Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

119. fundur 30. október 2024 kl. 12:00 - 15:50 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varam.
    Aðalmaður: Gísli Sigurðsson
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar fór formaður þess á leit við fundarmenn að taka með afbrigðum mál 2410313 "Starfsemi á leikskólanum Ársölum á meðan á verkfalli" á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.

1.Breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis

Málsnúmer 2408190Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samningi um samstarf á sviði endurhæfingar en um er að ræða fyrirkomulag sem komið er á í kjölfar breytinga á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga. Vonast er til að með auknu og bættu samstarfi allra sem koma að málum endurhæfingar megi einfalda þjónustuferla verulega til þess að tryggja að fólk falli ekki á milli kerfa. Þjónustuaðilar teljast félagsþjónustur sveitarfélaga, heilsugæsla á hverjum stað , VIRK, Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun. Samhæfingarteymi munu taka til starfa en þar er gert ráð fyrir þátttöku allra þjónustuaðila, meðal annars frá félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fjalla á sérstaklega um málefni einstaklinga með samsettar og flóknar þarfir fyrir þjónustu og stuðning. Samningurinn gerir ráð fyrir að samhæfingarteymin verði sex eða fleiri, eitt verður á Norðurlandi og skipting sveitarfélaga í teymi á landsvísu gerir ráð fyrir að Skagfjörður verði í því teymi.

Byggðarráð samþykkir framlögð drög samhljóða jafnframt því að veita sviðsstjóra fjölskyldusviðs Skagafjarðar umboð til að skrifa undir samninginn fyrir hönd Skagafjarðar á haustfundi Samtaka stjórnenda í velferðarþjónustu sveitarfélaga sem haldinn verður þann 31. október nk.

2.Leiga og sala hólfa við Hofsós

Málsnúmer 2409226Vakta málsnúmer

Mál síðast á dagskrá 116. fundi byggðarráðs þann 8. október 2024. Lögð fyrir drög að þremur leigusamningum um leigu á hólfum á 24, 25, 28 og 29.

Byggðarráð samþykkir samhljóða fyrirlögð drög leigusamninga og felur sveitarstjóra að ganga frá undirritun samninga.

3.Samkomulag við tónlistarkennara

Málsnúmer 2410280Vakta málsnúmer

Fært í trúnaðarbók

4.Gjaldskrá skipulagsfulltrúa framkvæmda- og þjónustugjöld 2025

Málsnúmer 2410045Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að gjaldskrá fyrir árið 2025 vegna kostnaðar við skipulagsvinnu, stofnun lóða, byggingarreita og útgáfu framkvæmdaleyfa í Skagafirði. Gjaldskráin hækkar um 3,7% frá gjaldskrá 2024.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána samhljóða og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Reglur um afslátt af fasteignaskatti 2025

Málsnúmer 2410047Vakta málsnúmer

Lagðar fram reglur um afslátt af fasteignaskatti 2024.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að hækka viðmiðunarfjárhæðir varðandi tekjumörk um 9,53% frá reglum ársins 2024 og að hámarksafsláttur verði hækkaður úr 80.000 kr. í 90.000 kr. Málinu vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

6.Frostastaðir 1-4; Umsagnarbeiðni vegna breytinga á rekstrarleyfi

Málsnúmer 2410277Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur úr máli 2024070638, dagsettur 25. október 2024 frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Söru Regínu Vadimarsdóttur kt. 290954-5339, Frostöðum 561 Varmahlíð. f.h. Frostastaðir gistihús ehf kt. 481203-2360, um breytingu á leyfi til að reka gististað í flokki IV að Frostasöðum 1-4 , 561 Varmahlíð. Fyrir er gistileyfi flokkur III fnr.214-1826, 214-1828 og óskað er eftir að 214-1826 fari út er ekki lengur í útleigu og inn komi 214-1827.

Byggðarráð gerir ekki athugasemd við umsóknina.

7.Bréf til fjármálaráðherra frá Cruise Iceland vegna afnáms tollfrelsis skemmtiferðaskipa frá 1. janúar 2025

Málsnúmer 2410256Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 27. september 2024 frá Cruise Iceland til fjármála- og efnahagsráðherra vegna afnáms tollfrelsis.

Byggðarráð Skagafjarðar telur óásættanlegt að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa í hringsiglingum án þess að mat sé lagt á efnahagsleg áhrif aðgerðarinnar, eða að ákvörðunin byggi á langtíma stefnumótun um móttöku skemmtiferðaskipa. Byggðarráð leggur þunga áherslu á að gildistökunni verði frestað um tvö ár á meðan sú vinna fer fram, enda sé um að ræða vanhugsaðan landsbyggðarskatt sem muni hafa mikil áhrif á mótttöku skemmtiferðaskipa m.a. hjá höfnum Skagafjarðar og víðar í Norðvesturkjördæmi, auk verulegra afleiddra áhrifa á ferðaþjónustustarfsemi á "kaldari" ferðaþjónustusvæðum líkt og Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Skagafirði hafa þegar borist afbókanir skemmtiferðaskipa í hringsiglingum í kring um landið vegna áformanna.

8.Starfsemi á leikskólanum Ársölum á meðan á verkfalli stendur

Málsnúmer 2410313Vakta málsnúmer

Sveitarstjóra barst í gær beiðni frá Álfhildi Leifsdóttur áheyrnarfulltrúa VG og óháðra í byggðarráði um að tekin verði á dagskrá og rædd „sú ákvörðun að ætla sér að hafa leikskólann að mestu opinn í verkfalli“.

Áheyrnarfulltrúi VG og óháðra í byggðarráði er formaður Kennarasambands Norðurlands vestra sem er svæðafélag og meðal grunneininga Félags grunnskólakennara (FG), sbr. 4. gr. laga FG sem aftur á aðild að Kennarasambandi Íslands, skv. 1. gr. sömu laga.
Samkvæmt áðurgreindri 4. gr. laga FG er hlutverk svæðafélaga eftirfarandi: "Hlutverk svæðafélaga er að vera málsvari félagsmanna hvert á sínu svæði og fara með hagsmuni þeirra í samskiptum við skólana og vinnuveitendur og koma að gerð vinnustaðasamninga í samráði við stjórn FG. Einnig að halda trúnaðarmannanámskeið, félagsfundi, haustþing og að annast val fulltrúa á þing KÍ í samráði við stjórn FG."

Þar sem aðildarfélög KÍ hafa með sér samflot í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum, sem varða m.a. leikskólakennara viðkomandi leikskóla benda fulltrúar byggðarráðs á að áheyrnarfulltrúi VG í byggðarráði hljóti, sem fyrirsvarsmaður framangreinds félags sem hefur þá stöðu sem að framan ræðir, m.v.t. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. II. kafli stjórnsýslulaga, að vera vanhæfur til þess að ræða það málefni sem fulltrúinn hefur sérstaklega óskað eftir að vera sett á dagskrá, skv. ofansögðu. Er gengið til atkvæða um vanhæfi fulltrúans og samþykkir byggðarráð samhljóða að áheyrnarfulltrúi VG og óháðra í byggðarráði sé vanhæfur í málinu en býður upp á að kallaður sé inn varamaður í hennar stað.

Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum óskar bókað:

"Ég óskaði eftir upplýsingum um hverjir tóku ákvörðun um starfsemi leikskólans Ársala á meðan á verkfalli stendur og hvaða röksemdir lágu að baki þeim ákvörðunum nú í verkfalli Félags leikskólakennara.

Byggðarráð telur mig vanhæfa til að fá þessar upplýsingar á þeim forsendum að ég sé aðili máls með því að vera formaður Kennarasambands Norðurlands vestra sem eru félagasamtök en ekki stéttarfélag. Með því er að mínu mati vegið er að grunnþáttum stjórnarskrárinnar. Vegið er að félagafrelsi, frelsi til að taka þátt í pólitísku starfi, atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi.
Ljóst er samkvæmt skriflegu svari lögfræðings Sambands Íslenskra sveitarfélaga sem óskað var eftir á fundinum að það var ekki álit Sambandsins að um vanhæfi verið að ræða auk þess sem ekki er verið að taka stjórnvaldsákvörðun. Vegið er að grunnstoðum lýðræðis með því að útiloka lýðræðislega kjörinn sveitarstjórnarmann frá því að taka þátt í umræðum tengdum menntamálum á byggðarráðsfundi.

Kennarasamband Norðurlands vestra (KSNV) er félagsskapur kennara í grunnskólum á tilteknu svæði en ekki stéttarfélag sem tekur ákvörðun um verkföll. Ekki er heimilt að útiloka kennara sem er rétt kjörinn sveitarstjórnarmaður frá pólitísku starfi, upplýsingum um ákvarðanatöku eða ákvörðunum sveitarstjórna í tengslum við menntamál og skólastarf."

Áheyrnarfulltrúi VG og óháðra vék af fundinum og í hennar stað kom inn varamaður áheyrnarfulltrúa VG og óháðra, Steinunn Rósa Guðmundsdóttir.

Byggðarráð Skagafjarðar áréttar að í bréfi lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur m.a. fram að "hæfisreglur sveitarstjórnar- og stjórnsýslulaga hafa þann tilgang að stuðla að málefnalegri stjórnsýslu, tryggja eðlileg samskipti almennings við stjórnvöld, stuðla að því að almenningur geti treyst stjórnvöldum til að leysa úr málum á hlutlægan hátt og auka virðingu fyrir stjórnvöldum.

Þegar verið er að meta hvort vanhæfi er til staðar er ekki verið að skoða mannkosti eða persónu kjörinna fulltrúa heldur verið að meta hvort í reynd eða ásýnd séu tengsl eða hagsmunir til staðar sem gætu valdið því að almenningur geti efast um þá ákvörðun sem tekin er."

Jafnframt kemur fram í bréfi lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga: "Kennarasamband Íslands stendur sameiginlega í viðræðum fyrir bæði leik-, grunn- og framhaldsskólastig og eru verkföll víða um land á öllum skólastigum. Það gæti því reynst vandmeðfarið að skilja á milli hæfis í þessu tilfelli m.t.t. skólastiga þar sem kjaraviðræðurnar fara fram fyrir öll stigin í einu. Rétt er einnig að vekja athygli á því að viðkomandi sveitarstjórnarfulltrúi situr sem varamaður í stjórn Sambandsins, sem fer með samningsumboð við KÍ f.h. sveitarfélaganna, og vék af fundi stjórnar þegar kjaraviðræður við kennarar voru til umfjöllunnar á síðasta fundi."

Til fundarins kom Bjarni Ómar Harldsson frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Bjarni Ómar vék af fundinum eftir að hafa farið yfir hlutverk samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvað felst í því að sveitarfélög feli Sambandinu að fara með samningsumboð þess gagnvart viðsemjendum sínum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Byggðalistans í byggðarráði Skagafjarðar leggja fram eftirfarandi bókun:

"Sveitarstjórn Skagafjarðar staðfesti ákvörðun byggðarráðs um að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga að fara með samningsumboð þess gagnvart viðsemjendum sínum, á fundi sínum þann 14. desember 2022. Síðan þá hafa samskipti við viðsemjendur, m.a. KÍ vegna kjaraviðræðna sem nú eru í gangi, alfarið verið á hendi Sambandsins og án frekari aðkomu sveitarfélagsins. Eftir að sveitarstjórn tók ákvörðun um að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga samningsumboðið hafa starfsmenn sveitarfélagsins eingöngu fylgt leiðbeiningum Sambandsins um hvernig taka eigi á málum komi til verkfalla, og þá hvað væri leyfilegt að gera og hvað ekki, með hagsmuni allra að leiðarljósi og mikilvægi þess að ekki sé brotið á verkfallsrétti. Sú leið sem var boðuð í tölvupósti til foreldra um verulega skerta þjónustu mánudaginn 28. október var í fullu samræmi við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga, en þá var markmiðið að halda úti lágmarks þjónustu með því starfsfólki sem ekki var í verkfalli, en samt að uppfylla allar reglur og kröfur miðað við það sem gert hefur verið í sambærilegum verkfallsaðgerðum. Við hörmum því mjög þær aðstæður sem upp eru komnar og þann ágreining sem er uppi um túlkun á hvað sé leyfilegt og hvað ekki í aðstæðum sem þessum. Það er einlæg von okkar að samningar náist sem allra fyrst þannig að skaði samfélagsins í heild verði sem minnstur. Það er hagur okkar allra."

9.Verkfall leikskólakennara og gjaldtaka

Málsnúmer 2410278Vakta málsnúmer

Álfhildur Leifsdóttir sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað undir þessum lið.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að vegna verkfalls leikskólakennara við leikskólann Ársali á Sauðárkróki muni greiðsluhlutdeild foreldra/forráðamanna barna einungis ná til þeirrar þjónustu sem raunverulega verður hægt að nýta á meðan á verkfallinu stendur.

10.Ágóðahlutagreiðsla EBÍ 2024

Málsnúmer 2410276Vakta málsnúmer

Álfhildur Leifsdóttir sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað undir þessum lið.

Lagt fram bréf dagsett 25. október 2024 frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands. Tilkynnt er um að ágóðahlutagreiðsla til sveitarfélagsins nemi 1.678.000 kr. á árinu 2024.

11.Samtök sjávarsútvegssveitarfélaga - bókun frá stjórnarfundi vegna loðnubrests

Málsnúmer 2410262Vakta málsnúmer

Álfhildur Leifsdóttir sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað undir þessum lið.

Lögð fram til kynningar bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 22. október 2024, svohljóðandi:
"Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir þungum áhyggjum af áhrifum mögulegs loðnubrests á íslenskt efnahagslíf. Ekki síst gætir áhrifanna hjá íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélögum þar sem uppsjávarvinnsla er ein af meginstoðum atvinnulífsins. Ef ekki verður loðnuvertíð á næsta ári verður það annað árið í röð sem tekjutap af þeim völdum dynur yfir þessi sveitarfélög og samfélagið allt hér á landi. Jafnframt mun það hafa mjög neikvæð áhrif á hagvöxt á næsta ári sem er grafalvarlegt.
Haustmælingar á loðnu gáfu þó vísbendingar um að hægt verði að gefa út upphafskvóta og því leggja Samtök sjávarútvegssveitarfélaga mikla áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að heimila þessar þjóðhagslega mikilvægu veiðar. Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf."

Fundi slitið - kl. 15:50.