Fara í efni

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar

219. fundur 18. júní 2021 kl. 10:00 - 11:53 með fjarfundabúnaði
Nefndarmenn
  • Jóhannes H Ríkharðsson aðalm.
  • Jóel Þór Árnason aðalm.
  • Valdimar Óskar Sigmarsson aðalm.
  • Jón Sigurjónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Kári Gunnarsson umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá
Landbúnaðarnefnd samþykkti samhljóða að taka mál 2106174-Ágangur Langholtsfjár, á dagskrá með afbrigðum.

1.Ágangur Langholtsfjár

Málsnúmer 2106174Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur frá Jóni Grétarssyni, Hóli í Sæmundarhlíð, dagsettur 14. júní 2021 og bréf dagsett 15. júní s.l. frá ábúendum eftirtalinna jarða; Hóll, Bessastaðir, Valagerði, Fjall og Stóra-Vatnsskarð, þar sem kvartað er yfir ágangi sauðfjár frá Syðra-Skörðugili og Halldórsstöðum, á heimallönd og ræktað land. Gera ábúendurnir þá kröfu að fjáreigendur þessara jarða haldi sínu fé í afgirtu landi sínu og/eða því landi sem þeir hafa heimild til að nýta þar til upprekstur á afrétt er leyfður. Vísað er til 33. grein laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. og 6. grein fjallskilasamþykktar Skagafjarðarsýslu frá árinu 2017. Einnig er vísað til 17. greinar reglugerðar nr. 511/2018 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Landbúnaðarnefnd samþykkir að senda ábúendum Syðra-Skörðugils og Halldórsstaða tilmæli um að koma girðingum í lag fyrir 22. júní 2021 og af því loknu fá staðfestingu frá úttektarmönnum girðinga (RML) um að girðingarnar séu fjárheldar og senda til Kára Gunnarssonar umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa sveitarfélagsins.

2.Stofnun veiðifélags um vötn og vatnsföll á Eyvindarstaðaheiði

Málsnúmer 1901165Vakta málsnúmer

Erindið áður á fundi landbúnaðarnefndar þann 25. febrúar 2019. Kári Gunnarsson umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi kynnti fyrir fundarmönnum stöðu málsins. Ekkert veiðifélag nær yfir Bugavatn, Blönduvatn og Þúfnavatn. Unnið er að stofnun veiðifélags um þessi vötn og í vinnslu hjá Fiskistofu.

3.Ósk um leigu á landi til beitar

Málsnúmer 2103342Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 30. mars 2021 frá Elisabeth Jansen þar sem hún óskar eftir að fá að taka á leigu beitiland við Hofsós, norðan við Hofsá og vestan Siglufjarðarvegar. Erindinu vísað til umsagnar landbúnaðarnefndar af fundi byggðarráðs þann 5. maí 2021.
Um þetta land hefur verið til munnlegur leigusamningur sem ekki hefur verið skráður í málakerfi sveitarfélagsins og viðkomandi leiguhafi hefur greitt leigu af landinu undangengin ár.
Landbúnaðarnefnd mælist til þess við byggðarráð að erindinu verði synjað og gengið verði frá skriflegum leigusamningi við núverandi leiguhafa um landið.

4.Minkaveiði fyrir sveitarfélagið

Málsnúmer 2105105Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 3. maí 2021 frá Kára Gunnarssyni, umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa varðandi minkaveiðimeð Húseyjarkvísl frá Jaðri að Saurbæ, sem hann hefur sinnt um árabil.
Óskar Kári eftir því að fá að sinna þessu verkefni áfram, með störfum sínum fyrir sveitarfélagið, en á móti býðst hann til að afsala sér veiðiverðlaunum.
Kári Gunnarsson vék af fundinum við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
Landbúnaðarnefnd samþykkir að heimila Kára Gunnarssyni að halda áfram minkaveiðum með þessu lagi.

5.Refa- og minkaveiðar 2021

Málsnúmer 2104154Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um breytt fyrirkomulag á verðlaunum fyrir hlaupadýr til annarra en ráðinna refaveiðimanna.
Skilyrði til að fá greitt fyrir hlaupadýr frá Sveitarfélaginu Skagafirði eru sem hér segir:
Dýrið sé veitt inna marka Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Skottum þarf að skila inn fyrir 30. apríl ár hvert.
Að viðkomandi hafi gilt skotvopnaleyfi.
Skila inn dagsettri mynd ásamt staðsettum hnitum af dýri á þeim stað sem það er fellt.
Sé borið út æti skal framvísa gildu leyfi frá landeiganda og MAST um að viðkomandi hafi leyfi fyrir útburðinum.
Verðlaun verða 4.000 kr. til annarra en ráðinna veiðimanna að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
Landbúnaðarnefnd samþykkir tillöguna.

Landbúnaðarnefnd samþykkir verktakasamning við Hafþór Smára Gylfason um refaveiði.

6.Girðingar meðfram vegum

Málsnúmer 2106158Vakta málsnúmer

Landbúnaðarnefnd brýnir fyrir landeigendum í sveitarfélaginu að halda við girðingum sínum og sérstaklega meðfram vegum, en víða er ástand girðinga í ábótavant. Landbúnaðarnefnd samþykkir að fela Kára Gunnarssyni umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa að láta birta auglýsingu í t.d. Sjónhorni um skyldur landeigenda varðandi girðingar og afla frekari gagna um ástand girðinga meðfram vegum í sveitarfélaginu.

7.Umburðarbréf v. breytinga á jarðalögum

Málsnúmer 2105305Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 28. maí 2021 frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Hinn 18. maí 2021 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004 (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskylda o.fl.), sem öðlast munu gildi 1. júlí n.k. Með þessu bréfi er leitast við að gefa yfirlit um helstu breytingar sem af þessu leiða.

8.Ársreikningur 2020 Fjallsk.sjóður Hóla- og Viðvíkurdeilda

Málsnúmer 2106113Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynnningar ársreikningur 2020 fyrir Fjallskilasjóð Hóla- og Viðvíkurdeildar.

Fundi slitið - kl. 11:53.