Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

139. fundur 26. mars 2025 kl. 12:00 - 13:38 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Beiðni um fund vegna framkvæmda o.fl.

Málsnúmer 2503075Vakta málsnúmer

Erla Einarsdóttir formaður Sólon myndlistafélags og Ingibjörg Hafstað gjaldkeri félagsins sátu fundinn undir þessum lið.

Málið tekið fyrir á 137. fundi byggðarráðs þann 12. mars 2025. Þá samþykkti byggðarráð að boða forsvarskonur Sólon myndlistafélags til fundar við byggðarráð vegna hækkaðs upphitunarkostnaðar í Skógargötu 11, oft nefnt Gúttó, í kjölfar yfirstandandi viðhaldsframkvæmda á húsnæðinu. Mikil viðhaldsþörf var komin á húsnæðið og þarf að styrkja útveggi, skipta um glugga og þak ásamt því að steypa og endurbyggja kjallarann. Ljóst er að það mun taka u.þ.b. þrjú ár til viðbótar að klára þessar framkvæmdir. Verkið stendur nú þannig að norðurbyggingin er óeinangruð að hluta og heldur því illa hita. Starfsmenn eignasjóðs fóru ásamt pípara í yfirferð og stilltu af hitakerfi hússins til að vinna móti húshitunarkostnaði en ljóst er að aukinn kostnaður fylgir húshitun á meðan byggingin stendur óeinangruð að hluta.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að styrkja Sólon myndlistafélag um greiðslu húshitunarkostnaðar, þannig að Sólon myndlistafélag greiðir húshitun miðað við eðlilegt árferði en Skagafjörður greiðir umframnotkun á meðan á framkvæmdum stendur.

2.Útboð - Heimsending matar á Sauðárkróki

Málsnúmer 2412100Vakta málsnúmer

Mál áður á dagskrá 133. fundar byggðarráðas Skagafjarðar þann 12. febrúar 2025. Þar var samþykkt að bjóða þjónustuna út.

Frestur til að skila inn tilboði var til og með 20. mars sl. Eitt tilboð barst og var bjóðandi FGH Lausnir ehf. sem buðu verð sem var 2% yfir kostnaðaráætlun.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að taka tilboði FGH Lausna ehf og felur sviðstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ganga til samninga við félagið.

3.Útboð - Akstur í og úr dagdvöld aldraðra

Málsnúmer 2412102Vakta málsnúmer

Mál áður á dagskrá 133. fundar byggðarráðas Skagafjarðar þann 12. febrúar 2025. Þar var samþykkt að bjóða þjónustuna út.

Boðnir voru út tveir hlutar í útboðinu, annars vegar akstursleið 1 sem er að mestu akstur innan Sauðárkróks 5 daga vikunnar en 2 daga vikunnar í dreifbýli til viðbótar við innanbæjaraksturinn, hins vegar akstursleið 2 sem er eingöngu í dreifbýli 2 daga í viku.

Frestur til að skila inn tilboði var til og með 20. mars sl.

Ekkert tilboð barst í akstursleið 1.

Eitt tilboð barst í akstursleið 2. Bjóðandi er FGH Lausnir ehf. og hljóðar tilboðsverð upp á 90,6% af kostnaðaráætlun.

Í ljósi þess að ekkert tilboð barst í akstursleið 1, þá þarf að leita lausna til að útvega þjónustuaðila til að taka að sér akstur á þeirri leið.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að taka tilboði FGH Lausna ehf í akstursleið 2. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fela sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ganga til samninga um akstursleið 1 við aðila sem uppfylla kröfur útboðsins. Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs gerð viðauka vegna málsins.

4.Lóðarleigusamningar á Nöfum

Málsnúmer 2308167Vakta málsnúmer

Í kjölfar þess að fjöldi lóðaleigusamninga vegna lóða á Nöfunum á Sauðárkróki rann út fyrir síðustu áramót sendi Skagafjörður bréf á alla leigutaka til að upplýsa um að samningar hefðu runnið út. Í því bréfi var óskað eftir upplýsingum um hvort leigutakar hyggðust nýta forleigurétt sinn á þeirri lóð sem viðkomandi hafði á leigu. Í bréfinu var jafnframt upplýst um að þeir sem ekki ætla sér að nýta forleiguréttinn skulu víkja af lóðinni og bæri þá leigutökum að fjarlægja eigur sínar af henni, krefjist sveitarfélagið þess.

Fyrir liggur að lóð 38 verður skilað til sveitarfélagsins. Á lóðinni standa mannvirki sem ekki eru skráð. Mannvirkin eru í mjög bágu standi og þyrfti að rífa.

Fyrir liggur að lóð 13 verður skilað inn. Leigutaki er látinn og forsvarsmenn dánarbúsins óska eftir formlegri ákvörðun um hvort staðið verði við þá ákvörðun að lóðin verði afhent sveitarfélaginu hrein eða hvort afhenda megi lóðina með þeim mannvirkjum sem á henni standa.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að gera ekki kröfu á dánarbúið að láta rífa mannvirki af lóð 13 við afhendingu hennar til sveitarfélagsins. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að ekki komi til greiðslu af hendi sveitarfélagsins fyrir þá muni eða mannvirki sem afhent verða með lóðinni.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að sjá til þess að mannvirki á lóð 38 verði rifin.

5.Kjarasamningar kennara og áhrif þeirra á fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2025

Málsnúmer 2503177Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri lagði fram minnisblað varðandi nýja kjarasamninga við aðildafélög KÍ. Þar er farið yfir væntanleg fjárhagsleg áhrif nýs kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga við KÍ á sveitarsjóð Skagafjarðar.

Í fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2025 var gert ráð fyrir að hækkun launa yrði að jafnaði 5,4% á árinu 2025 í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Áætluð áhrif kjarasamnings aðildarfélaga KÍ er u.þ.b. 195 m.kr. umfram það sem fjárhagsáætlun 2025 gerir ráð fyrir. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 voru teknar frá 105 m.kr. í varúðarfærslu vegna ófyrirséðra langtímaveikinda og mögulegra umframlaunahækkana umfram það sem gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá. Nauðsynlegt er að bregðast við þeim aukakostnaði nýgerðra kjarasamninga á sveitarsjóð með hagræðingaraðgerðum og/eða tekjuöflun.

Þess ber að geta að ríkisvaldið hefur lýst því yfir að hluti málaflokks barna með fjölþættan vanda verði yfirtekinn af ríkinu og mun yfirfærslan hafa einhver jákvæð áhrif á tekjuhlið fjárhagsáætlunar. Í fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir að rekstrarhalli á málefnum fatlaðs fólks nemi u.þ.b. 71,5 m.kr. fyrir sveitarfélagið Skagafjörð og ljóst að þrátt fyrir yfirfærslu málefna barna með fjölþættan vanda verður áfram talsverður rekstrarhalli á málaflokknum.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs gerð viðauka vegna kjarasamninganna. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að ráðist verði í ítarlega greiningu á því til hvaða hagræðingaraðgerða sé hægt að grípa á árinu 2025 hvað varðar rekstur og fjárfestingar.

6.Aðalfundur Norðurár bs 2025

Málsnúmer 2503193Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Magnúsi B. Jónssyni fyrir hönd stjórnar Norðurár bs., þar sem boðað er til aðalfundar félagsins föstudaginn 28. mars nk., kl. 13.00 í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Sveitarstjóri er sjálfkrafa handhafi atkvæðisréttar sveitarfélagsins.

7.Gjaldskrá Byggðasafns Skagfirðinga fyrir árið 2026

Málsnúmer 2503217Vakta málsnúmer

Máli vísað frá 32. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd þann 20. mars 2025, þannig bókað:
"Tekið fyrir erindi frá Berglindi Þorsteinsdóttur, safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga, dagsett 18.03.2025 um gjaldskrá byggðasafnsins fyrir árið 2026.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd samþykkir samhljóða fyrirlagða gjaldskrá fyrir árið 2026. Erindinu vísað til byggðarráðs."

Gjaldskrá byggðasafnsins var síðast hækkuð í upphafi árs 2025. Þá var almennur aðgangseyrir á sýningar safnsins í Glaumbæ hækkaður um 10-11,76%. Í gjaldskrá ársins 2026 er lagt til að þessu gjaldi verði haldið óbreytt frá gjaldskrá ársins 2025. Gjaldið í Víðimýrarkirkju hefur ekki verið hækkað undanfarin ár og því lögð til hækkun um 10-14% í framlagðri gjaldskrá.

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða og skipulagslög

Málsnúmer 2503169Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd sendir til umsagnar 147. mál - Skipulag haf- og strandsvæða og skipulagslög.

Frestur til að senda inn umsögn er til og með 27. mars nk.

9.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um borgarstefnu

Málsnúmer 2503221Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar 158. mál - Borgarstefna.

Frestur til að senda inn umsögn er til og með 1. apríl nk.

Byggðarráð Skagafjarðar styður tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu en leggur áherslu á að þess verði samhliða gætt að ekki verið dregið úr nauðsynlegri uppbyggingu grunninnviða annars staðar á landinu, m.a. hvað varðar heilbrigðisþjónustu, mennta- og menningarmál, löggæslu og opinbera stjórnsýslu. Þá er nauðsynlegt að stórefla samgöngur til að stuðla að því að t.d. Akureyri geti sinni svæðishlutverki til vesturs. Þar er brýnt að horfa til jarðganga um Tröllaskaga til að stytta og styrkja samgöngur á milli allra helstu þéttbýliskjarna á Norðurlandi. Einnig er mikilvægt að rík áhersla verði lögð í borgarstefnu á hlutverk Reykjavíkurflugvallar og Landspítala Íslands í lífsbjargandi þjónustu við íbúa landsbyggðanna.
Byggðarráð Skagafjarðar tekur einnig undir umsögn Múlaþings við framangreinda þingsályktunartillögu hvað varðar nauðsyn stefnumótunar fyrir þau svæði utan borgarsvæðanna sem gegna mikilvægu hlutverki sem miðstöðvar þjónustu og verslunar fyrir stór og dreifbýl landsvæði.

Fundi slitið - kl. 13:38.