Fara í efni

Árskóli - menningarhús

Málsnúmer 0804018

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 429. fundur - 10.04.2008

Kynntar hugmyndir um fyrirhugaða stækkun Árskóla og mögulega samtengingu þess verkefnis við byggingu menningarhúss á Sauðárkróki. Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs kom inn á fundinn.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 226. fundur - 16.04.2008

Afgreiðsla 429. fundar byggðarráðs staðfest á 226. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 430. fundur - 17.04.2008

Rætt um byggingu viðbyggingar við Árskóla og menningarhús á Sauðárkróki. Málið tekið aftur fyrir á næsta fundi byggðarráðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 431. fundur - 23.04.2008

Verkefnið Árskóli - menningarhús rætt. Áður kynnt á 429. fundi byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir að halda kynningarfund um verkefnið næsta þriðjudag á undan fundi sveitarstjórnar. Á fundinn verði boðaðir sveitarstjórnarfulltrúar og forstöðumenn þeirra stofnana sem byggingin snertir.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 227. fundur - 29.04.2008

Afgreiðsla 430. fundar byggðarráðs staðfest á 227. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 227. fundur - 29.04.2008

Afgreiðsla 431. fundar byggðarráðs staðfest á 227. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Menningar- og kynningarnefnd - 31. fundur - 06.05.2008

Lagðar fram til kynningar hugmyndir um byggingu Menningarhúss í námunda við Árskóla.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 433. fundur - 08.05.2008

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Lagt er til að væntanlegt menningarhús á Sauðárkróki rísi norðan nýrrar viðbyggingar við Árskóla með tengibyggingu milli skóla og menningarhúss. Með því er ætlunin að nýta sem best báðar byggingarnar og skapa skóla- og menningarstarfi bestu fáanlegu aðstöðu.
Byggðaráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir fundi með menntamálráðherra vegna aðkomu ríkisins að byggingu menningarhúss á Sauðárkóki.

Greinargerð:
Þegar ríkisstjórnin ákvað 1995 að styrkja byggingu menningarhúss á Sauðárkróki kom upp sú hugmynd að byggt yrði menningarhús á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki. Sú hugmynd var bæði sett fram í gamni og alvöru. Árið 2004 ákvað sveitarstjórn að óska eftir því að ákvörðun um menningarhús á Sauðárkróki yrði útfærð á þann hátt að 100 mkr. yrðu settar í endurbyggingu félagsheimilisins Miðgarðs með áherslu á tónlistarflutning. Á sama tíma komu fram hugmyndir um að byggja við Safnahúsið á Sauðárkróki og þar yrði lög áhersla á listir,fræðastarf, bókasafn félagsstarf o.þ.h. Í þeim hugmyndum var ekki horft til sviðslista né kvikmyndasýninga. Skv. samningi við Menntamálráðuneytið var gert ráð fyrir 60 mkr. framlagi frá ríkinu til endurbóta á Miðgarði og tæplega 220 mkr. framlagi til menningarhúss á Sauðárkróki eða samtals um 280 mkr.

Til margra ára hefur legið fyrir brýn þörf á að byggja við Árskóla, þar vantar kennslustofur, fundar og samkomusal, mötuneyti, félagsaðstöðu. Fyrir nokkrum árum var unnin tillaga að viðbyggingu við skólann sem m.a. gerði ráð fyrir byggingu hátíðarsalar og kennsluálmu.Um svipað leiti sem hafist var handa við hönnun Miðgarðs kom fram hugmynd um hvort skynsamlegt gæti verið að byggja nýtt menningarhús tengt Árskóla og ná fram samnýtingu á húsnæði menningarhússins og skólabyggingunni.
Hugmyndin var borin undir forsvarsmenn Árskóla, Tónlistarskólans, Héraðsskjalasafnsins, Héraðsbókasafnsins og Byggðasafnsins sem tölu skynsamlegt að skoða það vandlega.

Hönnuðir að Árskóla voru því fengnir til að koma með grófa hugmynd að því með hvaða hætti þessi starfsemi gæti farið saman. Forsvarsmenn áðurnefndra stofnana fóru í þarfagreiningu um rými og starfsaðstöðu og var núverandi hugmyndin unnin útfrá þeim. Talið var mikilvægt að gera ráð fyrir fjölnotasal í menningarhúsinu sem nýst gæti sem leikhús, kvikmyndasalur, kennslusalur, funda og ráðstefnusalur. Gert er ráð fyrir tónlistarskólanum í húsinu, með því verður búið að ná starfsemi Árskóla og tónlistarskólans undir eitt þak. Forsvarsmenn áðurnefndra stofnana hafa lýst sig fylgjandi því að hugmyndin verði að veruleika.

Rétt er að taka fram að bygging menningarhúss norðan viðbyggingar Árskóla gengur verulega á æfingasvæði íþróttavallarins. Í stað þess æfingasvæðis sem víkur þarf að gera ráð fyrir nýju svæði í tengslum við íþróttavöllinn sem nýtist til æfinga, knattspyrnumóta oþh. Benda má á kosti þess að nýta hluta af nöfunum í þetta.


Fyrir liggur að kosta þarf miklu til viðhalds á því húsnæði sem nú hýsir áðurnefnt menningarstarf. Áætlað að það kosti um 170 mkr. að gera viðbætur á Safnahúsinu og gera það aðgengilegt. Ástand Bifrastar þarf ekki að tíunda það þekkja flestir. Barnaskólahúsið við Freyjugötu þarfnast verulegs viðhalds auk þess sem verulegt hagræði hlýst af því að vera með Árskóla undir einu þaki með tónlistarskólanum. Ljóst er viðbygging Árskóla og bygging menningarhúss mun kosta miklar fjárhæðir og því mikilvægt að huga að fjármögnun samhliða frekari hönnun og umræðum.

Byggðaráð samþykkir með tveimur atkvæðum meirihlutans að menningarhúsið á Sauðárkóki rísi norðan nýrrar viðbyggingar Árskóla. Páll Dagbjartsson greiðir atkvæði á móti og mun gera grein fyrir afstöðu Sjálfstæðisflokksins á næsta sveitarstjórnarfundi.

Bjarni Jónsson óskar bókað: Undirritaður hefur vissar efasemdir um málið eins og það er undirbúið og framsett. Sýna þarf raunsæi gagnvart fjárhagslegri getu sveitarfélagsins til að ráðast í nýjar stórar framkvæmdir af þessu tagi og skuldbindingar þeirra vegna á meðan aðrar brýnar framkvæmdir bíða. Þá gæti þessi dýra nálgun orðið til að tefja nauðsynlega viðbyggingu við Árskóla. Frekari grein mun verða gerð fyrir afstöðu VG á sveitarstjórnarfundi.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 228. fundur - 20.05.2008

Páll Dagbjartsson lagði fram tillögu:

?Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru andvígir þeirri hugmynd að tengja fyrirhugað menningarhús á Sauðárkróki við byggingu Árskóla með þeim hætti sem meirihluti sveitarstjórnar hefur nú kynnt. Ástæður þess eru tilgreindar í greinargerð hér á eftir.
Þess í stað setjum við fram svofellda tillögu:

Sveitarstjórn samþykkir að síðar á þessu ári verði hafist handa við hönnun á viðbyggingu við Árskóla. Miðað verði við að Árskóli geti tekið við allt að 550 nemendum og tónlistarskólinn flytji þangað starfsemi sína. Í hönnuninni verði stuðst við húsnæðisnorm sem í gildi eru og þar með gert ráð fyrir fjölnota samkomusal. Áfram verði stefnt að byggingu menningarhúss við Faxatorg sem m.a. hýsi safnastarfsemina.

Greinargerð:
? Ekki er fyrir hendi rými á skólalóð Árskóla fyrir þá stórbyggingu sem meirihluti sveitarstjórnar hefur hug á að byggja.
? Ekki verður nægilegt pláss á skólalóðinni fyrir leiksvæði, leikvelli, boltavelli og annað athafnarými fyrir nemendur. Núverandi skólalóð Árskóla getur vart talist forsvaranleg og samkvæmt framangreindri hugmynd verða afar takmarkaðir möguleikar til að bæta úr því.
? Vandræði verða með umferðarmál og bílastæði.
? Samnýtingaráhrifin, sem mikið er talað um, eru sáralítil og einungis tengd fjölnota samkomusal .
? Safnastarfsemin á ekkert erindi inn á skólalóð grunnskóla, - engin samnýtingaráhrif eru fólgin í þeirri skipan.
? Það er löngu vitað að samrekstur skólabókasafna og almenningsbókasafna fer ekki saman. Hefur hvergi gefist vel þar sem það hefur verið reynt.
? Ef taka skal syðsta hluta íþróttasvæðisins undir þessar byggingar þarf að finna og útbúa annað svæði þess í stað og kostnað af því þarf að reikna með í heildardæmið. Og hvar á að koma fyrir boltavöllum og öðrum leikvöllum fyrir nemendur?
? Fjárhagshliðinni hefur lítill gaumur verið gefinn. Einungis talað um að leita leiða til fjármögnunar. Sveitarfélagið getur ekki staðið undir fjármagnskostnaði og afborgunum af 1,5 milljörðum króna til viðbótar þeim fjárfestingum sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í. Sá kostnaður gæti numið hálfum milljarði. Af þessum sökum er óásættanlegt að vera með hugmyndir af þessum toga í einhverri flýtimeðferð eins og meirihlutinn hefur talað fyrir.
? Allar samanburðartölur sem meirihlutinn hefur haldið á lofti eru mjög lítið ígrundaðar. T.d. er fráleitt að taka 10 ? 15 ára hugmynd um viðbyggingu Árskóla, sem allir hafa verið sammála um að var ekki nothæf, og bera beint saman við núverandi hugmyndir. 170 milljón króna endurbótakostnaður við Safnahúsið ar alveg órökstuddur.
? Við eigum að sýna starfsemi grunnskólans og tónlistarskólans það mikla virðingu að taka ekki áhættu af þessum toga með því að flækja starfsemi þeirra saman við óskyldan rekstur.
? Við eigum að gera Skagfirskri menningu það hátt undir höfði að reist verði sjálfstætt Menningarhús eitt og sér, án tengsla við aðra óskylda starfsemi og standa þar að með myndarskap. Þegar til lengri tíma er litið munu komandi kynslóðir þakka slíka framsýni.
? Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn eru reiðubúnir til að taka þátt í því að þetta mál verði tekið upp frá grunni og skoðað frá byrjunarreit.?

Bjarni Jónsson lagði fram tillögu:
?Skipaður verði starfshópur fulltrúa allra flokka sem aðild eiga að sveitarstjórn, sem fari yfir stöðu og forgangsröðun framkvæmda sem ákveðið hefur verið að ráðast í eða eru til skoðunar hjá sveitarfélaginu.?

Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Samfylkingar:
?Þegar ríkisstjórnin ákvað 1995 að styrkja byggingu menningarhúss á Sauðárkróki kom upp sú hugmynd að byggt yrði menningarhús á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki. Sú hugmynd var bæði sett fram í gamni og alvöru. Árið 2004 ákvað sveitarstjórn að óska eftir því að ákvörðun um menningarhús á Sauðárkróki yrði útfærð á þann hátt að 100 mkr. yrðu settar í endurbyggingu félagsheimilisins Miðgarðs með áherslu á tónlistarflutning.

Á sama tíma komu fram hugmyndir um að byggja við Safnahúsið á Sauðárkróki og þar yrði lögð áhersla á listir, fræðastarf, bókasafn, félagsstarf o.þ.h. Í þeim hugmyndum var ekki horft til sviðslista né kvikmyndasýninga. Skv. samningi við Menntamálaráðuneytið var gert ráð fyrir 60 mkr. framlagi frá ríkinu til endurbóta á Miðgarði og tæplega 220 mkr. framlagi til menningarhúss á Sauðárkróki eða samtals um 280 mkr. Til margra ára hefur legið fyrir brýn þörf á að byggja við Árskóla, þar vantar t.d. kennslustofur, fundar- og samkomusal, ásamt félagsaðstöðu. Núverandi meirihluti ákvað að setja upp framtíðar mötuneyti fyrir skólann og hefur það nú þegar gefið góða raun.

Fyrir nokkrum árum var unnin tillaga að viðbyggingu við skólann sem m.a. gerði ráð fyrir byggingu hátíðarsalar og kennsluálmu.Um svipað leyti sem hafist var handa við hönnun Miðgarðs kom fram hugmynd um hvort skynsamlegt gæti verið að byggja nýtt menningarhús norðan Árskóla og ná fram samnýtingu á húsnæði menningarhússins og skólabyggingunni. Hugmyndin var borin undir forsvarsmenn Árskóla, Tónlistarskólans, Héraðsskjalasafnsins, Héraðsbókasafnsins og Byggðasafnsins, sem töldu skynsamlegt að skoða það vandlega. Hönnuðir að Árskóla voru því fengnir til að koma með grófa hugmynd að því með hvaða hætti þessi starfsemi gæti farið saman. Forsvarsmenn áðurnefndra stofnana fóru í þarfagreiningu um rými og starfsaðstöðu og er núverandi hugmyndin unnin útfrá þeim. Talið er mikilvægt að gera ráð fyrir fjölnotasal í menningarhúsinu sem nýst getur sem leikhús, kvikmyndasalur, kennslusalur, funda og ráðstefnusalur. Bylting verður í aðstöðu Tónlistarskóla Skagafjaðar en gert er ráð fyrir honum í húsinu en með því verður búið að ná starfsemi Árskóla og tónlistarskólans undir eitt þak. Forsvarsmenn áðurnefndra stofnana hafa lýst sig fylgjandi því að hugmyndin verði að veruleika.

Umferðarmál eru ætíð áhyggjuefni við skólabyggingar. Meirihlutinn ákvað að hefja framkvæmdir við nýjan veg úr Hlíðarhverfi sem vonast er til að dragi úr umferð bifreiða sem ekki eiga erindi í skólahverfið. Umferð þeirra sem leið eiga í skólahverfið mun lítið aukast umfram það sem er í dag. Þunginn í starfsemi menningarhúss er á öðrum tímum en skólatíma þannig að ætla má að umferð dreifist yfir daginn. Sérstök áhersla verður að leggja á að tryggja öryggi nemenda við útfærslu á endanlegri hönnun.

Rétt er að taka fram að bygging menningarhúss norðan viðbyggingar Árskóla gengur verulega á æfingasvæði íþróttavallarins. Í stað þess æfingasvæðis sem víkur þarf að gera ráð fyrir nýju svæði í tengslum við íþróttavöllinn sem nýtist til æfinga, knattspyrnumóta o.þ.h. Benda má á kosti þess að nýta hluta af nöfunum í þetta. Þá hafa komið fram hugmyndir um byggingu knattspyrnhúss í tengslum við íþróttsvæðið. Hugmyndir um menningarhús á þessum stað hafa verið kynntar aðalstjórn UMFT og er fullur vilji til að horfa til framtíðar og leysa í sameiningu þau mál sem þegar liggja fyrir og kunna að koma upp.

Fyrir liggur að kosta þarf miklu til viðhalds á því húsnæði sem nú hýsir áðurnefnt menningarstarf. Áætlað að það kosti um 170 mkr. að gera viðbætur á Safnahúsinu og gera það aðgengilegt. Ástand Bifrastar þarf ekki að tíunda, það þekkja flestir. Barnaskólahúsið við Freyjugötu þarfnast verulegs viðhalds auk þess sem verulegt hagræði hlýst af því að vera með Árskóla undir einu þaki með tónlistarskólanum. Ljóst er að viðbygging Árskóla og bygging menningarhúss mun kosta miklar fjárhæðir og því mikilvægt að huga að fjármögnun samhliða frekari hönnun og umræðum. Bættur rekstur sveitarfélagsins gefur vísbendingar um að farsæl lending náist.

Eitt af stefnumálum Framsóknarflokks og Samfylkingar er að hefja framkvæmdir við byggingu Árskóla á kjörtímabilinu. Það, að byggja menningarhús í nálægð við skólann, breytir þar engu um en saman nýtast byggingarnar betur þeirri starfsemi sem þeim er ætlað að hýsa. Framkvæmdin styrkir enn frekar stoðir sveitarfélagsins í samkeppninni um fjölgun íbúa.?

Tillaga Páls Dagbjartssonar borin undir atkvæði og felld með fimm atkv. gegn fjórum.

Tillaga Bjarna Jónssonar borin undir atkvæði og felld með fimm atkv. gegn þrem.

Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
?Það er furðulegt að meirihlutinn skuli hafna samráði innan sveitarstjórnar um slík hagsmunamál eins og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins.?

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir leggur fram bókun meirihlutans:
?Sveitarfélagið hefur á að skipa byggðarráði sem fer með framkvæmda- og fjármálastjórn ásamt sveitarstjóra. Ekki er því þörf á því að skipa starfshóp eins og VG leggja til.?

Afgreiðsla 433. fundar byggðarráðs staðfest á 228. fundi sveitarstjórnar með fimm atkvæðum gegn fjórum.

Bjarni Jónsson VG greiðir atkvæði gegn þessum lið og gerir grein fyrir atkvæði sínu með bókun:
?Tillöguflutningur meirihlutans um að byggja menningarhús yfir íþróttavöllinn við hlið Árskóla er illa grundaður og innistæðulaus. Það lýsir miklu óraunsæi að taka ákvarðanir um framkvæmdir upp á einn og hálfan milljarð á meðan margar brýnar framkvæmdir bíða í sveitarfélaginu. Slík samþykkt sem sveitarfélagið hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa við á næstunni, á eftir að verða til þess að tefja framkvæmdir við nauðsynlega viðbyggingu við Árskóla sem einnig hýsi Tónlistarskólann. Þá væri einnig nær að sjá til lands varðandi aðrar framkvæmdir sem ákveðið hefur verið að ráðast í og dregist hafa úr hófi fram eins og leikskólabygging sem enn bólar ekkert á áður en ganað er áfram af slíku fyrirhyggjuleysi. Hvað líður Húsi Frítímans sem átti að vera tilbúið í október á síðasta ári og enginn veit hvað muni kosta áður en upp er staðið. Uppbygging á Menningarhúsinu Miðgarði hefur tafist um fleiri misseri fyrir kostnaðarsaman hringlandahátt meirihlutans.Ýmis fleiri stór verkefni bíða. Stefnt hefur verið að byggingu menningarhúss við Faxatorg sem hýsi safnastarfið ásamt annarri starfsemi og var sá undirbúningur í góðum farvegi. Nái hugmyndir meirihlutans um byggingu menningarhúss ofan í íþróttavöllinn fram að ganga illi það ennfremur miklum skaða á íþróttasvæðinu og gildir þá einu umboðslaust gaspur formanns byggðaráðs í fjölmiðlum um byggingu knattspyrnuhallar sem aldrei hefur komið til tals í sveitarstjórn. Meirihlutanum væri nær að láta verkin tala en halda áfram að láta sig dreyma við teikniborðið.?

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn þessum lið og vísa til tillögu og greinargerðar hér að framan.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 228. fundur - 20.05.2008

Lagt fram til kynningar á 228. fundi sveitarstjórnar.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 39. fundur - 26.05.2008

Viðbygging við Árskóla og menningarhús. Gunnar Bragi Sveinsson formaður byggðaráðs og Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri mættu á fundinn og fóru yfir hugmyndir um viðbyggingu við Árskóla og Menningarhús norðan hans.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 229. fundur - 03.06.2008

Lagt fram til kynningar á 229. fundi sveitarstjórnar.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 437. fundur - 05.06.2008

Lögð fram svohljóðandi tillaga af fulltrúum Framsóknarflokks og Samfylkingar:
Skipuð verði bygginganefnd Árskóla og menningarhúss er hafi umsjón með undirbúningi, hönnun og framkvæmd verksins. Þá láti nefndin fara fram skoðun á leiðum til fjármögnunar verksins. Nefndina skipa Gunnar Bragi Sveinsson formaður byggðarráðs, Óskar G. Björnsson skólastjóri Árskóla og Unnar Ingvarsson forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Með nefndinni starfi Guðmundur Guðlaugsson sveitarstjóri, Jón Örn Berndsen sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs og Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs.

Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum.

Páll Dagbjartsson óskar bókað:
Sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa þegar hafnað hugmynd meirihlutans að byggja menningarhús samtengt viðbyggingu Árskóla. Vísast þar til bókunar á sveitarstjórnarfundi 20. maí s.l. Þar af leiðandi höfnum við því að taka þátt í skipun bygginganefndarinnar svo og öðru því sem meirihlutinn hyggst gera til að vinna þessari hugmynd sinni framgang.
Við minnum á að í fullu gildi er samkomulag milli menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórna beggja sveitarfélaganna í Skagafirði dags. 28. maí 2005. Þar segir m.a. "Það er yfirlýstur vilji sveitarfélaganna og menntamálaráðuneytisins að menningarhús í Skagafirði verði tvíþætt og felist í fyrsta lagi, í uppbyggingu og endurbótum á Miðgarði og í öðru lagi, í viðbyggingu og endurbótum á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki." Þetta samkomulag var samþykkt samhljóða í báðum sveitarstjórnunum m.a. af oddvitum núverandi meirihluta, sem þá voru í minnihluta.

Bjarni Jónsson óskar bókað:
Undirritaður ítrekar bókun um málið á sveitastjórnarfundi 20. maí s.l. þar sem lýst var andstöðu við áform meirihlutans að byggja menningarhús að upphæð yfir 1,5 milljarð yfir íþróttasvæðið á Sauðárkróki og eyðileggja þannig þá góðu aðtöðu sem þar er nú. Áformin eru óraunsæ og endurspegla ekki fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins eða að tillit sé tekið til fjárþarfar brýnni verkefna eins og viðbyggingar við Árskóla, leikskóla á Sauðárkróki, íþróttahús á Hofsósi og framkvæmdir við bætta sundaðstöðu á Sauðárkróki. Fleiri verkefni mætti nefna. Þá er skipan bygginganefndar ótímabær og óþörf í ljósi bókunar meirihlutans á sveitarstjórnarfundi 20. maí þar sem málið var til umfjöllunar. Þar hafnaði meirihlutinn tillögu VG um að skipaður verði starfshópur fulltrúa allra flokka sem fari yfir stöðu framkvæmda sem verið er að ráðast í eða eru til skoðunar í sveitarfélaginu, með svohljóðandi bókun: ?Sveitarfélagið hefur á að skipa byggðarráði sem fer með framkvæmda- og fjármálastjórn ásamt sveitarstjóra. Ekki er því þörf á því að skipa starfshóp eins og VG leggja til.?

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 230. fundur - 24.06.2008

Páll Dagbjartsson ítrekar bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í Byggðarráði 5. júní sl., sem er svohljóðandi:
"Sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa þegar hafnað hugmynd meirihlutans að byggja menningarhús samtengt viðbyggingu Árskóla. Vísast þar til bókunar á sveitarstjórnarfundi 20. maí s.l. Þar af leiðandi höfnum við því að taka þátt í skipun byggingarnefndar svo og öðru því sem meirihlutinn hyggst gera til að vinna þessari hugmynd sinni framgang.
Við minnum á að í fullu gildi er samkomulag milli menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórna beggja sveitarfélaganna í Skagafirði dags. 28. maí 2005. Þar segir m.a.: "Það er yfirlýstur vilji sveitarfélaganna og menntamálaráðuneytisins að menningarhús í Skagafirði verði tvíþætt og felist í fyrsta lagi, í uppbyggingu og endurbótum á Miðgarði og í öðru lagi, í viðbyggingu og endurbótum á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki." Þetta samkomulag var samþykkt samhljóða í báðum sveitarstjórnunum m.a. af oddvitum núverandi meirihluta, sem þá voru í minnihluta."

Bjarni Jónsson óskar bókað:
"Undirritaður ítrekar bókun um málið á sveitarstjórnarfundi 20. maí s.l. þar sem lýst var andstöðu við áform meirihlutans að byggja menningarhús að upphæð yfir 1,5 milljarð yfir íþróttasvæðið á Sauðárkróki og eyðileggja þannig þá góðu aðtöðu sem þar er nú. Áformin eru óraunsæ og endurspegla ekki fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins eða að tillit sé tekið til fjárþarfar brýnni verkefna eins og viðbyggingar við Árskóla, leikskóla á Sauðárkróki, íþróttahús á Hofsósi og framkvæmdir við bætta sundaðstöðu á Sauðárkróki. Fleiri verkefni mætti nefna. Þá er skipan bygginganefndar ótímabær og óþörf í ljósi bókunar meirihlutans á sveitarstjórnarfundi 20. maí þar sem málið var til umfjöllunar. Þar hafnaði meirihlutinn tillögu VG um að skipaður verði starfshópur fulltrúa allra flokka sem fari yfir stöðu framkvæmda sem verið er að ráðast í eða eru til skoðunar í sveitarfélaginu, með svohljóðandi bókun: ?Sveitarfélagið hefur á að skipa byggðarráði sem fer með framkvæmda- og fjármálastjórn ásamt sveitarstjóra. Ekki er því þörf á því að skipa starfshóp eins og VG leggja til.
Meirihlutinn er greinilega mjög tvísaga og leitast lítt við að ástunda vandaða stjórnsýsluhætti. Er ástæða til að lýsa áhyggjum yfir þeim vinnubrögðum, sem meirihlutinn hefur tamið sér.?

Gunnar Bragi Sveinsson leggur fram bókun meirihlutans:
"Það hefur sýnt sig að undirbúningur framkvæmda tekur langan tíma ef vanda á til verka. Því er mikilvægt að hefjast strax handa við undirbúning.

Afgreiðsla 437. fundar byggðarráðs staðfest á 230. fundi sveitarstjórnar 24.06.08 með fimm atkvæðum gegn fjórum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG greiða atkvæði á móti.