Fara í efni

Skipulagsnefnd

69. fundur 05. mars 2025 kl. 10:00 - 12:10 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigríður Magnúsdóttir formaður
  • Jón Daníel Jónsson varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Eyþór Fannar Sveinsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sigurður H Ingvarsson starfsmaður skipulagsfulltrúa
Fundargerð ritaði: Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Endurskoðun aðalskipulags Skagafjarðar 2025-2040

Málsnúmer 2404001Vakta málsnúmer

Íris Anna Karlsdóttir og Hlynur Torfi Torfason skipulagsráðgjafar frá VSÓ ráðgjöf sátu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað og fóru yfir vinnslutillögu fyrir Aðalskipulag Skagafjarðar 2025-2040.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að auglýsa vinnslutillögu fyrir Aðalskipulag Skagafjarðar 2025-2040 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Hleðslugarður í Varmahlíð - Deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2502232Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 35. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 12.02.2025 undir málsnúmerinu 2502064, þá bókað:

"Vísað frá 67. fundi skipulagsnefndar frá 6. febrúar sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað: "Haraldur Sigfús Magnússon fyrir hönd Orku náttúrunnar óskar eftir úthlutun lóðar í Varmahlíð "Varmahlíð hleðslulóð" til uppbyggingar hleðslugarðs fyrir rafbíla, byggt á þeim samtölum sem Orka náttúrunnar hefur átt við sveitafélagið Skagafjörð. Jafnframt er óskað eftir heimild til að vinna breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir umrædda lóð þar sem breytingarnar myndu felast í eftirfarandi: - Byggingarreitur á lóð norðan við leikskóla breytist til samræmis við fyrirliggjandi frumhönnun á lóð. Byggingarreiturinn færist aðeins norðar og vestar og innan hans verður heimilt að byggja spennistöð, þjónustuhús og salerni. Byggingarnar verða á einni hæð og felldar inn í brekkuna og skerða því ekki útsýni byggðarinnar fyrir ofan. - Bætt verður við kvöðum á aðliggjandi lóðum til norðurs og suðurs um aðgengi/gegnumakstur að lóðinni norðan við leikskóla en á gildandi deiliskipulagsuppdrætti eru sýnd samtengd bílastæði og þar með gegnumakstur en þó er ekki getið um kvöð um gegnumakstur í texta. Með breytingunni verður tryggð aðkoma að umræddri lóð. Það er mat umsækjenda að um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi þar sem aðeins er verið að færa byggingarreit lítillega innan lóðar og heimila byggingar á einni hæð innan breytts byggingarreits og auk þess er verið að skerpa á og tryggja aðgengi að lóðinni í gegnum aðliggjandi lóðir. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að úthluta Orku náttúrunnar "Varmahlíð hleðslulóð" lóðin norðan við gamla Póst og síma sem í dag hýsir yngra stig leikskólans í Varmahlíð. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að heimila Orku náttúrunnar að vinna óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi á eigin kostnað sbr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."
Sveitarstjórn samþykkir, með níu atkvæðum að úthluta Orku náttúrunnar "Varmahlíð hleðslulóð", lóðin norðan við gamla Póst og síma sem í dag hýsir yngra stig leikskólans í Varmahlíð. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt með níu atkvæðum að heimila Orku náttúrunnar að vinna óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi á eigin kostnað sbr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."

Fyrir liggur óveruleg deiliskipulagsbreyting "Skagafjörður - Varmahlíð, deiliskipulagsbreyting, lóð norðan við gamla Póst og síma", dags. 11.02.2025 teikning nr. 001, verknúmer 24205 unnin af Ingvari Ívarssyni hjá Landslagi ehf.
Breytingin felst í færslu og minnkun á byggingarreit á lóðinni norðan við gamla Póst og síma og að heimilt verði að byggja spennistöð, þjónustuhús og salerni á einni hæð með hámarks byggingarhæð 3 m frá gólfkvóta. Einnig bætast við kvaðir á aðliggjandi lóðum til norðurs og suðurs um gegnumakstur til að tryggja aðgengi að lóðinni.

Meirihluti skipulagsnefndar samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja óveruleg deiliskipulagsbreytingu "Skagafjörður - Varmahlíð, deiliskipulagsbreyting, lóð norðan við gamla Póst og síma" og fela skipulagsfulltrúa að skila inn til Skipulagsstofnunar skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi Vinstri grænna og óháðra situr hjá við afgreiðslu málsins.

3.Hofsós - Skólagata - Túngata - Deiliskipulag

Málsnúmer 2407101Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að deiliskipulagstillögu sem uppdráttur ásamt greinargerð fyrir "Hofsós, Miðsvæði milli Túngötu og Skólagötu", uppdráttur DS01, unnin af Ínu Björk Ársælsdóttur á Stoð ehf. verkfræðistofu.

Skipulagfulltrúa falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

4.Lækjarbakki 6 Steinsstöðum - Beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2502226Vakta málsnúmer

Sigrún Vilhelmsdóttir hjá Verkfræðistofu Suðurnesja sækir fyrir hönd lóðarhafa Lækjarbakka 6 á Steinsstöðum um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi. Breytingin felst í því að byggingarreitur á lóðinni Lækjarbakka 6 er stækkaður til norðurs um 2 metrar úr 20 m í 22 m. Þar sem þessi stækkun snýr að gögnustíg á milli lóðanna Lækjarbakka 4 og 6 þá hefur breytingin ekki áhrif á nærliggjandi lóðir.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að grenndarkynna óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir lóðarhöfum Lækjarbakka nr. 5 og 7, skv. 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Borgarsíða 7 - Lóðarúthlutun

Málsnúmer 2502183Vakta málsnúmer

Í samræmi við úthlutunarreglur sveitarfélagsins, gr. 2.3. auglýsti skipulagsnefnd Skagafjarðar iðnaðarlóðina Borgarsíðu 7 á Sauðárkróki lausa til úthlutunar.
Lóðin var auglýst frá og með 15. janúar 2025 til og með 31. janúar 2025.
Tvær gildar umsóknir bárust í lóðina Borgarsíðu 7.
Þar sem nokkrar umsóknir bárust í lóðina var Auður Steingrímsdóttir fulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra fenginn til að sjá um framkvæmd á útdrætti milli umsækjanda.
Norðar ehf. var dregin út.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að úthluta Norðar ehf. lóðina við Borgarsíðu 7 á Sauðárkróki.

6.Borgarteigur 6 - Lóðarúthlutun

Málsnúmer 2502184Vakta málsnúmer

Í samræmi við úthlutunarreglur sveitarfélagsins, gr. 2.3. auglýsti skipulagsnefnd Skagafjarðar iðnaðarlóðina Borgarteig 6 á Sauðárkróki lausa til úthlutunar.
Lóðin var auglýst frá og með 15. janúar 2025 til og með 31. janúar 2025.
Tvær gildar umsóknir bárust í lóðina Borgarteig 6, vegna úthlutunar Norðar ehf. á Borgarsíðu 7 fellur sú umsókn úr gildi.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að úthluta Stóriðjunni ehf. lóðina við Borgarteig 6 á Sauðárkróki.

7.Háeyri 8 - Lóðarúthlutun

Málsnúmer 2502185Vakta málsnúmer

Í samræmi við úthlutunarreglur sveitarfélagsins, gr. 2.3. auglýsti skipulagsnefnd Skagafjarðar iðnaðarlóðina Háeyri 8 á Sauðárkróki lausa til úthlutunar.
Lóðin var auglýst frá og með 15. janúar 2025 til og með 31. janúar 2025.
Tvær gildar umsóknir bárust í lóðina Háeyri 8. Þann 04.03.2025 fjallaði landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar um umsóknirnar og bókaði eftirfarandi:

“Háeyri 8 L197574 - Umsókn um lóð - 2501300
Tekin fyrir umsókn FISK-Seafood ehf. um Háeyri 8 við Sauðárkrókshöfn.
Landbúnaðar- og innviðanefnd samþykkir samhljóða að leggja til við skipulagsnefnd að Fisk Seafood ehf. verði úthlutað lóðinni að Háeyri 8 þar sem að um hafsækna starfsemi sé að ræða."

“Háeyri 8 L197574 - Umsókn um lóð - 2501409
Tekin fyrir umsókn Norðar ehf. um Háeyri 8 við Sauðárkrókshöfn fyrir aðstöðu fyrir inn- og útflutning sem hagkvæmt er að hafa nálægt höfninni.
Landbúnaðar- og innviðanefnd er sammála um að Norðar ehf. sé ekki með starfsemi sem krefjist aðstöðu á höfninni þar sem landrými er takmörkuð gæði. Því er lagt til við skipulagsnefnd að hafna umsókninni."

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að úthluta FISK-Seafood lóðinni við Háeyri 8 á Sauðárkróki.

8.Sjóvörn Hofsósi - Ósk um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2403157Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 31. fundar sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 23.10.2024 þá bókað:
"Pétur Ingi Sveinbjörnsson fyrir hönd Vegagerðarinnar afturkallar hér með fyrri umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir byggingu sjóvarnar á Hofsósi dags. 1. ágúst sl. Ástæða afturköllunar er breytt tillaga að aðkomuleið að framkvæmdarsvæðinu. Samhliða bréfi þessu sendir Vegagerðin sveitarfélaginu nýja og endurbætta umsókn um sömu framkvæmd. Vegagerðin óskar hér með eftir framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins Skagafjarðar skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sbr. reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Yfirlit yfir framkvæmd og tilhögun verks. Sú framkvæmd sem sótt er um leyfi fyrir felur í sér byggingu sjóvarnar á Hofsósi á grundvelli samgönguáætlunar, og var hún sett á áætlun á grundvelli erindis frá sveitarfélaginu Skagafirði. Um er að ræða um 150 m nýja sjóvörn neðan við Suðurbraut en Vegagerðin hefur unnið að útfærslu sjóvarnargarðsins í samráði við sveitarfélagið. Meðfylgjandi eru teikningar B-10389-95, sjá fylgiskjal 1. Aðkoma að verkstaðverðurum verndarsvæði í byggð. Ekið verður með efni í gegnum hafnarsvæðið, skarð gert í brimvörn, ræsi sett í Hofsá á meðan á framkvæmdum stendur og malarefni þar yfir. Í verklok verður ræsi fjarlægt og brimvarnargarði endurraðað. Þegar komið er niður á eyrina verður slétt út akstursleið utarlega á eyrinni og bætt við möl ef þörf er á. Eyrin er mynduð af framburði úr Hofsá og hefur vaxið fram um tugi metra frá því innri hafnargarðurinn var byggður um 1970. Þá tekur eyrin sífeldum breytingum og er mótuð af ágangi sjávar, einkum að vetri til þar sem öldur eru þyngri. Það eru því engin langtímaáhrif af slóðagerð á eyrinni og líklegt er að öll ummerki verði farin að liðnum einum vetri frá verklokum. Þegar komið er út fyrir verndarsvæðið tekur við um 100 m kafli þar sem fyrir er stuðlað grjót. Til að hlífa þessum kafla og halda í karakter svæðisins er lagt er til að á þeim kafla verði lagður malarslóði ofan á stuðlaða grjótið til að koma efni að verkstað. Í verklok verður möl fjarlægð að hluta ofan af grjótinu en það sem eftir er mun hreinsast með ágangi sjávar. Gert er ráð fyrir að notast verði við fjögurra öxla vörubíla eða “trailera? til að aka efni í verkið og áætlaður fjöldi ferða erum 250. Grjót og sprengdur kjarni úr Arnarbergsnámu við Vindheima, áætlað magn er um 2.000 m3. Möl úr Grafargerði í fyllingu, áætlað magn er um 550 m3. Fornleifaskráning hefur farið fram á svæðinu og hefur Vegagerðin haft samráð við minjavörð Norðurlands vestra. Aðkoma liggur ekki yfir þekktar fornminjar eða nærri þeim. Gert er ráð fyrir að skipulagsnefnd sveitarfélagsins muni framkvæma grenndarkynningu í samræmi við ákvæði 8. gr. reglugerðar nr.772/2012, um framkvæmaleyfi, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Aðkoma að sjóvörninni er um verndarsvæði í byggð en framkvæmdin sjálf er utan þess svæðis. Framkvæmdin er því ekki tilkynningarskyld á grundvelli laga nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Áætlað er að framkvæmdir hefjist haustið 2024 og verði lokið 15.júní 2025."

Framkvæmdarleyfið var grenndarkynnt 10.01.2025-12.02.2025 á vef Skipulagsstofnunar málsnúmer 38/2025 (sjá hér: https://skipulagsgatt.is/issues/2025/38), einnig var hagsmunaaðilum sendur bréfpóstur og rafrænn póstur í gegnum mitt Ísland.
Ellefu umsagnir bárust á umsagnartímanum.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að veita umbeðið framkvæmdaleyfi.

9.Skagafjarðarhöfn - Beiðni um framkvæmdaleyfi - Þekja

Málsnúmer 2502273Vakta málsnúmer

Dagur Þ. Baldvinsson f.h. Skagafjarðarhafna um framkvæmdaleyfi vegna nýrrar þekju við Sauðárkrókshöfn.
Vegagerðin hefur unnið að undirbúningi á steyptri þekju og lagnavinnu við hafnarkant Efri garðs á Sauðárkróki samkvæmt samgönguáætlun. Helstu verkþættir eru: Steypa upp vatns- rafbúnaðarhús og 2 stk. undirstöður fyrir ljósamöstur, leggja ídráttarrör, leggja heita- og kaldavatnslagnir, setja upp vatnshana og tenglaskápa, grófjafna yfirborð og þjappa, fínjafna undir steypu, slá upp mótum, járnabinda og steypa þekju, alls um 2.590 m2.
Verkliðirnir voru unnir í samráði við hafnir Skagafjarðar og Skagfjarðarveitur. Verkefnið var ákvarðað og tekið inn í samgönguáætlun í samráði við sveitarfélagið og höfnina.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að veita umbeðið framkvæmdaleyfi í samræmi við verklýsingu Vegagerðarinnar dags. desember 2024 og jafnframt verði farið fram á að Skagafjarðarhafnir láti vinna breytingu á gildandi deiliskipulagi í samræmi við fyrirhugaðar framkvæmdir á eigin kostnað.

10.Hofsós sorpmóttöku- og gámasvæði - Umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2503024Vakta málsnúmer

Hjörvar Halldórsson f.h. veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar óskar eftir framkvæmdaleyfi vegna jarðvegsskipta í aðkomuvegi að sorpmóttökusvæði og áhaldahúsi, frá Norðurbraut að geymsluporti, jarðvegsskipti í sorpmóttökusvæði og að reisa girðingu umhverfis sorpmóttökusvæði. Meðfylgjandi uppdrættir nr. S-101, dags. 17. feb. 2025, og S-102, dags. 4. feb. 2025 og verklýsing, í verki 41840205 gera grein fyrir framkvæmdinni. Gögn voru unnin á Stoð verkfræðistofu ehf. af Atla Gunnari Arnórssyni.
Meðfylgjandi verklýsing gerir grein fyrir framkvæmdum og frágangi. Sorpmóttaka á framkvæmdatíma verður sunnan við núverandi sorpmóttökusvæði.

Framkvæmdasvæðið er á athafnasvæði nr. AT601 í aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Þá er breyting á aðalskipulagi á lokastigum þar sem hluta svæðisins verður breytt í iðnaðarsvæði nr. I601. Einnig er deiliskipulag fyrir svæðið á lokastigum. Framkvæmdir, sem hér er sótt um leyfi fyrir, eru samræmi við markmið og ákvæði gildandi aðalskipulags, og áðurnefndrar breytingar á aðalskipulagi, varðandi athafnasvæði og iðnaðarsvæði og byggir á þeim framkvæmdum sem líst er í deiliskipulagi fyrir sorpmóttöku- og gámasvæðið á Hofsósi, sem brátt tekur gildi.

Framkvæmdasvæðið er á landi Hofsóss, landnr. 218098. Aðliggjandi er lóðin Norðurbraut, landnr. 146707. Skagafjörður er lóðarhafi Norðurbrautar, L146707.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að veita umbeðið framkvæmdaleyfi að uppfylltum skilyrðum.

11.Bakkakot L146146 - Staðfesting landamerkja og umsókn um stofnun landspildu

Málsnúmer 2502035Vakta málsnúmer

Swanhild Ylfa K R Leifsdóttir og Þorsteinn Ragnar Leifsson þinglýstir eigendur jarðarinnar Bakkakots í Skagafirði, landnúmer 146146 óska eftir staðfestingu landamerkja og stofnunar landspildu úr landi jarðarinnar, sem "Bakkakot I", skv. meðfylgjandi undirritaðri merkjalýsingu dags. áritana 03.02.2025, uppdráttur númer 71930105.
Merkjalýsingin var unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Ínu Björk Ársælsdóttir.

Óskað er eftir að Bakkakot I, verði skráð sem "jörð".
Lögbýlarétturinn mun fylgja Bakkakoti, landnr. 146146.

Landskipti og landnotkun eru í samræmi við ákvæði 12. kafla greinagerðar aðalskipulags Sveitararfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og fyrirhuguð landnotkun er í samræmi við skilmála aðalskipulags fyrir landnotkun á landbúnaðarsvæði nr. L-1 og L-3. Ekki er verið að sækja um lausn úr landbúnaðarnotkun.
Engin verndarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi eru innan útskiptrar spildu.

Merkjalýsingin hefur verið skráð í landeignarskráningarkerfi HMS, málsnr. M001365.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja umbeðin landskipti.

12.Furulundur - Lóðarmál (Samn. ágúst 1982. Seðlabanki - Seyluhreppur. )

Málsnúmer 2412115Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá skipulagsnefndar 14.11.2024. Á fundinum var eftirfarandi bókað:

"Málið áður á dagskrá á 30. fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar þann 18.09.2024, eftirfarandi bókað:
"Vísað frá 56. fundi skipulagsnefndar frá 23. ágúst sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar, þannig bókað: "RARIK óskar eftir með tölvupósti dags. 02.07.2024 að fá lóð undir dreifistöð/spennistöð í Varmahlíð við Furulund til að auka afhendingar möguleika af raforku í Varmahlíð. Meðfylgjandi er teikning af staðsetningu lóðar sem sótt er um, en tryggja þarf aðgengi að húsi frá götu og strengja sem fara til og frá að spennistöðinni. Ástæða umsóknar um lóð við Furulund er til komin vegna fyrirhugaðrar hleðslustöðvar Ísorku á lóðinni Varmhlíð KS L146115. En með því að staðsetja hana á umbeðnu svæði nýtast innviðirnir einnig til að styrkja dreifikerfi RARIK á Varmahlíðarsvæðinu bæði vegna orkuskipta fyrir íbúa ásamt að nýtast til fyrir fyrirhugaðar rafbílahleðslur Ísorku. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að grenndarkynna umbeðna lóðarstofnun fyrir eigendum Lundar L146119." Sveitarstjórn samþykkir, með níu atkvæðum að grenndarkynna umbeðna lóðarstofnun fyrir eigendum Lundar L146119."
"Engar umsagnir bárust við grenndarkynninguna og því lögð fram merkjalýsing fyrir lóðarstofnun lóðar fyrir spennustöð við Furulund í Varmahlíð dags. 12.11.2024. Málsnúmer hjá landeignaskrá er M001283. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða umbeðna lóðarstofnun."

"Afgreiðsla 62. fundar skipulagnefndar staðfest á 32. fundi sveitarstjórnar 27. nóvember 2024 með sjö atkvæðum."


Til að afgreiða umbeðna lóðarstofnun í samræmi við lög nr. 6/2001 um skráningu, merki og mat fasteigna, skipulagslög nr. 123/2010 og reglugerð nr. 160/2024 um merki fasteigna er nauðsynlegt að ganga frá hnitsettri afmörkun og merkjalýsingu fyrir Furulund og Furulund 3, L186104. Furulundi var skipt út úr landi/lóðinni Fagrahvolli, landnr. 146111, þegar þáverandi hreppsnefnd Seyluhrepps keypti hluta lands, sem var í eigu starfsmannafélags Seðlabanka Íslands, skv. samningi dags. ágúst 1982. Furulundi 3 var skipt út úr umræddri spildu með bókun hreppsnefndar þann 12. maí 1998. Lóðamörk, sem sýnd eru á meðfylgjandi lóðayfirliti, byggja á afsalsbréfi, dags. 29.10.1933, afsali dags. 29.08.1941, samningi dags. ágúst 1982, lóðablaði dags. maí 1982, bókunum úr fundagerðarbók hreppsnefndar dags. 12.05.1998, óstaðfestri tillögu að deiliskipulagi, dags. nóv 1979 og óstaðfestri breytingartillögu að skipulagi, dags. 29.12.1983, landnýtingaruppdrætti Varmahlíðar, dags. 10.10.1983, götuhönnun fyrir Furulund frá árinu 2000, lóðablaði dags. 27.05.2005 og mælingum dags. 01.07.2024.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram, ganga frá merkjalýsingu og gera lóðarleigusamninga við hlutaðeigandi.

13.Hólagerði L146233 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi

Málsnúmer 2502228Vakta málsnúmer

Fyrir liggur umsagnarbeiðni byggingarfulltrúa dags. 21. febrúar síðastliðinn með vísan til 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um umsókn frá Þóri Guðmundssyni byggingarfræðingi, f.h. Önnu Lilju Guðmundsdóttur og Finns Sigurðarsonar. Umsókn um leyfi til að byggja við íbúðarhús á jörðinni Hólagerði, L146233. Framlagðir aðaluppdrættir gerðir af Þóri Guðmundssyni byggingarfræðingi. Uppdrættir eru í verki HA24148, númer A-101, A-102, A-103, A-104 og A-105, dagsettir 19.01.2025.
Fyrirliggur umsögn minjavarðar án athugasemda.

Einnig liggur fyrir erindi dags. 02.03.2025 frá Þóri Guðmundssyni f.h. landeigenda þar sem óskað er eftir undanþágu vegna fjarlægðarmarka frá Merkigarðsvegi.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að óskað verði eftir undanþágu Innviðaráðuneytis frá d. lið 5.3.2.5, gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, vegna 50 m fjarlægðarmarka byggingarreits frá Merkigarðsvegi nr. (7575).
Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt samhljóða að fela skipulagsfullrúa að afgreiða erindið að fenginni umsögn Innviðaráðuneytisins.

14.Þrastarstaðir L146605 - Beiðni um endurskoðun byggingarreits og endurnýjun byggingarleyfis

Málsnúmer 2409309Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 62. fundar skipulagsnefndar þann 14.11.2024 þá bókað:
"Fyrir liggur svar Skipulagsstofnunar dags. 25.10.2024 vegna fyrirspurnar Skagafjarðar varðandi 18. gr. reglugerðar nr. 505/2000 vegna Þrastarstaða L146605. Þar kemur m.a. fram það álit að reglugerðarákvæðið eigi við þegar ekki liggur fyrir staðbundið hættumat. Jafnframt er í bréfinu bent á að þar sem í niðurstöðu staðbundins hættumats Veðurstofu Íslands komi fram að hluti byggingarreitsins sé innan hættusvæðis A sé e.t.v. tilefni til að skoða hvort hægt sé að hnika reitnum til svo hann verði allur utan hættusvæða. Umrætt staðbundið hættumat Veðurstofunnar er dags. 05.07.2024, uppfært 18.09.2024 og er fyrirliggjandi. Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að samþykkja umbeðinn bygginarreit með þeim skilyrðum að hann verði skertur svo enginn hluti hans verði innan skilgreinds hættusvæðis A, skv. hættumati Veðurstofu Íslands dags. 18.09.2024."

Fyrir liggur uppfærður afstöðuuppdráttur byggingarreits dags. 10.09.2019 með breytingu nr. 2 dags. 28.02.2025 sem gerður er að beiðni landeigenda Þrastarstaða L146655.

Byggingarreitur hefur verið minnkaður þannig að enginn hluti hans er innan skilgreinds hættusvæðis A, skv. hættumati Veðurstofu Íslands dags. 18.09.2024 sbr. einnig bókun Skipulagsnefndar 14.11.2024.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja umbeðinn byggingarreit á Þrastarstöðum.

15.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 58

Málsnúmer 2502024FVakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 58 þann 26.02.2025.

Fundi slitið - kl. 12:10.