Árshátíð Grunnskólans austan Vatna verður í Höfðaborg á Hofsósi í dag fimmtudaginn 22. mars og hefst kl 18:15. Í boði verða fjölbreytt skemmtiatriði, leikur, söngur og dans. Nemendur verða með pizzusölu þegar dagskránni lýkur og síðan verður slegið upp diskóteki.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í sal bóknámshúss FNV í gær. Þar öttu kappi fjölmargir efnilegir lesarar úr grunnskólum Skagafjarðar og nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar léku fyrir gesti. Nemendur lásu texta úr bókinni Strokubörnin á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn, ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson og ljóð að eigin vali. Lesarar stóðu sig með stakri prýði og án efa hefur dómnefnd verið mikill vandi á höndum.
Leikhópurinn Lotta er á ferð um landið með sýninguna Galdrakarlinn í Oz. Í dag, miðvikudaginn 21. mars, verður sýning í menningarhúsinu Miðgarði kl. 17:30. Miða má nálgast á tix.is eða í gegnum heimasíðu Leikhópsins Lottu.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélagsins. Samstarfið felur í sér að sveitarfélagið innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út.