Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

608. fundur 08. nóvember 2012 kl. 09:00 - 10:41 í Ráðhúsi, Skr.
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Bjarni Jónsson varaform.
  • Þorsteinn Tómas Broddason áheyrnarftr.
  • Sigurjón Þórðarson áheyrnarftr.
  • Sigríður Svavarsdóttir varam.
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
  • Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Frumvarp til laga um almenningssamgöngur

Málsnúmer 1211008Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá SSNV þar sem vakin er athygli á drögum að frumvarpi til laga um almenningssamgöngur. Í drögunum eru m.a. nýmæli er varðar skólaakstur og samspil þess aksturs við almenningssamgöngur. Með frumvarpinu er lagt til að ný lög um almenningssamgöngur taki til almenningssamgangna auk þess að koma í stað laga um fólksflutninga- og farmflutninga á landi nr. 73/2000 og laga um leigubifreiðar nr. 134/2001.
Byggðarráð frestar afgreiðslu málsins til næsta fundar.

2.Óskað umsagnar um frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun

Málsnúmer 1211004Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur nefndasviði Alþingis þar sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (flokkun virkjunarkosta og gerð orkunýtingaráætlunar), 3. mál.

Sigríður Svavarsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
"Fulltrúar Sjálfsæðisflokksins leggja á það áherslu í umsögn sinni við frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011, að Skatastaðavirkjun C verði sem fyrst færð úr biðflokki í nýtingarflokk í þeirri flokkun virkjunarkosta sem er að finna í þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Virkjun jökulsánna í Skagafirði hefur verið til athugunar síðan á 8. áratug síðustu aldar og er mikið til af rannsóknargögnum um fyrirhugaða orkukosti. Í athugasemdum Landsvirkjunar við niðurstöður faghópa 2. áfanga rammaáætlunar kemur fram að fjölmörg atriði sem fyrirhugaðar virkjanir kunna að hafa áhrif á séu stórlega ofmetin.
Virkjun fallvatna í Skagafirði er undirstaða kærkominnar iðnaðaruppbyggingar á atvinnusvæði sem hefur átt í vök að verjast á undanförnum árum. Eru fyrir því ýmsar ástæður en Skagafjörður hefur ekki farið varhluta af niðurskurði ríkisins sem hefur valdið hlutfallslega meiri fækkun opinberra starfa en í nokkru öðru héraði hér á landi.
Það er því brýn þörf á uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar í Skagafirði. Iðnaðar sem krefst menntaðs vinnuafls og greiðir góð laun. Þessi iðnaður þarf á orku að halda og er algjörlega óviðunandi ef stjórnvöld hyggjast veita íbúum Skagafjarðar enn eitt höggið með því að útiloka á næstu árum hagnýtingu umhverfisvænnar orku sem hægt er að framleiða í héraðinu með virkjun jökulánna til uppbyggingar atvinnulífs.
Þess má geta að í Skagafirði hefur um nokkurra ára skeið verið unnið að því að laða að fjárfestingu á sviði koltrefja- og basalttrefjaframleiðslu og í því skyni verið unnið að margvíslegum undirbúningi, rannsóknum á iðnaðiðnum og byggingu tengslanets í greininni. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið til verksins. Nýjasti þátturinn í þessu ferli er nám í plast- og trefjaiðnum við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en það er unnið í samvinnu við finnska og danska skóla, sem og fyrirtækja hér á landi. Í þeim hópi er m.a. að finna alþjóðlega stoðtækjaframleiðandann Össur sem framleiðir talsvert af sínum vörum úr koltrefjum. Jafnframt hefur verið unnið að þróun umhverfisvænna lausna við framleiðsluferlið, m.a. með notkun rafmagns við eyðingu skaðlegra efna sem verða til við framleiðslu koltrefja í stað þess að eyða þeim með bruna af völdum náttúrugass eða olíu.
Framleiðsla á koltrefjum og basalttrefjum er hátækniiðnaður sem krefst aðgengis að menntuðu starfsfólki og orku. Orkunotkunin er þó lítil í samanburði við margan annan orkufrekan iðnað, auk þess sem umhverfisáhrif eru takmörkuð. Þá yrði starfsmannafjöldi slíkrar framleiðslu bundinn við tugi starfa en ekki hundruð, sem hentar samfélagsgerðinni í Skagafirði vel.
Fulltrúar Sjálfsæðisflokksins leggja áherslu á að rannsóknum á virkjanakostum verði hraðað þannig að unnt verði að úrskurða sem fyrst um tilfærslu Skatastaðavirkjunar C úr biðflokki í nýtingarflokk. Sjálfstæðismenn átelja jafnframt þau vinnubrögð sem umhverfis- og iðnaðarráðherrar hafa haft með pólitískri aðför að faglegu ferli við gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði."

Bjarni Jónsson fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs bókar eftirfarandi:
"Vinstrihreyfingin grænt framboð í Skagafirði leggur áherslu á að tryggt verði að Jökulsárnar í Skagafirði ásamt vatnasviði þeirra verði í verndarflokki í tillögum að verndar- og orkunýtingaráætlun landssvæða. Mikil andstaða hefur verið við virkjanaáform í ánum meðal íbúa í Skagafirði og ríkur vilji til þess að vernda Jökulsárnar og stórbrotna náttúru þeirra og huga fremur að vistvænni nýtingu svæðisins. Undirstrikað er mikilvægi þess að vernda Jökulsárnar og ásýnd héraðsins til framtíðar."

Stefán Vagn Stefánsson fulltrúi Framsóknarflokksins bókar eftirfarandi:
"Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011. Undirritaður leggur á það mikla áherslu að virkjunarkostir í Skagafirði sem nú eru í biðflokki verði færðir yfir í nýtingarflokk.
Virkjun og nýting fallvatna Skagafjarðar er einn af lykilþáttum í atvinnuuppbyggingu í heimahéraði ef horft er til framtíðar. Nauðsynlegt er að Skagfirðingar fái að sitja við sama borð og aðrir er kemur að uppbyggingu atvinnukosta í héraði og hafi um það að segja hvernig orkan er nýtt."

3.Skólastofa á barnaskólalóð

Málsnúmer 1211018Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Skotfélaginu Ósmann, þar sem félagið minnir á vilja félagsins frá árinu 2000, til að kaupa aðra færanlegu skólastofuna á lóð Barnaskólans við Freyjugötu á Sauðárkróki og bókun byggðarráðs vegna þess, sama ár.
Byggðarráð þakkar skotfélaginu fyrir þann áhuga sem það sýnir á húsinu. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvað verður gert við þessar skólastofur, né hvenær.

Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndra og óháðra óskar bókað:
"Það er ekkert því til fyrirstöðu að hefja strax viðræður um að koma húsinu strax í gagn eftir að það hefur lokið hlutverki sínum sem skólahúsnæði sem er fyrirsjáanlegt í náinni framtíð. Í sveitarfélaginu eru því miður til dæmi um s.s. húsnæði Furukots þar sem aflögð skólahúsnæði er ónýtt svo árum skiptir fáum til gagns. Það er um að gera að koma í veg fyrir að svo verði með það húsnæði sem hér um ræðir.

4.Hólar,Ferðaþj.Hólum-umsögn um rekstrarleyfi

Málsnúmer 1211020Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá sýslumanninum á Sauðárkróki, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Ferðaþjónustunnar á Hólum, um endurnýjun á rekstrarleyfi fyrir Bjórsetur Íslands. Veitingastaður, flokkur III - Krá.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

5.Fjárhagsáætlun 2013

Málsnúmer 1208106Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun 2013 og vinna við hana rædd.

6.Þriggja ára áætlun 2014-2016

Málsnúmer 1210039Vakta málsnúmer

Þriggja ára áætlun 2014-2016 og vinna við hana rædd.

7.Fyrirhuguð niðurfelling Héraðsvega af vegaskrá

Málsnúmer 1210310Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Vegagerðinni, þar sem kynnt er fyrirhugaða niðurfellingu Deplavegar nr. 7886 af vegaskrá. Þar er ekki föst búseta og því uppfyllir vegurinn ekki skilyrði þess að teljast til þjóðvega.
Byggðarráð vísar erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar.

8.Þjóðvegur í þéttbýli - Strandvegur

Málsnúmer 1210466Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Vegagerðinni, þar sem fram kemur að Vegagerðin er sammála því að ljúka þurfi breytingu á legu Þverárfjallsvegar/Strandvegar um Sauðárkrók á móts við norðurenda Aðalgötu. Ekki hefur enn verið unnt að tryggja fjárveitingu til þeirrar framkvæmdar og er vísað til heildarendurskoðunar samgönguáætlunar 2015-2026, sem fer fram innan tveggja ára, vegna þess.
Byggðarráð vísar erindinu til umhverfis- og samgöngunefndar.

9.Kjördeild VIII

Málsnúmer 1210477Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Jóni Karlssyni, þar sem hann segir sig úr kjörstjórn við kjördeild VIII (Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki).
Byggðarráð þakkar Jóni Karlssyni fyrir gott og óeigingjart starf í gegnum árin og óskar honum velfarnaðar.

10.Rekstrarupplýsingar 2012

Málsnúmer 1205003Vakta málsnúmer

Upplýsingar úr rekstri sveitarfélagsins og stofnana þess janúar-september 2012.

Fundi slitið - kl. 10:41.