið yfir og unnið með fjárhagsáætlun 2018-2022.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 806. fundur - 11.12.2017

Byggðarráð samþykkir með þremur atkvæðum að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 362. fundur - 13.12.2017

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2018- 2022 er lögð fram til seinni umræðu.
Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlunina.
Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.
Forsendur fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2018 og áætlunar fyrir árin 2019-2022 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar nemi 5.189 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A- hluta áætlaðar 4.551 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 4.783 m.kr., þ.a. A hluti 4.334 m.kr. Rekstrarafgangur A og B hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 608 m.kr, afskriftir nema 202 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 260 m.kr., rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A og B hluta er áætluð jákvæð samtals með 146 m.kr. í rekstrarafgang.
Rekstrarafgangur A hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 330 m.kr, afskriftir nema 113 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 201 m.kr. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 16 m.kr.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2017, 8.737 m.kr., þ.a. eignir A hluta 7.241 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 6.516 m.kr., þ.a. hjá A hluta 6.115 m.kr. Eigið fé er áætlað 2.221 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 0,25. Eigið fé A hluta er áætlað 1.126 m.kr. og eiginfjárhlutfall 0,15.
Ný lántaka er áætluð 460 m.kr. hjá samstæðunni í heild og að afborganir eldri lána og skuldbindinga verði um 429 m.kr. Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.279 m.kr. hjá samstæðu, þar af 1.162 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 125% og skuldaviðmið 107%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A - hluta verði 249 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A og B hluta verði samtals 482 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 217 m.kr. hjá samstæðunni í heild.

Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
Um margt hefur verið að ganga vel í Skagfirsku samfélagi, uppbygging og gott atvinnuástand. Sveitarsjóður nýtur góðs af því í gegnum skatta og gjöld. Rekstrarumhverfi sveitarfélaga á landinu hefur batnað til muna síðastliðin tvö ár og tekjur flestra þeirra aukist. Því skiluðu flest þeirra rekstrarbata á síðasta ári og munu gera á árinu sem er að líða. Sömuleiðis er ekki eins þungt fyrir í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2018. Hér er Sveitarfélagið Skagafjörður engin undantekning, né hefur sérstöðu hvað það varðar. Stefnt er að því að rekstur A hluta verði jákvæður á næsta ári, sem er vel og sömuleiðis að rekstur B hluta fyrirtækja skili sveitarfélaginu verulegum ábata, auk verulegs tekjuauka úr fleiri áttum. Þannig gæti hækkað fasteignamat eitt og sér skilað sér í um 50 milljóna viðbótartekjum.
Ráðist var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir árið 2012 sem öll sveitarstjórn stóð sameiginlega að. Skiluðu þær aðgerðir umtalsverðum árangri fyrir rekstur sveitarfélagsins og stofnanna þess sem við búum enn að, án þess að dregið væri úr þjónustu eða auknar álögur settar á íbúa. Þrátt fyrir að ytri skilyrði séu nú rekstri sveitarfélagsins og stofnanna þess hagstæð er því mikilvægt að auðsýna virkt aðhald og festu. Skuldahlutfall sveitarfélagsins verður áfram mjög hátt miðað við framlagða fjárhagsáætlun og gæti í lok næsta árs orðið um 125%. Þessari skuldabyrði þarf að ná enn frekar niður líkt og svo mörgum öðrum sveitarfélögum hefur tekist síðustu ár.
Á heildina litið er enn fylgt stefnumörkun meirihluta síðustu sveitarstjórnar sem kynnt var við upphaf kjörtímabilsins 2010-2014, m.a um þjónustu, framkvæmdir og uppbyggingu innviða og er það vel. Nýr meirihluti sveitarstjórnar hefur hins vegar ekki enn, nú þegar kjörtímabilinu er að ljúka, kynnt stefnumörkun sína fyrir sveitarfélagið eða sett fram heildstæða stefnu um forgangsverkefni og áherslur á yfirstandandi kjörtímabili. Hverfandi væntingar eru um að þeim takist það úr þessu fyrir vorið.
VG og óháð leggja áherslu á að sveitarfélagið bjóði upp á góða og ódýra þjónustu við börn og barnafólk og styðja því ekki gjaldskrárhækkanir meirihlutans hvort sem er í leikskólum eða fæðisgjöldum grunn- og leikskóla og að auknum kostnaði sé velt yfir á börn og fjölskyldur þeirra. Í anda þeirrar fjölskylduvænu stefnu sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili voru þessi gjöld orðin þau lægstu á landinu. Nú er öldin önnur og þær hækkanir sem hafa orðið umfram mörg önnur sveitarfélög, bera vart slíkri stefnumörkun vitni.
Það er bagalegt hve undirbúningur og upphaf mikilvægra framkvæmda sem samstaða hefur verið um, hefur dregist fram á síðustu metra kjörtímabilsins, bæði vegna þess að þeirra er þörf sem fyrst og að framkvæmdum sé jafnað sem mest milli ára og eins hefur framkvæmdakostnaður á mörgum sviðum rokið upp nú um mundir. Hér skiptir skýr stefnumörkun og forgangsröðun miklu máli og eftirfylgni hennar.
Fulltrúar allra framboða í nefndum sveitarfélagsins hafa ásamt starfsfólki Skagafjarðar unnið mikið starf í undirbúningi fjárhagsáætlunar ársins 2018. Fulltrúar hafa verið samstíga um flest, en í öðru er áherlumunur. Fyrir hönd alls nefndarfólks VG og óháðra eru samstarfólki færðar þakkir fyrir samstarfið og starfsfólki sveitarfélagsins sömuleiðis þakkað fyrir gott verk við vinnslu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og stofnanna þess.
Fyrir hönd VG og óháðra situr undirritaður hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2018.
Bjarni Jónsson, VG og óháðum

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsáætlun er nú lögð fram í síðasta skipti á þessu kjörtímabili. Áætlunin hefur verið unnin í ágætu samstarfi allra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hefur Skagafjarðarlistinn tekið þátt í því að setja sitt mark á áætlunina.
Við vinnslu áætlunarinnar hefur Skagafjarðarlistinn haft að leiðarljósi að íbúum á öllum aldri sé veitt góð þjónusta og stuðlað sé að fjölskylduvænu samfélagi í sátt við atvinnulífið.
Fulltúar Skagafjarðarlistans höfðu ákveðnar áherslur í þessari fjárhagsáætlunargerð og fengu flestar þeirra jákvæða meðhöndlun við gerð áætlunarinnar. Eitt af því fáa sem ekki náðist samstaða um varðar breytingu á opnunartíma yfir sumarið á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki. En þar lagði Skagafjarðarlistinn áherslu á mikilvægi þess að hafa foreldra með í ráðum áður en ákvörðun yrði tekin um að loka í fjórar vikur yfir sumartímann. Sú tillaga var felld af meirihlutanum.
Skagafjarðarlistinn leggur áherslu á hófsemi í gjaldskrám sveitarfélagsins en ljóst var við áætlunargerðina að gera þurfti ráð fyrir gjaldskrárhækkunum til þess að viðhalda þjónustu og þjónustustigi sveitarfélagsins en gætt var að hækkanir yrðu ekki umfram verðlags -og kjarasamningshækkana.
Við áætlunargerðina lagði Skagafjarðarlistinn áherslu á ábyrgan rekstur ásamt áframhaldandi langtímaáætlunum um lækkun skuldahlutfalls og hallalausan rekstur. Er það mikilvægur þáttur í því að hægt sé að fara í stór fjárfestingarverkefni líkt og endurbætur við Sundlaug Sauðárkróks, hitaveituframkvæmdir og uppbyggingu íbúða á Sauðárkróki.
Undirrituð mun að framansögðu greiða atkvæði með framlagðri fjárhagsáætlun.
Ég þakka fyrir góða samvinnu og samstarf fulltrúa í nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Íbúum sveitarfélagsins sendi ég góðar óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, oddviti Skagafjarðarlistans.

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun svohljóðandi:
Það er afskaplega ánægulegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 þar sem gert er ráð fyrir rekstrarfagangi af samstæðureikningi sveitarsjóðs að upphæð 608 milljónum fyrir afskriftir og fjármagsliði. Rekstarafgangur samstæðunar í heild A- og B- hluta er áætluð samtals 146 milljónir. Ef áætlanir ganga eftir og árið 2018 verður gert upp með hagnaði hefur sveitarsjóður verið rekin með hagnaði í 6 af síðustu 7 árum sem er einstakur árangur í sögu sveitarfélagsins. Það er einnig ánægjulegur áfangi að áætlunin gerir ráð fyrir að A-hluti verði rekinn með 16 milljóna króna afgangi.
Því bera að fagna enda langþráð markmið að hafa rekstur A-hluta sveitarsjóðs jákvæðan. Ef fer sem horfir er gert ráð fyrir að rekstur A-hluta sveitarstjóðs verði jákvæður fyrir árið 2017, getum við því verið að sjá í fyrsta skipti í tæplega 20. ára sögu sveitarfélagsins, A-hluta sveitarsjóðs með jákvæðri rekstrarniðurstöðu tvö ár í röð.
Óhætt er að segja að ákveðinn stöðuleiki hafi náðst í reksturinn og ber það að þakka ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði sá árangur ekki náðst líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú.
Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuðu hefur verði á undanförnum árum og aðhalds gætt í rekstri. Góður rekstur er undirstaða þess að hægt sé að veita íbúum þá þjónustu sem sveitarfélagið er að veita í dag og að hægt sé að fara í þau fjölmörgu framfaraverkefni sem ráðast á í á komandi árum.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er miðað við að þar sem gjaldskrár væru hækkaðar yrðu þær hækkanir hófstiltar og var að jafnaði miðað við 3.5% en hækkun launavísitölu hefur verið um 8%. Í áætlun ársins var sérstaklega gætt að því að hækka ekki leikskólagjöld, gjöld fyrir dagdvöl (Árvist) og gjöld í tónlistarskóla svo dæmi séu tekinn.
Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins sem og að orkukostnaður verður áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging svæðisins er höfð í huga. Hefur þessi stefna undanfarinna ára m.a. skilað því að mikil uppbyggingi á sér nú stað í Skagafirði, meiri en verið hefur í áratugi. Sem dæmi rísa nú fjöldi fjósa í dreifbýlinu og tugir íbúða eru ýmist í byggingu eða á teikniborðinu á Sauðárkróki. Uppgangur er einnig í atvinnulífinu, meiri en mörg undanfarin ár.
Þar er afar mikilvægt að þannig sé haldið á málum að það sé eftirsóknarvert að búa í Skagafirði og er þetta merki um að svo sé. Frá þeirri stefnu má aldrei kvika.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðunnar verði rúmar 482 milljónir á árinu og framkvæmt verði fyrir 572 milljónir. Sem dæmi um þau fjölmörgu verkefni sem áætlað er að fara í á næsta ári má nefna framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks, fullnaðarhönnun á leikskóla á Hofsósi,endurbætur á Sundlauginni í Varmahlíð ásamt nýrri rennibraut, gervigrasvöllur á Sauárkróki, malbikun á bílaplani við Árskóla og hitaveituframkvæmdir í Fljótum.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarsjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum. Gerir fjárhagsáætlun 2018 hins vegar ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 125%, en þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldaviðmið samstæðunnar um 107% sem er vel innan allra marka þrátt fyrir miklar framkvæmdir í Sveitarfélaginu á undanförnum árum.Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í nefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu.
Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Við óskum íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og jafnframt óskum við öllum íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Stefán Vagn Stefánsson, Sigríður Svavarsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Gunnsteinn Björnsson, Bjarki Tryggvason, Viggó Jónsson og Þórdís Friðbjörnsdótti

Ásta Björg Pálmadóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Skuldahlutfall í ársreikningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2003 var 159,7%.
Skuldahlutfall í ársreikningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2011 var 147,1%.
Skuldahlutfall í ársreikningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2016 var 124%

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2018- 2022 borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með átta atkvæðum, Bjarni Jónsson situr hjá.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 136. fundur - 02.02.2018

Farið var yfir frakvæmdir á fjárhagsáætlun fyrir árið 2018.