Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

109. fundur 21. ágúst 2024 kl. 12:00 - 13:30 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Formaður byggðarráðs lagði til að taka mál 2406051, Erindi til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra - farsæld barna, með afbrigðum. Samþykkt samhljóða

1.Félagsheimili Rípurhrepps - erindi frá íbúum í Hegranesi

Málsnúmer 2407068Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 105. fundi byggðarráðs Skagafjarðar 8. júlí sl.
Í júlí sl. barst erindi frá íbúum og jarða- og lóðaeigendum í Hegranesi þar sem þess var farið á leit að Skagafjörður gangi ekki til þess að auglýsa Félagsheimili Rípurhrepps til sölu heldur gangi til viðræðna við íbúa, jarða- og lóðaeigendur í Hegranesi um framtíð félagsheimilisins. Upplýst var í erindinu að fyrrgreindir aðilar hefðu í hyggju að stofna félagasamtök sem farið gætu með eignarhald og rekstrarumsjón hússins að undangengnum samningum við sveitarfélagið Skagafjörð. Fyrir liggja nú samþykktir Íbúasamtaka og hollvina Hegraness og upplýsingar um stjórn félagsins en skv. Fyrirtækjaskrá er skráningu félagsins ekki lokið og íbúasamtökunum ekki enn verið úthlutað kennitölu.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að boða forsvarsmenn félagsins á næsta fund byggðarráðs.

2.Beiðni um viðræður varðandi landamerki að Sjávarborg 1, 2, og 3

Málsnúmer 1907144Vakta málsnúmer

Lögð fram vinnuskrá, uppdrættir nr. S201, S202, S203, S204 og S205, skrá 729555, dags. 20.02 2024 unnin af Stoð ehf. verkfræðistofu, sem sýna landamerki á milli eignarlands Sjávarborgar I, II og III og sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skráin er afrakstur vinnu og samtals á milli eigenda Sjávarborgar og fulltrúa Skagafjarðar og er ætlað að staðfesta landamerkin aðila á milli.

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða þá tillögu að landamerkjum á milli sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sjávarborgar I, II og III, eins og hún kemur fram í ofangreindum gögnum og leggur til við sveitarstjórn að gerð verði merkjalýsing sbr. gildandi lög og á grundvelli reglugerðar nr. 160/2024 um merki fasteigna.

3.Minnisblað um eftirlitsmyndavélar í umdæmi lögreglunnar á Nl. vestra

Málsnúmer 2408066Vakta málsnúmer

Sveitarfélaginu barst erindi frá Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra þann 13. ágúst sl. þess efnis að samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra (LNV) hefur haft til umræðu að taka í notkun eftirlitsmyndavélar lögreglu innan umdæmisins. Umdæmið er eitt fárra lögregluumdæma þar sem slíkar myndavélar eru ekki í notkun. Niðurstaða LNV er að hentugast sé að koma fyrir myndavélum með númeralesara við hvern byggðakjarna umdæmisins, sem greinir skráningarnúmer bifreiða sem fara um veginn.

Fyrirkomulagið yrði þannig að hverju sveitarfélagi fyrir sig yrði falið að greiða fjárfestingu við kaup á búnaði fyrir slíka vöktun en allur rekstur verður svo í höndum lögreglu. Kostnaður við kaup og uppsetningu á búnaði er áætlaður rúmlega 1,5 milljón fyrir hverja myndavél sem sett yrði upp.

LNV leggur til að myndaður verði vinnuhópur til að vinna þarfagreiningu myndavéla hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þennan vinnuhóp mun LNV leiða. Auk fulltrúa frá LNV verði hópurinn skipaður einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að skipa sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs í umrædda nefnd fyrir hönd sveitarfélagsins.

4.Skólagata 1, Hofsósi - Viðbygging

Málsnúmer 2408074Vakta málsnúmer

Björgunarsveitin Grettir á Hofsósi sendi sveitarfélaginu erindi dagsett 10. júlí sl. þar sem fyrir liggja áætlanir um að byggja við fasteignina Skólagötu 1, Hofsósi, fastanúmer F2143662. Eignin er sameign Björgunarsveitarinnar Grettis og sveitarfélagsins Skagafjarðar og óskað er eftir samþykki Skagafjarðar um fyrirhugaða framkvæmd sem Björgunarsveitin Grettir mun kosta að fullu.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fyrirhugaða viðbyggingu við Skólagötu 1, Hofsósi, með fyrirvara um samþykki byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdinni og gerð nýrrar eignaskiptayfirlýsingar.

5.Erindi til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra - farsæld barna

Málsnúmer 2406051Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað dagsett 4. júní sl. frá framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) þar sem óskað er eftir umboði til að gera viðaukasamning við Sóknaráætlun landshlutans við mennta- og barnamálaráðuneytið um stofnun farsældarráðs á Norðurlandi vestra.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að veita SSNV umboð til að gera framangreindan samning.
Byggðarráð vill þó einnig benda á með tilliti til fagþekkingar sem sveitarfélögin hafa þegar aflað sér gæti verkefni sem þetta ekki síður átt heima hjá sveitarfélögunum sjálfum þar sem eitt þeirra yrði leiðandi í starfinu þvert á sveitarfélagamörk, líkt og þekkist t.d. í tilfellum barnaverndar og málefnum fatlaðs fólks.

6.Gjaldskrá grunnskóla 2024

Málsnúmer 2310030Vakta málsnúmer

Málinu vísað frá 30. fundi fræðslunefndar, þann 15. ágúst sl., þannig bókað:

"Lögð fram tillaga að gjaldskrá í grunnskólum sem felur í sér að gjaldskrá fyrir skólamáltíðir verði hækkaðar að raunkostnaði en skólamáltíðir jafnframt niðurgreiddar að fullu af hálfu sveitarfélagsins og ríkisins, í samræmi við bókun við málsnúmer 2407024 á 29. fundi fræðslunefndar.

Lögð er fram eftirfarandi breytingartillaga frá Kristófer Má Maronssyni sem send var nefndarmönnum í tölvupósti fyrir fund:

Lagt er til að í stað þess að tekið sé fram í gjaldskránni hver hlutur ríkisins og Skagafjarðar sé nákvæmlega standi: "Skólamáltíðir nemenda eru að fullu niðurgreiddar af sveitarfélaginu og ríkinu."

Þá er lagt til að í samræmi við samþykki sveitarstjórnar að í stað 4,9% hækkunar 1. janúar 2024 verði 3% hækkun á gjaldskrá grunnskóla er varðar frístund og verði því dvalargjald 305 kr. og síðdegishressing 263 kr. máltíðin, frá 1. júní 2024 og er því lagt til að gjaldskráin taki gildi aftur í tímann, frá 1. júní 2024.

Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.

Fræðslunefnd óskar eftir því að útfærsla við skráningu í mat verði á þann hátt að foreldrar sjái hversu stórt hlutfall skólamáltíða er greitt af skattgreiðendum í Skagafirði og hversu stórt hlutfall kemur frá Jöfnunarsjóði. Skráning verði fyrir hverja önn en foreldrum verði gefinn kostur á að skrá börn úr mat sé um fyrirsjáanlega fjarveru frá skóla að ræða til þess að hægt sé að aðlaga eldað magn og minnka þannig matarsóun. Þá ítrekar nefndin mikilvægi þess að skrá þurfi nýtingu og matarsóun eins og kostur er, t.a.m. verði hægt að greina hvort fjarvera nemanda frá mat sé vegna veikinda eða leyfis, eða hvort nemendur mæti ekki til matar þrátt fyrir að vera í skólanum og skráðir í mat. Jafnframt óskar nefndin eftir því að áfram verði fylgst með raunkostnaði sveitarfélagsins við skólamáltíðir svo hægt sé að viðhalda gjaldskrá og þar með kostnaðarvitund foreldra, þrátt fyrir fulla niðurgreiðslu skólamáltíða fyrir nemendur. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur m.a. beðið sveitarfélög um að safna upplýsingum um skráningu og raunkostnað. Nefndin samþykkir samhljóða að fela starfsfólki að finna skynsamlega leið í samráði við skólastjórnendur og aðra viðeigandi aðila til þess að hægt sé að útfæra skráningu og safna téðum upplýsingum."

Byggðarráð samþykkir samhljóða breytingartillöguna á gjaldskrá grunnskóla og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 13:30.