Fara í efni

Bygging leikskóla við Árkíl 2 á Sauðárkróki

Málsnúmer 0808037

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 443. fundur - 21.08.2008

Í byrjun júlí lá fyrir kostnaðaráætlun nýs leikskóla en hún hljóðar uppá tæpar 400 milljónir króna. Eftir yfirferð sveitarstjóra og starfsmanna umhverfis- og tæknisviðs á kostnaðaráætluninni ræddu sveitarstjóri og formaður byggðaráðs samningsmál við forsvarsmenn Samfélagsins ehf. í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar frá 7.júní 2007 um að Samfélagið ehf. byggði leikskóla fyrir sveitarfélagið. Eftir ítarlegar viðræður sveitarstjóra og formanns byggðarráðs við forsvarsmenn Samfélagsins ehf. eru báðir aðilar sammála um að í ljósi tafa á hönnun og mikillar hækkunar byggingakostnaðar sé rétt fella samkomulagið úr gildi. Afar brýnt er að hraða framvindu málsins án þess að það tefjist frekar eða takmarki fjárhagslega getu til annarra framkvæmda. Því samþykkir meirihluti byggðarráðs að framkvæmdin verði boðin út með þeim hætti að byggingaraðili byggi og leigi sveitarfélaginu skólann. Í útboðsgögnum verði þess m.a. krafist að sveitarfélagið geti á leigutíma keypt húsnæðið skv. fyrirfram ákveðnum reglum, reynist það hagkvæmt. Þá verði kostnaðaráætlun gefin upp í útboðsgögnum. Sveitarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs falið að ganga frá útboðsgögnum í samvinnu við hönnuði.

Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
"Því er fagnað að meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hefur bakkað og fallist á kröfu minnihlutans að bygging leikskóla verði boðin út og umdeilt einhliða samkomulag við félag í eigu KS fellt úr gildi.
Engin umræða hefur hinsvegar farið fram um fjármögnun og eignarhald á nýjum leikskóla. Þá hefur ekki verið gerður samanburður á fjármögnunarleiðum og hvaða leið varðandi eignarhald er hagstæðust fyrir íbúa sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Þetta eru óábyrg vinnubrögð. Það er einnig talandi dæmi um þá stjórnsýslu sem meirihlutinn ástundar, að sú tillaga sem hér liggur fyrir og varðar miklar fjárskuldbindingar fyrir sveitarfélagið, skuli ekki kynnt fyrr en á þeim fundi sem hún er jafnframt tekin til afgreiðslu.
Sveitarstjórnarfulltrúum er ekki gefinn kostur á að fara yfir málið og mismunandi valkosti.
Undirritaður áskilur sér allan rétt til að fara betur yfir málið með hagsmuni íbúa Skagafjarðar að leiðarljósi."

Páll Dagbjartsson leggur fram bókun:
"Ég fagna því að meirihlutinn skuli hafa snúið við blaðinu og stefnt skuli að útboði á landsvísu á byggingu leikskólans á Sauðárkróki. Hins vegar liggja ekki fyrir gögn sem sýna hagkvæmni í þeirri leið að sveitarfélagið leigi leikskólann fullgerðan af byggingaraðilanum frekar en að fjármagna framkvæmdir með eigin lántökum. Ég styð þá ákvörðun að bygging leikskólans fari í almennt útboð en sit hjá. að svo komnu máli, við þá ákvörðun meirihlutans að velja fyrirfram þá leið að leigja af byggingaraðilanum. Frekari útreikningar þurfa að liggja fyrir fyrst."

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson leggja fram bókun:
"Í rúmt ár hefur legið fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um að fara þá leið að byggja leikskólann í leiguformi. Eina breytingin er sú að um útboðsform verður að ræða en það var m.a. ein af kröfum minnihlutans. Því eru þessi viðbrögð óskiljanleg. Tilraunir minnihlutans til að tefja framkvæmdir sem meirihluti sveitarstjórnar hefur ákveðið að fara í og eru afar mikilvægar íbúum Skagafjarðar eru óásættanlegar. Það er löngu ljóst að minnihlutanum hugnast ekki áætlanir meirihlutans um eflingu Skagafjarðar og því er reynt að tefja fyrir. Nýr leiksskóli verður boðinn út í leiguformi m.a. til að takmarka ekki aðgang sveitarfélagsins að fjármögnun til nauðsynlegra framkvæmda í sveitarfélaginu. Önnur sveitarfélög hafa mörg hver farið þessa leið eða tekið þátt í rekstri fasteignafélags um ákveðnar eignir. Í útboðsskilmálum verður kveðið á um að sveitarfélagið geti á leigutíma keypt húsnæðið skv. fyrirfram ákveðnum reglum. Sveitarfélagið Skagfjörður þarf líkt og önnur sveitarfélög að nýta færar leiðir til framkvæmda. Ljóst er að framundan er niðursveifla í íslensku hagkerfi og því eru framkvæmdir opinberra aðila mikilvægar. Því mun sveitarfélagið leita leiða til að atvinnulíf í Skagafirði verði ekki fyrir áhrifum niðursveiflu, þáttur í því er hátt framkvæmda- og fjárfestingastig."

Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
"Ítrekuð eru mótmæli vegna gerræðislegra vinnubragða meirihlutans, sem hunsar samráð og eðlilega stjórnsýsluhætti. Tafir á byggingu leikskólans eru á ábyrgð meirihlutans. Minnihlutinn hefur ítrekað lagt fram tillögur um að hraða undirbúningi að byggingu leikskóla á Sauðárkróki og að jafnframt verði valin hagkvæmasta leiðin að því markmiði. Tillögur um slíkt hafa hins vegar verið felldar af fulltrúum meirihlutans, m.a. við fjárhagsáætlunargerð."

Páll Dagbjartsson óskar bókað að hann vísi fullyrðingum meirihlutans á bug.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 451. fundur - 23.10.2008

Byggðaráð samþykkir í ljósi breyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði að leggja til við sveitarstjórn að horfið verði frá fyrri samþykkt um að framkvæmd byggingar nýs leikskóla á Sauðárkóki verði boðin út með þeim hætti að byggingaraðili byggi og leigi sveitarfélaginu skólann. Lánamarkaður til slíkra framkvæmda er nánast, ef ekki alveg, lokaður og sú leið því ekki fær. Byggðaráð telur að við þessar aðstæður sé rétt og hagkvæmast að sveitarfélagið fjármagni verkið og framkvæmi. Byggðaráð leggur til að sveitarstjórn heimili allt að 500 m.kr. lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga til framkvæmdarinnar. Byggðarráð felur sveitarstjóra að bjóða völdum aðilum í Skagafirði að gera tilboð í verkið. Jafnframt samþykkir byggðráð að í verkskilmálum verði gert ráð fyrir að verklok verði 1. mars 2010. Í ljósi aðstæðna í atvinnu- og efnahagsmálum er mælst til þess að bjóðendur beini viðskiptum til þjónustuaðila í Skagafirði með það að leiðarljósi að ávinningur af framkvæmdinni verði eftir heima í héraði.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 236. fundur - 04.11.2008

Afgreiðsla 451. fundar byggðarráðs um byggingu leikskóla við Árkíl 2 á Sauðárkróki borin undir atkvæði og samþykkt með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 465. fundur - 27.01.2009

Rætt um framkvæmdir vegna leikskólabyggingar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 241. fundur - 29.01.2009

Afgreiðsla 465. fundar byggðarráðs staðfest á 241. fundi sveitarstj. 29.01.09 með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 466. fundur - 05.02.2009

Lögð fram drög að samkomulagi við Kaupfélag Skagfirðinga um efniskaup í síðari áfanga leikskólabyggingar við Árkíl, með fyrirvara um fjármögnun verksins. Einnig lögð fram greiðsluáætlun vegna framkvæmda ársins 2009.
Byggðarráð samþykkir að fresta afgreiðslu samkomulagsins til næsta fundar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 242. fundur - 17.02.2009

Afgreiðslu þessa liðar var frestað á 466. fundi byggðarráðs.

Bjarni Jónsson lagði fram bókun:
?Ég vil vekja athygli á því að samkomulag við Kaupfélag Skagfirðinga um efniskaup vegna leikskólabyggingar við Árkíl var lagt fyrir byggðaráð undirritað og með vottum til afgreiðslu á fundi ráðsins þann 5. febrúar síðastliðinn. Ekki hafði verið áður um málið rætt í byggðaráði. Vinnubrögð sem þessi bera því ekki vott um góða stjórnsýsluhætti. Því er hinsvegar fagnað að orðið varð við ósk fulltrúa minnihlutans um að fresta afgreiðslu málsins og að jafnframt verði gerðar lagfæringar á texta til að bæta orðfæri er ætlað er að gæta hagsmuna sveitarfélagsins. Það er jákvætt að beina viðskiptum eins og kostur er til fyrirtækja í heimabyggð enda séu kjör sem í boði eru engu lakari en annarsstaðar og þess gætt í hvívetna. Ekki er samt ljóst hvað hastar svo á í þessu máli þar sem að ekki liggur enn fyrir hvernig fjármögnun framkvæmda verður háttað og hvort hagstæð lán fáist fyrir framkvæmdinni.?

Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram bókun:
?Undirritaður mótmælir rangfærslu fulltrúa VG þar sem um drög að samkomulagi var að ræða.?

Bjarni Jónsson lagði fram bókun:
?Ekkert kom fram í samkomulaginu um að um drög væri að ræða, en það var jafnframt undirritað.?

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 467. fundur - 19.02.2009

Lögð fram drög að samkomulagi við Kaupfélag Skagfirðinga um efniskaup í síðari áfanga leikskólabyggingar við Árkíl, með fyrirvara um fjármögnun verksins. Frestað erindi frá 466. fundi byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir samkomulagið með fyrirvara um fjármögnun verksins. Byggðarráð telur mikilvægt að sem víðtækast samstarf verði um byggingu hússins og felur sveitarstjóra að vinna að því og ræða við hlutaðeigandi aðila.
Sigríður Björnsdóttir óskar bókað að hún sitji hjá við afgreiðsluna.
Bjarni Jónsson leggur fram svohljóðandi bókun: "Ekki er komið að þeim tímapunkti að gera samkomulag sem þetta í ljósi þess að verkið hefur ekki enn verið fjármagnað og gengið úr skugga um fjárhagslega getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdinni. Það er jákvætt að beina viðskiptum eins mikið og kostur er í heimabyggð. Hins vegar er vandasamt að tryggja að ávallt verði hagkvæmustu kaup í boði. Ekki er ljóst að samkomulag þetta taki fyllilega á því."
Bókun meirihluta byggðaráðs:
"Samkomulaginu og ályktun byggðaráðs um mikilvægi þess að samstarf verði um bygginguna er ætlað að undirstrika vilja til að verja atvinnulíf í Skagafirði og gert með fyrirvara um fjármögnun verkefninsins. Það er því ekkert athugavert við málsmeðferðina enda vel þekkt að samþykktir sem þessar séu gerðar hjá ríki og öðrum opinberum aðilum."

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 243. fundur - 10.03.2009

Úlfar Sveinsson VG lýsti samþykki við bókun Bjarna Jónssonar í fundargerð Byggðarráðs.
Afgreiðsla 467. fundar byggðarráðs staðfest á 243. fundi sveitarstjórnar 10.03.09 með fimm atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi VG óska bókað að þeir sitji hjá við afgreiðslu málsins.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 470. fundur - 19.03.2009

Lögð fram staðfesting á samþykkt stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga um lánveitingu að upphæð 500 milljónir króna til byggingar leikskóla við Árkíl á Sauðárkróki.
Meirihluti byggðarráðs fagnar því trausti sem Lánasjóður sveitarfélaga ohf. sýnir Sveitarfélaginu Skagafirði með því að tryggja fjármagn til byggingar leikskóla við Árkíl 2.
Bjarni Jónsson leggur fram eftirfarandi bókun:"Óskandi er að lögbundin úttekt á geiðslugetu og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins í samræmi við 65. gr. sveitarstjórnarlaga leiði til sömu niðurstöðu. Slíkt er forsenda þess að heimilt sé að ráðast í svo miklar fjárhagslegar skuldbindingar. Undirritaður flutti fyrir nokkru tillögu um slíka úttekt."
Gunnar Bragi Sveinsson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun:"Við vísum til bókunar frá 467. fundi byggðarráðs þar sem fram kemur að kallað verði eftir útttekt þegar fjármögnun yrði tryggð. Er þessi vinna þegar hafin."
Bjarni Jónsson óskar bókað: "Engin slík vinna var komin í gang þegar tillaga um slíkt var felld af meirihlutanum á 467. fundi byggðarráðs."

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 245. fundur - 07.04.2009

Gísli Árnason lagði fram bókun:
?Ítrekað hefur verið kallað eftir umsögn sérfróðs aðila, vegna byggingar leikskóla við Árkíl, á fjárhagsafkomu sveitarfélagsins svo sem skylt er að gera skv. 65. grein sveitarstjórnarlaga.
Ætla má skv. fyrrnefndri lagagrein að slík umsögn þurfi að liggja fyrir áður en sveitarfélög ráðast í framkvæmdir sem nema hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna þeirra.
Hér er verið að fjalla um 500 milljón króna lánafyrirgreiðslu frá Lánasjóði sveitarfélaga án þess að fyrir liggi hvort sveitarfélagið hafi yfirleitt bolmagn til þess að takast slíkar skuldbindingar á hendur.?
Gísli Árnason,Vg

Afgreiðsla 470. fundar byggðarráðs staðfest á 245. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 480. fundur - 11.06.2009

Hinn 10. júní 2009 var opnunarfundur verðkönnunartilboða í næsta áfanga byggingar nýs leikskóla við Árkíl, uppsteypu húss. Eitt tilboð barst frá Árkíl ehf, kt. 670509-2140. Heildarupphæð tilboðsins er kr. 84.026.570,-, sem er 98,29% af kostnaðaráætlun hönnuða. Byggðarráð samþykkir með tveimur atkvæðum að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við tilboðsgjafa um verkið á grundvelli tilboðsins.
Páll Dagbjartsson óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu þessa liðar vegna skorts á upplýsingum í undirbúningi málsins.
Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
"Undirbúningur og framkvæmd þessa verks einkennist af samráðsleysi við minnihlutann. Vegna skorts á gögnum og upplýsingum hefur undirritaður ekki forsendur til að taka afstöðu til tillögu meirihlutans."

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 249. fundur - 30.06.2009

Afgreiðsla 480. fundar byggðarráðs staðfest á 249. fundi sveitarstjórnar með fimm atkvæðum.
Páll Dagbjartsson óskar bókað að fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitji hjá við afgreiðslu þessa liðar vegna skorts á upplýsingum í undirbúningi málsins.
Bjarni Jónsson VG óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu þessa liðar.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 484. fundur - 09.07.2009

Jón Örn Berndsen, sviðsstjóri Umhverfis- og tæknisviðs kom á fundinn undir þessum dagskrárlið og kynnti stöðu framkvæmda og þær breytingar sem gerðar hafa verið á hönnunarforsendum til hagræðingar.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 501. fundur - 15.12.2009

Frestað til næsta fundar byggðarráðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 503. fundur - 28.01.2010

Frestað mál frá 501. fundi byggðarráðs.

Jón Örn Berndsen sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið og kynnti framgang byggingar og kostnaðartölur vegna leikskóla við Árkíl. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 456 mkr. miðað við verðlag í janúar 2010 og verkið nokkuð á áætlun bæði hvað varðar kostnað og framkvæmd.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 522. fundur - 15.07.2010

Jön Örn Berndsen sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs kom á fundinn undir þessum dagskrárlið og fór yfir kostnað við byggingu leikskóla við Árkíl 2 og stöðu verksins. Byggðarráðsfulltrúum gafst kostur á að fara í skoðunarferð um leikskólann að aflokum fundi.