Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

907. fundur 25. mars 2020 kl. 12:00 - 13:19 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Gísli Sigurðsson varaform.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Laufey Kristín Skúladóttir
  • Kristín Jónsdóttir. ritari
  • Helga Sigurrós Bergsdóttir ritari
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjálmálasviðs
Dagskrá

1.Hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf

Málsnúmer 2003207Vakta málsnúmer

Byggðarráð fjallaði um hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf. Byggðarráð mun safna saman hugmyndum og vinna áfram að þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma, miðað við aðstæður og horfur, í nánu samstarfi við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ljóst er að frekari aðgerða er þörf og málið verður á dagskrá byggðarráðs á meðan ástandið vegna COVID-19 varir.

2.Heimild til fullnaðarafgreiðslu og breytinga á innheimtu gjalda

Málsnúmer 2003217Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 906. fundar byggðarráðs þann 18. mars 2020.
Lagður fram tölvupóstur dagsettur 23. mars 2020 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi leiðbeiningar um aðgerðir fyrir heimilin vegna COVID-19 faraldursins og leiðbeiningar við ákvarðanir um afslátt af greiðsluhlutdeild notenda í velferðarþjónustu.
Útbreiðsla COVID-19 veirunnar veldur miklu raski á allri starfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði. Hefur þetta ástand einnig áhrif á bæði fyrirtæki og heimili með fyrirsjáanlegu tekjutapi á næstu mánuðum.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að eftirfarandi verði samþykkt sem fyrstu aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins:
a)
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir eftirfarandi breytingu á eindögum í samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda árið 2020. Eindögum gjalddaga frá 1. apríl til 1. október 2020 verður seinkað um tvo mánuði, þ.e. eindagi gjaldaga 1. apríl verður 30. júní 2020 o.s.frv.
b)
Vegna þeirra raskana sem orðið hafa á þjónustu stofnana sveitarfélagsins vegna COVID-19 veirunnar mun greiðsluhlutdeild einungis ná til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt í þjónustu stofnana sveitarfélagsins, þ.e. leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, frístund og dagdvöl aldraðra, og verður innheimta þjónustunnar endurskoðuð í því ljósi. Skal sú tilhögun hefjast frá og með þeim tíma sem þjónusta var skert vegna COVID-19 veirunnar en um er að ræða tímabundna ákvörðun sem gildir til loka maí nk. Endurskoðun fer fram að teknu tilliti til aðstæðna og verður fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí nk.
c)
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs heimild til fullnaðarafgreiðslu skv. ofangreindu.
Sveitarstjórn mun í framhaldinu skoða fleiri leiðir til að bregðast við ástandinu, fylgjast með aðgerðum ríkisstjórnar og því hvernig önnur sveitarfélög bregðast við og vera í sambandi við Samband íslenskra sveitarfélaga um nánari útfærslur.

3.Lóð númer 70 við Sauðárhlíð

Málsnúmer 2002229Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsti til sölu fasteign á lóð númer 70 við Sauðárhlíð á Sauðárkróki, fasteignanr. F2132646, landnr. 144009. Um er að ræða hlöðu sem byggð var árið 1959, u.þ.b. 80 m2 og stendur á 2400 m2 lóð. Ráðstöfun lóðar er bundin því skilyrði að hefðbundinn lóðarleigusamningur verði gerður til allt að 25 ára, sem taki m.a. mið af skilmálum sem komu fram í auglýsingu, skilmálum á heimasíðu sveitarfélagsins og/eða leiða af hugmyndum bjóðanda, sbr. síðargreind greinargerð. Takmörkuð mannvirki verða leyfð á lóðinni, lægri en núverandi hlaða, sem hæfi umhverfinu, skv. nánari skipulagsskilmálum. Heimilt verður að rífa hlöðu ef þurfa þykir. Tilboðsfrestur rann út á miðnætti þann 18. mars 2020.
Tvö tilboð bárust innan tilskilins frests. Annað frá Sauðárkróksbakarí ehf. og gagn ehf. fyrir hönd óstofnaðs dótturfélags og hitt frá Kristni T. Björgvinssyni og Sigurpáli Aðalsteinssyni.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að fara yfir tilboðin og óska eftir að bjóðendur komi á fund byggðarráðs til viðræðu um tilboðin.

4.Löngumýrarskóli 1460555 - Umsókn um rekstrarleyfi

Málsnúmer 2003162Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. mars 2020 frá sýslumannsembætti Norðurlands vestra, úr máli 2003274. Óskað er umsagnar um umsókn dagsetta 12.mars 2020 þar sem Gunnar Rögnvaldsson, kt. 031067-3919, Löngumýri, 560 Varmahlíð, f.h. Löngumýrarskóla sækir um leyfi til að reka gististað í flokki II að Löngumýri, 561 Varmahlíð.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

5.Styrktarsjóður EBÍ 2020

Málsnúmer 2003187Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 16. mars 2020 frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélag Íslands varðandi styrktarsjóð EBÍ 2019. Vakin er athygli á að aðildarsveitarfélögum EBÍ er heimilt að senda inn umsókn í sjóðinn sem er vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum sveitarfélaganna en ekki vegna almennra rekstrarverkefna þeirra. Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2020.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að kynna málið fyrir sviðsstjórum.

6.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða

Málsnúmer 2003214Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 21. mars 2020 þar sem velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, 666. mál.
Byggðarráð fagnar framkomnu frumvarpi.

7.Samráð; Drög að breytingu á reglugerð um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2003173Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 16. mars 2020 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 74/2020, "Drög að breytingu á reglugerð um framkvæmdaleyfi". Umsagnarfrestur er til og með 31.03. 2020.
Byggðarráð fagnar framkomnum drögum að breytingu á reglugerð um framkvæmdaleyfi.

8.Samráð; Drög að frumvarpi til kosningalaga

Málsnúmer 2003200Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 20. mars 2020 þar sem dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 80/2020, "Drög að frumvarpi til kosningalaga". Umsagnarfrestur er til og með 08.04.2020.

9.Breytingar á sveitarstjórnarlögum - fjarfundir vegna Covid 19

Málsnúmer 2003195Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar auglýsing dagsett 18. mars 2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Einnig lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 19. mars 2020 frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti varðandi breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku er öllum sveitarstjórnum heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir:
1. Að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.
2. Að ákveða að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins með fjarfundarbúnaði.
3. Að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í samþykktum sveitarfélagsins.
4. Að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélags og lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn, þrátt fyrir að kveðið sé um annað í samþykktum sveitarfélagsins.
5. Að ákveða að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. auglýsingar um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, nr. 22/2013.

10.Erindi til aðila í mennta- og menningarstarfi vegna samkomubanns

Málsnúmer 2003201Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar ódagsett erindi, móttekið 19. mars 2020, frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, til aðila sem sinna mennta- og menningarstarfi á Norðurlandi vestra.

Fundi slitið - kl. 13:19.