Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

122. fundur 18. nóvember 2024 kl. 08:00 - 11:41 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir varam. áheyrnarftr.
    Aðalmaður: Álfhildur Leifsdóttir
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar hittu byggðarráðsfulltrúar foreldra og aðila sem umhugað er um skólamál í Skagafirði, í húsi frítímans. Þar ræddu aðilar stöðu í verkfallinu og byggðarráðsfulltrúum afhentur undirskriftalisti þar sem þrýst er á samningsaðila að ganga til samninga. Byggðarráð sammælist um að koma undirskriftarlistanum til samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvetur
samningsaðila til að vinna markvisst að því að komast að samkomulagi.

1.Fjárhagsáætlun 2025-2028

Málsnúmer 2407014Vakta málsnúmer

Hjörvar Halldórsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum lið.

Mál síðast á dagskrá 121. fundar byggðarráðs þann 11. nóvember sl.

Umræðu um framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir fjárhagsáætlun 2025-2028 haldið áfram.

2.Staða kaldavatnsmála á Sauðárkróki

Málsnúmer 2411092Vakta málsnúmer

Hjörvar Halldórsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, sat fundinn undir þessum lið.

Lagt fram erindi frá Kaupfélagi Skagfirðinga dagsett 11. nóvember sl. þar sem óskað er eftir samtali á milli sveitarfélagsins og kaupfélagsins um stöðu mála í vatnsveitu og framtíðarsýn sveitarfélagsins til að tryggja afhendingaröryggi neysluvatns til samfélagsins.

Nú þegar hafa margir kostir verið skoðaðir, magnmælingar á uppsprettum eru í gangi til að meta fýsileika kosta.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um málið og boða í kjölfarið forsvarsmenn KS á fund byggðarráðs.

3.Erindi til byggðarráðs

Málsnúmer 2411110Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dagsett 14. nóvember sl. frá Körfuknattleiksdeild Tindastóls. Körfuknattleiksdeildin óskar eftir styrk frá sveitarfélaginu við fjárfestingu í LED auglýsingaskjám sem hugmyndin er að nýta sem nýja leið til fjáröflunar fyrir Tindastól. Verð á umræddum skjáum er 9.239.460,- m/vsk.

Byggðarráð telur að sveitarfélagið eigi ekki að koma að fjárfestingu sem þessari og hafnar því erindinu með öllum greiddum atkvæðum.

4.Aðalgata 22

Málsnúmer 2409251Vakta málsnúmer

Fært í trúnaðarbók.

5.Götulokanir á Sauðárkróki

Málsnúmer 2411111Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. nóvember 2024 frá verkefnastjóra í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum Skagafjarðar. Til stendur að tendra ljósin á jólatrénu á Kirkjutorgi við hátíðlega athöfn laugardaginn 30. nóvember nk.

Óskað er eftir heimild til að loka gatnamótum Skólastígs/Skagfirðingabrautar, Hlíðarstígs/Skagfirðingabrautar, Aðalgötu/Sævarstígs og Aðalgötu/Bjarkarstígs fyrir bílaumferð frá Skagfirðingabraut 17-21 að Aðalgötu 6 frá kl. 15-17 laugardaginn 30. nóvember nk. á meðan á hátíðarhöldum stendur.

Fyrir liggur samþykki lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fallast á fyrirhugaða lokun.

6.Gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu 2025

Málsnúmer 2410046Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 15. fundi Landbúnaðar- og innviðanefndar þann 8. nóvember 2024, þannig bókað:

"Lögð fram gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Skagafirði vegna ársins 2025. Heildargjöld á íbúðareiningu eru 95.000 kr. á árinu 2024 og munu hækka um 4.990 kr. eða 5,25% og verða því 99.990 kr. árinu 2025. Þessi hóflega hækkun er meðal annars árangur af góðri flokkun íbúa, en á árinu hækkar gjaldskrá vegna urðunar um 15% ásamt því að samningur við Íslenska gámafélagið ehf. tekur verðbreytingum skv. verksamningi.
Jafnframt samþykkt að breyta 2. grein gjaldskrárinnar vegna eyðingu dýraleifa, þannig að fjöldi gjalddaga verði sjö í stað tíu. Fyrsti gjalddagi verður 1. júní ár hvert. Ástæða fyrir þessu er hversu seint áreiðanlegar búfjártölur berast frá opinberum aðilum.
Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá, framangreinda breytingu á 2. grein gjaldskrárinnar og vísar henni til afgreiðslu byggðarráðs."

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Merkingar og menningarvitund innan Skagafjarðar

Málsnúmer 2410255Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 28. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar þann 12. nóvember 2024, þannig bókað:

"Tekið fyrir bréf frá Gunnari Rögnvaldssyni, dagsett 24.10.2024, um merkingar og menningarvitund innan Skagafjarðar. Í bréfinu hvetur Gunnar sveitarfélagið til að standa betur að merkingum á sýslumörkum inn og út úr Skagafjarðarsýslu. Jafnframt hvetur Gunnar sveitarfélagið til að fara í vitundavakningu um sögu og menningu Skagafjarðar sem hvetur um leið til fróðleiks og kunnáttu um skáld og listafólk héraðsins. Leggur Gunnar til að settar verða upp merkingar á húsum sem voru heimili skálda í Skagafirði sem og setja tilvitnanir í verk höfunda á byggingar í eigu sveitarfélagsins.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd fagnar erindinu og samþykkir samhljóða að fela starfsmönnum nefndarinnar að taka saman kostnað við gerð skilta á sýslumörkum og staðsetningar á skiltum og leggja fyrir byggðarráð til fjármögnunar. Jafnframt felur nefndin starfsmönnum nefndarinnar að hefja undirbúning að vitundavakningu um sögu og menningu Skagafjarðar sem hvetur um leið til fróðleiks og kunnáttu um skáld og listafólk héraðsins."

Byggðarráð tekur jákvætt í erindið en frestar afgreiðslu málsins þar til kostnaðarmat liggur fyrir.

8.Samráð; Gjaldtökuheimildir opinberra háskóla

Málsnúmer 2411067Vakta málsnúmer

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 224/2024, "Gjaldtökuheimildir opinberra háskóla".

Umsagnarfrestur er til og með 06.12.2024.

9.Vegna verkfallsaðgerða

Málsnúmer 2411087Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Hafdísi Einarsdóttur til Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkissáttarsemjara. Í bréfinu eru reifaðar niðurstöður netkönnunar sem lögð var fyrir foreldra leikskólabarna í Skagafirði um áhrif verkfallsaðgerða á fjölskyldur leikskólabarna í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki og samningsaðilar hvattir til að binda endi á verkfallsaðgerðirnar.

Fundi slitið - kl. 11:41.