Fara í efni

Skipulagsnefnd

52. fundur 13. júní 2024 kl. 09:00 - 12:27 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigríður Magnúsdóttir formaður
  • Eyþór Fannar Sveinsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
  • Þröstur Magnússon varam.
Starfsmenn
  • Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Sigurður H Ingvarsson starfsmaður skipulagsfulltrúa
Fundargerð ritaði: Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Aðalskipulagsbreyting - Hofsstaðir - VÞ-8

Málsnúmer 2406124Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 sem felur í sér breytingu á skilmálum og afmörkun á verslunar og þjónustu VÞ-8 Hofsstaðasel.
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Landeigendur á Hofsstöðum óska eftir breytingu á aðalskipulagi í samræmi við uppbyggingaráform á ferðaþjónustu á Hofsstöðum.
Á Hofsstöðum hefur verið rekin veitinga- og gistiþjónusta á tveimur lóðum innan jarðarinnar, Hofsstaðir lóð 1 og Hofsstaðir lóð 2 frá árinu 2010. Staðarval uppbyggingar var valið með tilliti til landslags, ásýndar og útsýnis. Einnig var horft til þess að velja svæði sem ekki nýttist í landbúnað. Aðalskipulagsbreytingin tekur mið af deiliskipulagi sem er í vinnslu.
Framtíðar uppbygging gerir ráð fyrir stækkun beggja lóða, fjölgun gistirýma og stækkun veitingasölu. Mannvirki skulu falla vel að núverandi byggingum og umhverfi. Aðkomuvegur er frá Siglufjarðarvegi nr. 76. Ekki er þörf á nýjum aðkomuvegi.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu Hofsstaða VÞ-8 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Aðalskipulagsbreyting - Verslun og þjónusta - Haganesi - VÞ-12 - VÞ-13

Málsnúmer 2406123Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 sem felur í sér skilgreiningu á nýjum verslunar og þjónustusvæðum við Efra-Haganes I (lóð 3) L219260 og Brautarholts-Mýri L146801 í Haganesvík þar sem áform eru um ferðaþjónustu.
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Lóðarhafar lóðanna við Efra-Haganes I (lóð 3) og Brautarholts-Mýri í Haganesvík óska eftir breytingu á Aðalskipulagi sveitarfélags Skagafjarðar 2020-2035.
Efra-Haganes I (lóð 3) stendur við sjóinn á Haganesi, gamla verslunarhúsið í Haganesvík í Fljótum. Húsnæðinu hefur verið breytt í hljóðupptökuver.
Brautarholt-Mýri er sumarhúsalóð í landi Brautarholts í Haganesvík í Fljótum. Á lóðinni stendur gamall sumarbústaður en til stendur að byggja nýtt hús, 8 herbergja gistihús á tveimur hæðum. Hús í næsta nágrenni eru í 60-120 m fjarlægð frá fyrirhuguðum byggingarreit. Nýbygging mun ekki skerða útsýni nágrannahúsa. Áætlað er að reka gistiþjónustu og hljóðupptökuver á þessum stöðum.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu Haganess VÞ-12 og VÞ-13 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Aðalskipulagsbreyting - Verslun og þjónusta - Gýgjarhóll, Gýgjarhóll 1 og Gýgjarhóll 2

Málsnúmer 2406122Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 sem felur í sér breytingu á landnotkun innan jarðamarka Gýgjarhóls, Gýgjarhóls 1 og Gýgjarhóls 2.
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin felur í sér að skilgreina þrjú ný verslunar- og þjónustusvæði og nýtt skógræktarsvæði. Landnotkun sem breytingin nær til er skilgreind sem landbúnaðarland í núverandi aðalskipulagi.
Jörðinni Gýgjarhóll hefur verið skipt upp í nokkrar landspildur. Áform núverandi landeigenda Gýgjarhóls (L145974), Gýgjarhóls 1 (L233888) og Gýgjarhóls 2 (L233889) er að byggja upp ferðaþjónustu á löndum sínu og stunda skógræktar fyrir ofan 90 m hæð yfir sjávarmáli.
Breytingin felur í sér breytta landnotkun landbúnaðarsvæðis.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu Gýgjarhóls, SL-8, VÞ-14, VÞ-15 og VÞ-16 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sigurður H. Ingvarsson vék af fundi við afgreiðslu erindisins.

4.Aðalskipulagsbreyting - Veitur á Sauðárkróki - VH401

Málsnúmer 2406121Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 vegna áforma um nýja staðsetningu á fiskeldi og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum á Sauðárkróki. Lögð er fram breyting á skilmálum í greinargerð aðalskipulagsins fyrir veitur á Sauðárkróki.
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Í tengslum við nýja staðsetningu á fiskeldi og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum á Sauðárkróki er gert ráð fyrir að nýta sjóveitu til vatnsöflunar fyrir fiskeldi háskólans.
Staðsetning sjóveitu er áætluð við ströndina skammt vestan við vegamót Sauðárkróksbrautar og Strandvegar. Ekki liggur fyrir endanleg hönnun á umfangi sjóveitu og lengd sjóveitulagnar.
Breytingin felur í sér breytingu á landnotkunarfláka AT-403 og nýjum landnotkunarfláka VH-401 og breytingu á lögun fyrir efnistöku- og efnislosunarsvæði E-401. Stærð aðliggjandi svæða breytist til samræmis.
Breyting tekur til uppdráttar og töflu 4.4 í kafla 4.6 og viðbótar við kafla 4.17 þar sem bætt verður við nýrri töflu 4.16 í kafla 4.17.3 Veitur og helgunarsvæði (VH).

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu kafla um veitur á Sauðárkróki VH-401 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Aðalskipulagsbreyting - Íbúðarbyggð ÍB-404

Málsnúmer 2406120Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Skagafjarðar leggur fram tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélags Skagafjarðar 2020 - 2035 sem felur í sér aukið byggingarmagn innan svæðis ÍB-404 á Sauðárkróki, sem afmarkast af Skagfirðingabraut, Hegrabraut, Strandvegi og Ránarstíg.
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að þróun íbúðarbyggðar ÍB-404 stuðli að samfelldri byggð og hagkvæmri nýtingu innviða með því að byggja upp nærri núverandi götum, veitukerfum og þjónustustofnunum. Breytingin felur í sér að fjöldi nýrra íbúða innan ÍB-404 fjölgar um 10 og verður eftir breytingu 20 íbúðir. Heildarfjöldi íbúða verður 280 eftir breytingu.
Deiliskipulag er í vinnslu fyrir hluta af ÍB-404, Víðigrund og hluta Smáragrundar. Með breytingunni hækkar þéttleiki á svæði ÍB-404 um 0,5 íb/ha og þéttleiki á íbúðarsvæði á Sauðárkróki (tafla 4.1) hækkar um 0,1 íb/ha. Ekki er gerð breyting á uppdrætti aðalskipulagsins.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu íbúðarbyggðar ÍB-404 á Sauðárkróki í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Aðalskipulagsbreyting - Hafnarsvæði - Sauðárkrókshöfn

Málsnúmer 2406119Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 vegna aukins byggingarmagns innan hafnarsvæðis Sauðárkrókshafnar í samræmi við gildandi deiliskipulag dags. 20.4.2022.
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 2. mgr. 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035, kafla 4.9, er sett fram stefna um höfnina á Sauðárkróki.
Þar kemur meðal annars fram í markmiðum fyrir hafnarsvæðið að "Fyrirtæki á hafnarsvæðinu í fiskvinnslu, flutninga- og ferðaþjónustu hafi möguleika til að vaxa og dafna, að höfnin sé ákjósanlegur möguleiki fyrir flutningaskip og tengingu við gamla bæinn sé góð."
Með auknu byggingarmagni innan hafnarsvæðisins er veitt það svigrúm sem þarf til stækkunar og eflingu á hafnarsvæðinu.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu Hafnarsvæðis á Sauðárkróki H-401 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Aðalskipulagsbreyting - Efnistöku- og efnislosunarsvæði E-401 á Sauðárkróki við Gönguskarðsá

Málsnúmer 2406118Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 sem felur í sér breytingar á efnistöku- og efnislosunarsvæði E- 401 á Sauðárkróki við Gönguskarðsá.
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin felur í sér breytta lögun fyrir efnistöku- og efnislosunarsvæði E-401. Stærð aðliggjandi svæða breytist til samræmis. Breyting tekur til uppdráttar og töflu 4.13 í kafla 4.14. - Breyting á þéttbýlisuppdrætti Sauðárkróks er sett fram aftast í greinargerð.
Ekki er gerð breyting á stefnu aðalskipulags að öðru leyti.
Efnistöku- og efnislosunarsvæðið E-401 verður skipt upp í þrjú svæði. Hluti svæðisins sem í dag er ekki lengur nýtt sem efnistöku- og efnislosunarsvæðið verðu skilgreint sem opið svæði OP-405. Svæðið verður frágengið og grætt upp. Þar myndast tenging opinna svæða milli Nafa, íþróttasvæði mótorcross-íþrótta og Gönguskarðsár. Vestasti hluti efnistöku- og efnislosunarsvæðisins fær nýtt landnotkunarnúmer E-404, það svæði verður eingöngu notað sem efnismóttaka og efnisgeymsla. Það svæði sem eftir er (E-401) breytist lítilega í lögun og verður áfram notað sem efnistökusvæði.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu efnistöku- og efnislosunarsvæði á Sauðárkróki við Gönguskarðsá E-401 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Aðalskipulagsbreyting - Athafnarsvæði Stóru-Brekku

Málsnúmer 2406117Vakta málsnúmer

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020 - 2035 sem felur í sér að skilgreina athafnasvæði á jörðinni Stóru-Brekku í Fljótum (L 146903).
Sett er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í vinnslu til kynningar sbr. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin felur í sér að bæta við athafnasvæði á jörðinni Stóru-Brekku í Fljótum.
Á Stóru-Brekku er stuðningsþjónusta við ferðaþjónustustarfsemi í Fljótum. Þar verða geymslur, verkstæði og þjónusta við tæki og bifreiðar. Einnig breytist tafla 14.5 í kafla 14.5.
Ekki er gerð breyting á stefnu aðalskipulags að öðru leyti.
Á jörðinni er verkstæði og véla- og verkfærageymsla, aðrar byggingar skráðar íbúðarhús.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að kynna vinnslutillögu fyrir breytingu Stóru-Brekku AT-2 í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Umsagnarbeiðni vegna máls 0791 2023; Breyting á aðalskipulagi Fjallabyggðar 2020-2032

Málsnúmer 2406019Vakta málsnúmer

Fjallabyggð hefur óskað eftir umsögn Skagafjarðar varðandi breytingu á aðalskipulagi Fjallabyggðar 2020-2032- Hafnarsvæðið Siglufirði, nr. 0791/2023: Auglýsing tillögu (Breyting á aðalskipulagi) og er kynningartími frá 3.6.2024 til 19.7.2024.

Sjá nánar hér: https://skipulagsgatt.is/issues/2023/791

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemd við framkomna breytingartillögu á aðalskipulagi Fjallabyggðar 2020-2032.

10.Breyting á deiliskipulagi Sauðárkrókshafnar - Deiliskipulag - Sætún

Málsnúmer 2402025Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá skipulagsnefndarinnar þann 30. maí síðastliðinn, þar sem afgreiðslu var frestað.
Farið yfir samantekt á innsendum umsögnum við auglýsta breytingu á deiliskipulagi Sauðárkrókshafnar, mál nr. 238/2024 (https://skipulagsgatt.is/issues/2024/238) í Skipulagsgáttinni, samráðsgátt Skipulagsstofnunar um skipulagsmál.
Breytingin á deiliskipulaginu var í auglýsingu frá 06.03.2024 til 19.04.2024 og bárust 5 umsagnir á auglýsingatímanum.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

11.Tumabrekka land 2 L220570 - Deiliskipulag

Málsnúmer 2405682Vakta málsnúmer

Lögð fram skipulagslýsing “Tumabrekka, Hofsósi, Skagafirði" dags. 27.05.2024, útg. 1.0, uppdráttur nr. SL01, í verki nr. 75860001 unnin af Ínu Björk Ársælsdóttir hjá Stoð ehf. verkfræðistofu. Skipulagssvæðið afmarkast af landamerkjum Tumabrekku land 2. Núverandi aðkoma að svæðinu er um heimreiðarveg í landi Tumabrekku L146597, frá Siglufjarðarvegi. Gerð er grein fyrir nýrri vegtengingu í skipulagslýsingunni. Ekkert ræktað land og engar byggingar eru innan skipulagssvæðisins. Viðfangsefnið er að gera grein fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu innan Tumabrekku 2 land. Þar sem gerð er grein fyrir byggingarreitum fyrir íbúðarhús og vélageymslu. Skilmálar og nýtingarhlutföll verða ákvörðuð í deiliskipulagstillögunni, þegar helstu stærðir mannvirkja og lóða liggja fyrir.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn Skagafjarðar að samþykkja skipulagslýsinguna fyrir Tumabrekku 2 land, Hofsósi, Skagafirði og Skipulagsstofnun verði send lýsingin til umsagnar skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lýsingin verði kynnt almenningi skv. sömu grein.

12.Athafnarsvæði - Sauðárkrókur - AT-403 - Deiliskipulag

Málsnúmer 2403135Vakta málsnúmer

Lögð fram skipulagslýsing “Sauðárkrókur, athafnarsvæði AT-403" dags. 04.06.2024, útg. 1.0, uppdráttur nr. SL01, í verki nr. 56293300 unnin af Birni Magnúsi Árnasyni hjá Stoð ehf. verkfræðistofu.
Eftirspurn eftir lóðum á athafnasvæðum hefur aukist til muna á Sauðárkróki síðustu árin og hefur framboð á lausum athafnalóðum minnkað samhliða. Vorið 2024 voru 3 hús á athafnasvæði í byggingu og áform eru um uppbyggingu á fleiri lóðum sem eru óbyggðar en hefur verið úthlutað. Skagafjörður hyggst bregðast við þessari þróun með því að skipuleggja lóðir á þeim hluta athafnasvæðis nr. AT-403, sem lóðir hafa ekki verið stofnaðar á.
Afmörkunin fylgir mörkum athafnasvæðis AT-403 að vestan-, sunnan- og austanverðu. Að norðanverðu afmarkast svæðið að mestu
leyti af núverandi byggð en einnig mörkum AT-403, austan Sauðárkróksbrautar (75). Skipulagssvæðið er um 21,7 ha að stærð.
Skilmálar eins og nýtingarhlutfall, eða hámarksbyggingarmagn lóða, hámarksbyggingarhæð o.fl. verða ákvarðaðir þegar helstu stærðir og forsendur liggja fyrir.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á að reynt sé að flýta verkefninu eins og kostur er þar sem vöntun sé orðin á lóðum fyrir athafnarstarfsemi á Sauðárkróki.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn Skagafjarðar að samþykkja skipulagslýsinguna fyrir Sauðárkrókur athafnarsvæði AT-403 og Skipulagsstofnun verði send lýsingin til umsagnar skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lýsingin verði kynnt almenningi skv. sömu grein.

13.Umsókn um lóðir - Borgarflöt 9, 11 og 13 og sameiningu lóða

Málsnúmer 2406134Vakta málsnúmer

Þórður Magnússon fyrir hönd Vélsmiðju Grundarfjarðar sækir um lóðirnar Borgarflöt 9, 11 og 13 og sameiningu þeirra.

Fyrirhugað er að byggja 1.000 m2 hús á lóðunum, samskonar hús og verið er að reisa á lóðinni Borgarflöt 7 af sama framkvæmdaraðila. Framkvæmdatíminn er áætlaður sumarið 2025.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að lóðirnar nr. 9, 11 og 13 við Borgarflöt verði sameinaðar og lóðin fái heitið Borgarflöt 9-13, og þeirri lóð úthlutað til Vélsmiðju Grundarfjarðar.

14.Skefilsstaðir L145911 á Skaga, Skagafirði - Umsókn um framkvæmdaleyfi og stofnun byggingarreits

Málsnúmer 2406079Vakta málsnúmer

Eyjólfur G. Sverrisson f.h. Skefilsstaða ehf., þinglýsts eiganda jarðarinnar Skefilsstaðir, landnúmer 145911, á Skaga, óskar eftir leyfi til að byggja upp vegslóða á landi jarðarinnar.
Meðfylgjandi yfirlitsuppdrættir og greinargerð, í verki nr. 7210010, útg. 06. júní 2024, gera grein fyrir framkvæmdinni. Gögn unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Birni Magnúsi Árnasyni.
Framkvæmdasvæðið er á landbúnaðarsvæði nr. L-2 í aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035.
Framkvæmdin er í samræmi við markmið og ákvæði aðalskipulags um nýtingu á landbúnaðarsvæði nr. L-2.
Jafnframt er óskað eftir stofnun 4.808 m² byggingarreits á landi Skefilsstaða, landnr. 145911, skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S101 í verki nr. 72100101, útg. 06. júní 2024. Um er að ræða byggingarreit fyrir sumarbústað, hámarksbyggingarmagn 160 m². Hámarksbyggingarhæð verði 7 m. Byggingarreitur er í um 800 m fjarlægð frá Skagavegi (745). Ásýndaráhrif frá Skagavegi verða því hverfandi.
Byggingarreitur er á landbúnaðarsvæði L-2 í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og á landbúnaðarlandi í flokki III, sæmilegt ræktunarland. Skv. ákvæðum aðalskipulags um L-2 landbúnaðarsvæði er heimilt að nýta til byggingar, byggja stök mannvirki og/eða breyta eldri byggingum, til annarrar starfsemi, en landbúnaðarstarfsemi, ef slíkur rekstur styður við landbúnaðarstarfsemi eða búsetu á svæðinu. Byggingarreitur sem sótt er um er að öllu leyti á ógrónu mellendi og munu framkvæmdir innan hans ekki raska gróðri. Landeigandi telur verulega takmarkaða möguleika á að rækta upp landið sem fyrirhugaður byggingarreitur liggur á og hefur því áhuga á að skoða aðra nýtingarkosti.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn Skagafjarðar að samþykkja umbeðinn byggingarreit að fenginni jákvæðri umsögn Minjastofnunar Íslands og veita framkvæmdaleyfi fyrir vegslóða að fenginni umsögn Vegagerðarinnar.

15.Gautland L146798, í Fljótum - Umsókn um landskipti og stofnun byggingarreits

Málsnúmer 2406087Vakta málsnúmer

Jón Heiðar Ríkharðsson og Rannveig Rist þinglýstir eigendur jarðarinnar Gautlands, landnr. 146798, í Fljótum, Skagafirði, óska eftir að stofna 4.500 m² lóð úr landi jarðarinnar sem "Gautland 2", skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki nr. 79011200 útg. 06. júní 2024. Afstöðuuppdrátturinn unnin á Stoð verkfræðistofu ehf. af Birni Magnúsi Árnasyni. Óskað er eftir því að útskipt spilda verði skráð sem íbúðarhúsalóð (10).
Landskipti eru í samræmi við Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og breytt landnotkun skerðir ekki búrekstrarskilyrði á landi í landbúnaðarflokki I og II. Ekkert ræktað land er innan útskiptrar spildu.
Landheiti útskiptrar spildu vísar til upprunajarðar með næsta lausa staðvísi. Landheiti þetta er ekki skráð á annað landnúmer í sveitarfélaginu.
Engin mannvirki eru innan útskiptrar spildu
Engin hlunnindi fylgja landskiptum.
Lögbýlisréttur fylgir áfram Gautlandi, L146798.
Kvöð um yfirferðarrétt að útskiptri spildu er um heimreið á landi Gautlands, L146798, eins og sýnt er á meðfylgjandi afstöðuuppdrætti.

Einnig er óskað eftir stofnun 2.200 m² byggingarreits skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti. Byggingarreiturinn er innan merkja Gautlands 2 og mun tilheyra þeirri landeign að landskiptum loknum. Um er að ræða byggingarreit fyrir íbúðarhús, að hámarki 180 m² að stærð, hámarks hæð verður 7 m frá gólfi í efstu brún á þaki. Lögð verður áhersla á að fyrirhuguð bygging falli vel að nærliggjandi umhverfi.
Skv. gildandi aðalskipulagi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi til stakra bygginga án deiliskipulags, ef uppbygging fellur að markmiðum aðalskipulags um búsetu í dreifbýli og er til þess að styrkja atvinnulíf í dreifbýli, og ef uppbygging nýtir núverandi veitu- og samgöngukerfi. Uppbygging sem hér er sótt um kallar ekki á lagningu nýrra stofnlagna eða nýrrar vegtengingar við þjóðveg.

Merkjalýsing skv. reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024 er fylgiskjal með umsókn. Stofnað hefur verið mál með málsnúmer M000464 hjá Landeignaskráningu HMS, landeignaskraning.hms.is.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja umbeðin landskipti og byggingarreit að fenginni jákvæðri umsögn Minjastofnunar Íslands.

16.Molastaðir í Fljótum, Skagafirði L146862 - Umsókn um stofnun byggingarreits

Málsnúmer 2406098Vakta málsnúmer

Halldór Gunnar Hálfdánarson, þinglýstur eigandi jarðarinnar Molastaðir, landnúmer 146862 óskar eftir heimild til að stofna 2850,5 m² byggingarreit á landi jarðarinnar, skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki 79010301 útg. 7. júní 2024. Afstöðuppdráttur var unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Þórði Karli Gunnarssyni.

Um er að ræða byggingarreit fyrir fjárhús. Hámarksbyggingarmagn verður 800 m² og hámarksbyggingarhæð verður 7 m frá gólfi í mæni.
Byggingarreitur, sem sótt er um, er á landbúnaðarsvæði L2-III í við aðalskipulag Skagafjarðar 2020-2035 og er í samræmi við ákvæði aðalskipulags um uppbyggingu á landbúnaðarsvæðum. Reiturinn gengur ekki á ræktað land. Framkvæmd styður við starfsemi á svæðinu sem er til eflingar á núv. landbúnaðarstarfsemi sem er á landi. Framkvæmd mun ekki raska góðu ræktarlandi og er fyrirhugaður byggingarreitur á óræktuðu landi. Mannvirki mun ekki hefta ásýnd á nærliggjandi mannvirki eða umferð þar sem aðrir bæir standa töluvert ofar í landi og gætt er að fjarlægðartakmörkunum frá vegi.
Gætt er að fjarlægðarmörkum frá árfarvegi og Ólafsfjarðarvegi skv. gildandi skipulagsreglugerð og vegalögum.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja umbeðinn byggingarreit að fenginni jákvæðri umsögn Minjastofnunar Íslands.

17.Prestsbær L217667 og Ás 3 L236647 - Sameining landeigna

Málsnúmer 2406115Vakta málsnúmer

Ingar Jensen, eigandi Prestsbæjar ehf., sem er þinglýstur eigandi jarðarinnar Prestsbær, landnr. 217667 og lóðarinnar Ás 3, landnr. 236647, í Hegranesi, óskar eftir að sameina landeignirnar undir landnúmeri Prestsbæjar, skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki nr. 74921002 útg. 05. júní 2024. Afstöðuuppdrátturinn unnin á Stoð verkfræðistofu ehf. af Birni Magnúsi Árnasyni.
Að sameiningu lokinni mun landeignin heita Prestsbær með landnr. 217667 en Ás 3 með landnr. 236647 fellur út.
Fyrir sameiningu er skráð stærð Prestsbæjar 142 ha en mælist 1.413.793,5 m² skv. hnitaskrá á teikningu nr. 0752, dags. ágúst 2007. Ás 3 er 5,44 ha (54.354 m²) fyrir sameiningu. Eftir sameiningu verður Prestsbær, L217667, 146,8 ha (1.468.148 m²). Ástæða misræmis í stærð er óþekkt en leiðréttist hér með.
Sameining landeignanna er í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035.
Engin bygging eða ræktað land er innan Áss 3.
Hvorki Prestsbær né Ás 3 er skráð lögbýli skv. lögbýlaskrá 2023.

Merkjalýsing skv. reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024 er fylgiskjal með umsókn. Stofnað hefur verið mál með málsnúmer M000477 hjá Landeignaskráningu HMS, landeignaskraning.hms.is.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja umbeðna sameiningu þessara landa.

18.Ytri-Hofdalir L146411 - Umsókn um stofnun byggingarreits

Málsnúmer 2406056Vakta málsnúmer

Guðrún Þórdís Halldórsdóttir fyrir hönd Ytri-Hofdala ehf., sem er þinglýstur eigandi jarðarinnar Ytri-Hofdalir, landnúmer 146411 óskar eftir heimild til að stofna 6375 m² byggingarreit á landi jarðarinnar, skv. meðfylgjandi afstöðuuppdrætti nr. S01 í verki nr.73690000 útg. 28. maí 2024. Afstöðuppdráttur unnin á Stoð ehf. verkfræðistofu af Hallgrími Inga Jónssyni.

Um er að ræða byggingarreit vegna fyrirhugaðrar fjósbyggingar. Hámarksbyggingarmagn verður 2500 m² og hámarksbyggingarhæð verður 7 m frá gólfi í mæni.
Byggingarreitur, sem sótt er um, er á skilgreindu landbúnaðarsvæði nr. L-1 í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og er í samræmi við ákvæði aðalskipulags um uppbyggingu á landbúnaðarsvæðum. Byggingaráform eru í samræmi við almenn ákvæði um landnotkun á landbúnaðarsvæðum sem talin eru upp í kafla 12.4 í greinargerð aðalskipulags. Jafnframt segir í sama kafla:
"Sveitarstjórn getur ákveðið að veita megi leyfi til byggingar á stökum byggingum sem tengjast starfsemi bújarðar án deiliskipulags, ef umfang og/eða aðstæður gefi tilefni til. Á það við þegar byggingaráform varða ekki hagsmuni annarra en umsækjandans, samrýmast landnotkun og yfirbragði svæðisins og hafa ekki neikvæð umhverfisáhrif."

Sótt verður um nýbyggingu á fjósi sem er grundvöllur starfsemi bújarðarinnar. Byggingaráform stuðla að aukinni velferð dýra á búinu með auknu rými, uppfylla reglugerðir, hagræðing í rekstri og samrýmast núverandi landnotkun. Lögð verður áhersla á að áformuð nýbygging muni ekki breyta byggðamynstrinu og samrýmist einnig yfirbragði og ásýnd svæðisins og hafi ekki neikvæð umhverfisáhrif.

Byggingaráform kunna að varða hagsmuni eigenda nærliggjandi landeigna og er erindið því einnig áritað af eigendum Ytri-Hofdala lóð 1, L222784 til staðfestingar um að þeim hafi verið kynnt byggingaráformin og geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða uppbyggingu.
Meðfylgjandi er umsögn minjavarðar, dags. 29. maí 2024.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn Skagafjarðar að samþykkja umbeðinn byggingarreit.

19.Gilhagi L146163 - Umsagnarbeiðni frá byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2405634Vakta málsnúmer

Fyrir liggur umsagnarbeiðni byggingarfulltrúa dags. 21. maí síðastliðinn með vísan til 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um leyfi fyrir viðbyggingu, fjárhúsum sem fyrirhugað er að byggja á jörðinni Gilhaga, L146163.
Meðfylgjandi aðaluppdrættir gerðir af Þóri Guðmundssyni byggingarfræðingi. Uppdrættir eru í verki HA24140, númer A-101, A-102, A-103, A-104, A-105 og A-106 dagsettir 18.04.2024.

Fyrirliggur samþykki nærliggjandi lóðarhafa (L228838 og L146164) ásamt umsögn minjavarðar dags. 17. maí 2024.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn Skagafjarðar að samþykkja umbeðinn byggingarreit.

20.Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna borholu BM-14

Málsnúmer 2406116Vakta málsnúmer

Gunnar Björn Rögnvaldsson fyrir hönd Skagafjarðarveitna, hitaveitu, óskar eftir heimild skipulagsnefndar Skagafjarðar fyrir eftirfarandi framkvæmdum á borholusvæði Skagafjarðarveitna í Borgarmýrum (L143926) við Sauðárkrók. Vísað er til meðfylgjandi uppdrátta sem gerðir eru á Stoð ehf. verkfræðistofu af Atla Gunnari Arnórssyni, nr. S-101, S-102, S-103 og S-104 í verki nr. 3122-0101, dags. 22. maí 2024.

Framkvæmdirnar sem um ræðir eru eftirfarandi:
1. Útbúa borplan vegna borunar á holu BM-14. Um er að ræða malarfyllingu ofan á núverandi land, þykkt a.m.k. 0,8 m, efni flutt úr Gránumóanámu.
2. Bora nýja vinnsluholu fyrir hitaveituna á Sauðárkróki, hola nr. BM-14. Áætlað bordýpi er 700-800 m. Áætlað er að holan verði fóðruð niður í 200-250 m með 10¾" vinnslufóðringu.
Ráðist er í borun holunnar til þess að bregðast við aukinni vatnsnotkun á Sauðárkróki, vonast er til að hún skili allt að 50 l/s af 75°C heitu vatni.
Áætlað er að borun hefjist í júlí 2024, reiknað er með að verkinu ljúki haustið 2024.

3. Leggja stofnlögn fyrir hitaveitu, DN300 foreinangrað stál, frá holu BM-14 og að núverandi gasskilju við dælustöð Skagafjarðarveitna. Lögnin verður grafin niður á um 0,65 m dýpi, sönduð og fyllt yfir með uppgröfnu efni og gengið frá yfirborði landsins þannig að sem minnst ummerki sjáist. Heildarlengd lagna um 150 m.

4. Stofna byggingarreit fyrir allt að 15 m2 stórt borholuhús við borholu BM-14. Í húsinu verður búnaður vegna vöktunar á holunni og borholuloki, hugsanlega verður komið þar fyrir borholudælu síðar. Byggingarefni og byggingarstíll í samræmi við borholuhús sem fyrir eru á svæðinu.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 er athafnasvæði Skagafjarðarveitna í Borgarmýrum skilgreint sem iðnaðarsvæði I401, nánar tilgreint sem borholusvæði hitaveitu. Framkvæmdir þær sem hér er fjallað um miða að því að auka afkastagetu núverandi borholusvæðis og útvíkka það kerfi sem fyrir er á svæðinu. Í greinargerð með aðalskipulaginu, kafla 4.7, kemur fram að almennt sé heimilt að stækka mannvirki á iðnaðarsvæðum, og eru framkvæmdir þessar þannig í samræmi við markmið og ákvæði skipulagsins.

Hluti borplans gengur inn á óskipt land Sjávarborgar I (L145953), Sjávarborgar II (L145955) og Sjávarborgar III (L145956), samþykki eigenda jarðanna liggur fyrir, og er það fylgiskjal með umsókn þessari.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að veita umbeðið framkvæmdarleyfi og samþykkja umbeðinn byggingarreit.

21.Míla ehf. - Framkvæmdaleyfisumsókn - Ljósleiðaravæðing á Sauðárkróki

Málsnúmer 2405694Vakta málsnúmer

Grétar Ómarsson fyrir hönd Mílu óskar eftir framkvæmdaleyfi vegna lagningu ljósleiðara í eftirtalin 81 staðföng.
Áætlaður verktími eru 30-35 dagar og stefnt er að framkvæmdum í júlí og ágúst 2024.
Meðfylgjandi umsókn eru verkblöð sem gera grein fyrir framkvæmdinni, unnin hjá Mílu dags. 23.05.2024, verk nr. 1266504s937F.
Staðföng eru eftirtalin:
Bárustígur 1 og 3.
Fornós 1, 4, 6, 7, 9, 10, 11, 12, 13 og 14.
Grundarstígur 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 10, 12, 14, 16, 18, 20, 22, 24, 26, 28 og 30.
Hólavegur 2, 4, 6, 8, 10 A, 10 B, 12, 14, 19, 21, 23, 25, 27, 29, 31, 33, 35 og 37.
Hólmagrund 1, 2, 3, 4, 6, 8, 9, 10, 11, 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20, 22 og 24.
Víðigrund 7, 9, 11 og 13.
Öldustígur 2, 4, 6, 8, 10, 12, 14 og 16.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að veita umbeðið framkvæmdarleyfi.

22.Leiksvæði við Bárustíg 1

Málsnúmer 2405639Vakta málsnúmer

María Anna Kemp Guðmundsdóttir íbúi á Bárustíg 1 á Sauðárkróki sendir inn ábendingu varðandi áhyggjur hennar af öryggi barna á þar til gerðu leiksvæði sem staðsett er á opnu svæði bakvið Bárustíg, milli Skagfirðingarbrautar og Hólavegar. Svæðið er skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem íbúðarbyggð ÍB-404.
Umrætt svæði er að hluta nýtt sem leiksvæði fyrir börn hverfisins og en um það er einnig farið á vélknúnum ökutækjum og er þá farið nærri leiksvæðinu og aðkomu að því.

Skipulagsnefnd þakkar Maríu Önnu Kemp Guðmundsdóttur fyrir erindið og samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram í samræmi við umræður fundarins.

23.Fjöllin (vestur) - Þjóðlenda, austurhluti Hofsafréttar

Málsnúmer 2406062Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Regínu Sigurðardóttur fyrir hönd forsætisráðuneytisins dags. 22.05.2024 um stofun fasteignar (þjóðlendu) fyrir Fjöllin (vestur) sbr. úrskurð Óbyggðarnefndar í máli nr. 4/2008 dags. 19.06.2009, þann hluta þjóðlendunnar sem er innan marka Skagafjarðar. Skagafjörður austan Vestari-Jökulsár.

Skipulagsnefnd samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu.

24.Samráð; Drög að reglugerð um breytingu á skipulagsreglugerð nr 90 2013

Málsnúmer 2406017Vakta málsnúmer

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 112/2024, "Drög að reglugerð um breytingu á skipulagsreglugerð, nr. 90/2013". Umsagnarfrestur er til og með 24.06.2024.

Sjá nánar hér: https://island.is/samradsgatt/mal/3751.

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 112/2024, "Drög að reglugerð um breytingu á skipulagsreglugerð, nr. 90/2013". Umsagnarfrestur er til og með 24.06.2024.

Sjá nánar hér: https://island.is/samradsgatt/mal/3751

Sigríður Magnúsdóttir fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
"Í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010 er í 9. gr opið á að ráðherra geti skipað sérstaka raflínunefnd, að ósk framkvæmdaraðila eða sveitarfélags, sem hefur það hlutverk að undirbúa, kynna og afgreiða raflínuskipulag fyrir framkvæmd í flutningskerfi raforku sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og afgreiða umsókn um framkvæmdarleyfi fyrir henni. Sú breyting sem Innviðaráðuneytið kynnir nú er nánari og ítarlegri útfærsla á því hvernig vinnu raflínunefndar skuli háttað og er það gert með nýjum kafla í gildandi skipulagslögum. Þessi tillaga að breytingum á lögunum er augljóslega í samræmi við stefnu Ríkisstjórnar Íslands en í stjórnarsáttmála Ríkisstjórnarinnar er meðal annars sagt í kafla um orkumál og náttúruvernd „Horft verður til lagabreytinga til að tryggja skilvirkari málsmeðferð innviðaframkvæmda á borð við flutningskerfi raforku, m.a. á grundvelli fyrirliggjandi vinnu þar um“. Verði umrædd breyting á skipulagslögum að veruleika þýðir það í raun að skipulagsvald sveitarfélaga færist yfir á raflínunefndina um þær raflínuleiðir sem nefndin verður stofnuð um. Sveitarfélagið mun engu að síður hafa lögbundna aðkomu að öllum stigum málsins eins og lögin kveða á um. Ég tel sveitarfélagið Skagafjörður hafi í gegnum tíðina lagt áherslu á að skipulagsvald sveitarfélaga verði ekki skert, en engu að síður skil ég tilgang hins opinbera með þessum breytingum en vinnsla á skipulagi raflína og þá sérstaklega í meginflutningskerfinu hefur reynst erfið og flókin eins og dæmin sanna. Ég er því sátt við að þessi breyting verði gerð á Skipulagslögunum en leggur til að sá tími sem sveitarfélagið hefur til endanlegrar afgreiðslu samkvæmt grein 7.4.1 verði lengdur í 8 vikur."

Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi Vinstri grænna og óháðra leggur fram eftirfarandi bókun:
"Eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga eru skipulagsmál. Kjörnir fulltrúar fara með skipulagsvald sem gerir þeim kleift að móta ásýnd og umhverfi sveitarfélagsins með framtíðarsýn um uppbyggingu þess að leiðarljósi. Þetta á jafn við um þéttbýlisstaði og óbyggð landsvæði sem eru deiliskipulögð í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Í þessum drögum að reglugerð um breytingu á skipulagsreglugerð er ætlun að auka og bæta samstarf á milli framkvæmdaaðila og sveitarfélaga hvað varðar raflínulagnir sem er vel en þær breytingar sem lagðar eru til eru veigamiklar og takmarka lýðræðislega getu almennings til að standa vörð um umhverfi og náttúru. Er ástæða til að minna á ákvæði Árósasamningsins sem Ísland hefur undirgengist, en hann tryggir rétt almennings til að koma að ákvarðanatöku um náttúruna.
Réttur sveitarfélaga til sjálfstjórnar hér á landi hefur verið verndaður í stjórnarskrá allt frá árinu 1874 þegar Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá. Sveitarfélög eru handhafar framkvæmdavalds og gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki. Þau eru það stjórnvald sem er næst fólkinu og getur því veitt íbúum aukin tækifæri til samráðs og beinnar þátttöku og verið þar með besti jarðvegurinn fyrir beint lýðræði. Verði þessi drög samþykkt, skerðist bæði aðkoma almennings að skipulagsferlinu og umhverfismat einstakra framkvæmda verður ekki eins faglegt og áður.
Það er þannig hverju sveitarfélagi mikilvægt að móta sér stefnu í skipulagsmálum sem tekur mið að þörfum íbúa og framtíðarsýn um þróun samfélagsins. Það er mjög alvarlegt að ætlast sé til þess að kjörnir fulltrúar sveitarfélag afsali sér hluta þessa skipulagsvalds með drögum að reglugerð um breytingu á skipulagsreglugerð, nr. 90/2013. Raflínunefnd er stjórnsýslunefnd sem skipuð af ráðherra til að annast gerð raflínuskipulags, veita framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku sem byggjast á samþykktri kerfisáætlun og hafa eftirlit með þeim framkvæmdum og framkvæmd raflínuskipulagsins.
Ætlunin er þannig að færa hluta skipulagsvaldsins frá kjörnum fulltrúum sveitarfélaga til raflínunefndar, sem hafa allajafna ekki sömu nálægð eða þekkingu á því samfélagi sem við á hverju sinni. Raflínuskipulag kemur til með að verða rétthærra en svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag fyrir þá framkvæmd sem það tekur til. Með þessu er vegið mjög að rétti sveitarfélaga til sjálfstjórnar, rétti sem hefur verið verndaður í stjórnarskrá í 150 ár. Rétt væri að svæðisskipulag sveitarfélaga væri rétthæst og skipulagsvald falli aftur til sveitarfélaga ef raflínunefnd kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um legu raflína.
Sveitarstjórn hvers sveitarfélags færist með þessum drögum frá því að hafa skipulagsvaldið yfir í að geta einungis gert athugasemdir við það skipulag sem á að viðhafa í eigin sveitarfélagi hvað raflínur varðar. Það eru lokaorð raflínunefndar sem send verða ráðherra til samþykktar og geta þau áform verið þvert á vilja sveitarstjórnar í hverju sveitarfélagi. Sömu sveitarstjórnum er svo gert skylt að taka framkvæmdina upp í eigin aðalskipulagi. Verði þessi drög samþykkt öðlast ráðherra vald sem hægt er að nýta til að flýta málsmeðferð en tryggir á sama tíma ekki faglega meðferð. Að hefta skipulagsvald sveitarstjórna með þessum hætti er með öllu ótækt."

Eyþór Sveinsson fulltrúi Byggðalistans leggur fram eftirfarandi bókun:
"Það er ekkert vafamál að raforkuöryggi er ein af mikilvægustu grunnstoðum þjóðarinnar. Ísland stendur höllum fæti þegar kemur að flutningskerfi raforku og ljóst er að byggja þarf upp innviði landsins til að tryggja öryggi um allt land.
Færa má rök fyrir því að uppbygging innviða hafi að einhverjum hluta tafist vegna skipulagsvalds sveitarfélaga. Sveitarfélögum ber þó skylda að fara eftir skipulagslögum og því er rétt að leita leiða til að einfalda lögin svo bæta megi þjóðaröryggi.

Með drögum að reglugerð um breytingu skipulagsreglugerðar, nr. 90/2013 er þó gengið allt of langt í þeirri einföldun sem um ræðir og skipulagsvaldið tekið af sveitarfélögum landsins þegar ný raflínuskipulög eru annars vegar.
Fram kemur að ráðherra skipi raflínunefnd sem annist eigi gerð raflínuskipulaga. Slíkt skipulag verði æðri öðrum skipulögum, þ.e.a.s. svæðis-, aðal- og deiliskipulögum Sveitarfélagana.
Við gerð raflínuskipulaga koma sveitarfélög hvergi að ákvörðunartökum og geta einungis í umsagnarferli komið ábendingum á framfæri. Eftir auglýsta umsagnarferla er það í höndum raflínunefndar hvernig vinna eigi úr innsendum umsögnum. Sameiginleg niðurstaða um samþykki nefndarinnar þarf að liggja fyrir innan átta vikna ella færast í hendur ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun.
Sveitarfélögum er í framhaldi af samþykki raflínuskipulags skylt að færa það inn á aðalskipulag þess við næstu endurskoðun, innan fjögurra ára.

Einföldun á lögum vegna þjóðaröryggis ætti að byggjast á færri ferlum innan skipulagslaga í stað þess að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum. Slíkt er fordæmisgefandi.
Þar sem raflínuskipulag nær til hverju sinni þarf að tilnefnda ákveðinn fjölda fulltrúa úr sveitarfélögum til að eiga sæti í raflínunefnd. Það gefur sveitarfélögum vettvang til halda sínu skipulagsvaldi."

25.Deiliskipulagsbreyting - Íbúðarreitur milli Sæmundargötu og Freyjugötu á Sauðárkróki

Málsnúmer 2402049Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dags. 03.06.2024 frá Einari I. Ólafssyni fyrir hönd Friðriks Jónssonar ehf. varðandi málsmeðferð skipulagsferla hjá sveitarfélaginu.

Skipulagsnefnd þakkar fyrir innsendar ábendingar og mun hafa þær til hliðsjónar í framtíðarverkefnum en upplýsir jafnframt um að nefndin vinnur eftir þeim lögum og reglum sem um málaflokkinn gilda ásamt leiðbeiningum Skipulagsstofnunar.

26.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 40

Málsnúmer 2406000FVakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa frá fundi nr. 40 þann 05.06.2024.

Fundi slitið - kl. 12:27.