Fara í efni

Félagsmála- og tómstundanefnd

9. fundur 09. febrúar 2023 kl. 15:00 Fundarherbergi Faxatorgi 1
Nefndarmenn
  • Eyrún Sævarsdóttir formaður
  • Sigurður Hauksson varaform.
  • Anna Lilja Guðmundsdóttir aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Þorvaldur Gröndal frístundastjóri
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri
Fundargerð ritaði: Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Ósk um afnot af íþróttahúsinu á Sauðárkróki

Málsnúmer 2301227Vakta málsnúmer

Tekin fyrir beiðni Körfuknattleiksdeildar Tindastóls um gjaldfrjáls afnot af Íþróttahúsinu á Sauðárkróki 9. apríl n.k., vegna páskamóts Molduxa og páskaballs körfuknattleiksdeildarinnar. Nefndin samþykkir beiðni körfuknattleiksdeildar UMFT og fellir niður leigu samkvæmt gjaldskrá íþróttamannvirkja.

2.Beiðni um breytingu á opnunartíma sundlauga um helgar

Málsnúmer 2301205Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá stjórn Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði, þar sem þess er óskað að opnunartími sundstaða í Skagafirði verði lengdur yfir veturinn þá daga sem fyrirséð er að margir gestir séu á svæðinu. Árið 2016 var ákveðið að lengja opnunartíma sundstaða yfir páskana til þess að koma til móts við samskonar óskir. Frá þeim tíma hefur einnig verið aukið við opnun laugarinnar í Varmahlíð, annars vegar með lengri opnun á laugardögum og hins vegar sunnudagsopnun allt árið um kring. Þegar opnunartími sundstaða fyrir árið 2023 var ákveðinn við gerð fjárhagsáætlunar s.l. haust var enn horft til þess að koma til móts við þessar óskir og ákveðið að breyta opnunartíma Sundlaugarinnar á Sauðárkróki um helgar. Þess má jafnframt geta að sundstaðirnir hafa verið í góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Skagafirði og rekstraraðila skíðasvæðisins í Tindastóli og lengt opnun lauganna hafi þess verið óskað vegna stórra hópa eða mikillar aðsóknar. Ítrekað er að fjárhagsáætlun fyrir þetta ár var samþykkt í desember s.l. Sú þjónusta sem í boði er ræðst ávallt af því fjármagni sem ákveðið er í samþykktri fjárhagsáætlun. Þjónustuaukning þarf að taka mið af því svigrúmi sem fjárhagsáætlun leyfir.

3.Íslandsmót í Boccia 20.-23. okt. 2023

Málsnúmer 2302019Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá íþróttafélaginu Grósku þar sem óskað er eftir afnotum af íþróttahúsinu á Sauðárkróki undir Íslandsmótið í Boccia, dagana 20.-23. október n.k. Nefndin samþykkir erindið og lýsir ánægju sinni með að mótið skuli haldið hér.

4.Knattspyrnudeild Hvatar - beiðni um æfingatíma á gervigrasvelli

Málsnúmer 2211288Vakta málsnúmer

Tekin fyrir beiðni frá knattspyrnudeild Hvatar um æfingatíma á gervigrasvellinum á Sauðárkróki fyrir æfingar yngri flokka félagsins. Félagsmála- og tómstundanefnd tekur jákvætt í erindið en áréttar að íþróttamannvirki, rekin af Skagafirði, skulu fyrst og fremst standa íþróttafélögunum innan Skagafjarðar til afnota. Nefndin vísar að öðru leyti í gjaldskrá íþróttamannvirkja, sem tók gildi 1. janúar 2023, þar sem gjald vegna útleigu kemur fram. Nefndin felur frístundastjóra að vera í sambandi við knattspyrnudeild Hvatar vegna útleigunnar.

5.Knattspyrnudeild Hvatar - beiðni um leikdaga á gervigrasvelli

Málsnúmer 2302020Vakta málsnúmer

Tekin fyrir beiðni frá knattspyrnudeild Hvatar um tíma á gervigrasvellinum á Sauðárkróki undir leiki 3. deildarliðs Kormáks/Hvatar á vormánuðum 2023. Beiðnin er tilkomin vegna óvissu um ástand grasvallarins á Blönduósi í fyrstu umferða Íslandsmótins í knattspyrnu. Félagsmála- og tómstundanefnd tekur jákvætt í erindið en en áréttar að íþróttamannvirki, rekin af Skagafirði, skulu fyrst og fremst standa íþróttafélögunum innan Skagafjarðar til afnota. Nefndin vísar að öðru leyti í gjaldskrá íþróttamannvirkja, sem tók gildi 1. janúar 2023, þar sem gjald vegna útleigu kemur fram. Nefndin felur frístundastjóra að vera í sambandi við knattspyrnudeild Hvatar vegna leikjanna.

6.Styrkbeiðni vegna frísbígolfvallar

Málsnúmer 2212142Vakta málsnúmer

Tekin fyrir styrkbeiðni frá íbúasamtökunum Byggjum Hofsós og nágrenni, óskað er eftir styrk við að koma upp frisbígolfvelli á Hofsósi. Áður tekið fyrir á fundi nefndarinnar 19. janúar sl. Nefndin fagnar framtakinu og samþykkir að veita styrk að upphæð kr. 200.000 til verksins. Tekið af lið 06890.

7.24. unglingalandsmót UMFÍ 2023

Málsnúmer 2110015Vakta málsnúmer

Frístundastjóri kynnti stöðuna á undirbúningi fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki dagana 3.-6. ágúst n.k. Framkvæmdanefnd mótsins hefur haldið tvo formlega fundi. Formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ er Aldís Hilmarsdóttir. Skagafjörður tilnefndi fjóra fulltrúa í framkvæmdanefnd; Hebu Guðmundsdóttur, Ingvar Pál Ingvarsson, Sólborgu Borgarsdóttur og Þorvald Gröndal.
Félagsmála- og tómstundanefnd beinir því til veitu- og framkvæmdasviðs að umferðaröryggis verði gætt í hvívetna á meðan á móti stendur.

8.Öldungaráð Skagafjarðar fundir

Málsnúmer 2111265Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrsta fundargerð Öldungaráðs frá 20. janúar sl. Formaður ráðsins er Gunnsteinn Björnsson, varaformaður er Stefán A. Steingrímsson. Í reglum Öldungaráðs segir m.a. að hlutverk þess sé að vera formlegur og milliliðalaus vettvangur samráðs og samstarfs við sveitarstjórn og félagsmála- og tómstundanefnd um hagsmuni eldri borgara í sveitarfélaginu. Öldungaráð er skipað fulltrúum frá Félagi eldri borgara, Heilbrigðisstofnun Noruðurlands á Sauðárkróki og sveitarstjórn Skagafjarðar. Félagsmála- og tómstundanefnd lýsir ánægju með að ráðið sé tekið til starfa og væntir þess að það verði til þess að eldri borgarar hafi aukin og virk áhrif á mótun stefnu og framkvæmd sveitarfélagsins á þeim sviðum er lúta að aðstæðum og þjónustu við fólk á efri árum.

9.Samstarf um málefni fatlaðs fólks

Málsnúmer 2203049Vakta málsnúmer

Lagður fram nýr samningur sveitarstjórna Húnabyggðar, Húnaþings vestra, Skagabyggðar, Skagafjarðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk. Samningurinn tók gildi 1. janúar sl. og er sveitarfélagið Skagafjörður leiðandi sveitarfélag á þjónustusvæðinu og með ábyrgð á þjónustunni. Samningurinn byggir á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, s.s. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki samþætta og heildstæða þjónustu og stuðla að auknu sjálfstæði fatlaðs fólks. Félagsmála- og tómstundanefnd fer með framkvæmd verkefnisins og tekur til umfjöllunar fundargerðir fagráðs og framkvæmdaráðs. Félagsmála- og tómstundanefnd fagnar að nýr ótímabundinn samningur hafi verið gerður, samningur sem byggir á áratuga reynslu og þekkingu og væntir þess að þessi skipan þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra verði farsæl.

Fundi slitið.